16.12.1977
Neðri deild: 34. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

90. mál, iðjuþjálfun

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er efnislega samhljóða lögum um sjúkraþjálfun, eins og þau voru endanlega samþykkt hér á síðasta Alþingi. Hér er um að ræða hliðstæðar stéttir þótt menntun sé önnur og störfin þar af leiðandi ekki heldur þau sömu.

Stétt iðjuþjálfa er ung hér á landi þótt iðjuþjálfun eigi sér í einhverri mynd að sjálfsögðu lengri sögu. Markviss notkun á ýmsum störfum til læknismeðferðar fyrir allar tegundir sjúklinga hefur hins vegar aðeins verið viðurkennd síðan 1918. Meðferð eða lækning með iðjuþjálfun fer þannig fram, að iðjuþjálfinn notar gagnlegar athafnir eða störf, aðlagar þau og sníður til í þeim tilgangi að mæta mikilhæfum þörfum, sem fólk hefur yfirleitt: þörf fyrir vinnu, skemmtun eða tómstundaiðju, þörf fyrir menntun og þörf til þess að skapa.

Þessi starfsgrein er mjög ung hér á landi. Um 15 iðjuþjálfar með fulla menntun og réttindi eru nú við störf á Íslandi, bæði við geðlækningar og líkamlega endurhæfingu. Iðjuþjálfafélag Íslands var stofnað í mars 1976, og rétt til inngöngu í það hafa allir löggildir iðjuþjálfar sem lokið hafa prófi frá viðurkenndum iðjuþjálfaskóla, þ.e.a.s. viðurkenndum af alþjóðasambandi iðjuþjálfa. Slíkur skóli er ekki til hér á landi, en áætlun hefur verið gerð um menntun iðjuþjálfa við Háskóla Íslands í tengslum við nám í sjúkraþjálfun sem nú hefur verið tekið upp.

Nám iðjuþjálfa tekur víðast hvar þrjú ár, sums staðar þó fjögur ár og á einstaka stað aðeins tvö ár. Námið er allviðamikið, og vil ég í því sambandi vísa í upptalningu á bls. 3 í grg. með frv.

Það er mat heilbr: og trmrn., að tímabært sé orðið að setja lög um iðjuþjálfun og iðjuþjálfa og veita þannig þessari stétt lögverndaða viðurkenningu á starfsréttindum og starfsheiti. Eins og ég sagði í upphafi, þá er þetta frv. samið með hliðsjón af þeirri afgreiðslu sem frv, til laga um sjúkraþjálfun fékk á Alþ. á sínum tíma. Það er von mín, að þetta frv. um iðjuþjálfa geti fengið góða og greiða meðferð hér í hv. þd. Um einstakar gr. frv. sé ég ekki á þessu stigi ástæðu til að fjalla, en leyfi mér að vísa til athugasemda sem frv, fylgja.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.