17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Helgi Seljan — og þó e.t.v. enn fremur — að þakka hæstv. landbrh. fyrir mjög ítarlega og fróðlega fræðslu, sem hann hefur látið okkur í té hér í d. um stöðuna í landbúnaðarmálum frá sínu sjónarmiði, þó e.t.v. fyrst og fremst frásögn hans af þeim mikla fjölda úrræða sem grípa hefur orðið til í hans ráðherratíð — og þó fremur lengur — til bóta á brýnni neyð bændastéttarinnar sem til er komin af ýmsum sökum, Nú fer því náttúrlega víðs fjarri, að það hvarfli að mér að ætla að kenna hæstv. landbrh., Halldóri E. Sigurðssyni, einum manna eða öðrum fremur um það, hvernig nú er komið hag bændastéttarinnar í launamálum. Ég dreg það ekki í efa, að honum hefði verið það skapi næst að búa þannig um hnútana, að miklu betur væri nú ástatt um hag bænda en raun ber vitni. Eins og hann sagði okkur í fyrri hluta ræðu sinnar, þá hefur hann nú farið með málefni landbúnaðarins í 7 ár. Virtist hann minnast þess tímabils með mestri gleði er honum tókst samstarfi við aðra vinstri stjórnarflokka á árinu 1974 að koma hag og launakjörum bændastéttarinnar upp í það sem best hefur verið, þegar afurðasala bænda varð mest á landi hér og neysla búfjárafurða varð mest á hvern íbúa landsins, t.d. dilkakjötsneyslan var 49.2 kg á mann. Það er beinlínis vegna þess að launakjör bænda, hagur bænda er undir því kominn að launastéttirnar í landinu hafi efni á að kaupa búfjárafurðir og neyta þeirra.

Mér er það minnistætt þegar fyrrv. formaður Stéttarsambands bænda, Sverrir heitinn Gíslason í Hvammi, var að útskýra fyrir mér samstarf sitt við forustumenn verkalýðsamtakanna í sexmannanefndinni, sem hann sagði mér að hafði verið ágætt, og útskýrði fyrir okkur þáv. ungum framsóknarmönnum með hvaða hætti kjör bænda væru órjúfanlega hnýtt á landi hér kjörum launafólksins í bæjunum og hvernig aðeins með nánu samstarfi, góðu samkomulagi og skilningi á þessu grundvallaratriði yrði hægt að treysta vöxt og viðgang bændastéttarinnar á Íslandi. Ég hygg að enginn góðgjarn maður vilji draga í efa einlægan vilja hæstv. landbrh. Halldórs E. Sigurðssonar til þess að bæta hag bændastéttarinnar. En við íhugun á þessum 7 ára ferli hans á ráðherrastólnum kynni að koma í ljós, að honum hefði tekist rétt bærilega í starfi sínu, í viðleitni sinni til að bæta hagbændastéttarinnar meðan hann sat á stóli þessum í samstarfi við og í skjóli við pólitíska fulltrúa verkalýðsstéttarinnar og launamanna, en tekist aftur á móti bölvanlega, þegar hann sat á ráðherrastólnum í skjóli andstæðinga launastéttanna. Jú, það má vel vera að íslenskur landbúnaður sé nú við lok annars kjörtímabils hæstv. landbrh. á ráðherrastóli mest vélvæddur landbúnaður í heimi eða best. Það kann vel að vera. En eitthvað hlýtur að hafa farið úrskeiðis í landbúnaðinum á valdatíma hæstv. ráðh., því að þrátt fyrir þessa staðreynd, að íslenskur landbúnaður er best vélvæddur landbúnaður í öllum löndum í heiminum, skortir samt 30% á það að bændur hafi lögákveðin laun viðmiðunarstéttanna á Íslandi. Það hlýtur eitthvað annað að hafa farið hræðilega úrskeiðis.

Ég dreg ekki í efa, að fram til ársins 1975 hafi bændur fengið svokallað fullt verðlagsgrundvallarverð fyrir afurðir sínar. Hitt veit ég aftur á móti að er rétt, að laun bænda fyrir þann tíma náðu ekki heldur launum viðmiðunarstéttanna, svo sem kveðið er á um, þótt þau næðu svokölluðu verðlagsgrundvallarverði Allar götur frá 1975, allar götur frá því að fjöruðu út áhrifin af ráðstöfunum vinstri stjórnarinnar í kjaramálum bænda, eins og annarra þeirra stétta á landinu sem vinna hörðum höndum, — allar götur síðan hefur hallað mjög skjótt á ógæfuhliðina, og er nú svo komið að bændur skortir þriðjung á það að hafa laun þeirra viðmiðunarstétta sem laun þeirra eiga að jafnast á við. Sér náttúrlega hver heilvita maður, að ástæðan felst ekki eingöngu í erfiðleikunum á því að flytja íslenskar landbúnaðarafurðir úr landi. Ef það ætti að vera skýringin ætti þriðjungur af framleiðslu íslenskra bænda af búvöru yfirleitt að bíða útflutnings, en svo er alls ekki.

Að því hefur verið vikið áður í þessum umr. af hálfu okkar hv. þm. Helga Seljans, að sala búfjárafurða á landi hér er, svo sem skýrslur verðlagsráðs og fleiri aðila sýna, óvefengdar skýrslur, órjúfanlega tengd kjörum launastéttanna, launakjörum þess fólks sem þarf að kaupa búfjárafurðirnar til neyslu. Sveiflurnar í neyslunni innanlands hafa fyrst og fremst fylgt launakjörum þessara stétta. Sjálfur er ég efalaus um það, að ekki verður bætt úr því ástandi, sem nú ríkir í landbúnaðarmálunum varðandi kjör bænda, með öðrum hætti en þeim, að stéttarsamtök bænda taki á sig rögg og axli sjálf ábyrgðina á samningum við ríkisvaldið um kjör stéttarinnar. Þar á ég ekki eingöngu við verðlag á landbúnaðarafurðum, heldur á ég við kjör stéttarinnar yfirleitt. Til þess að fá aflið, sem til þess þarf að gera slíka samninga, stand. í slíkum samningum, þá verða stéttarsamtök bænda að leysa ýmis innri ágreiningsmál sín og e.t.v. að afsala sér nokkrum svokölluðum félagslegum fríðindum. Það er einnig augljóst mál. að til þess að geta gengið út í slíka samninga verða stéttarsamtök bænda að taka upp annars konar og einlægara samstarf við samtök launafólk; almennt í landinu en þau hafa iðkað fram til þessa.

Hæstv. ráðh. gat þess í fyrri hluta ræðu sinnar við þessar umr. á sínum tíma, að hann teldi, að það væri borin von að bændur mundu leggja út í verkfall, og vísaði þar efalaust til þeirrar mgr, í grg. með þáltill. sem hér er til umr., þar sem kveðið er á um það að ætla verði bændum eða stéttarsamtökum bænda sama rétt og öðrum stéttum til þess að knýja á um laun sín. Hann taldi það borna von, að bændur mundu leggja út í verkfall. Minnir mig þá, að einn hv. þm. hafi tekið glaðlega undir þetta úr sæti sínu og sagt sem svo, að það verði að halda áfram að mjólka og halda áfram að hleypa til. Það hefur engum komið til hugar að verkfall eða skipulegar aðgerðir af hálfu Stéttarsambands bænda mundu leiða til þess, að bændur hættu að sinna búum sínum, sinna um eignir sínar, að slíkt yrði bannað. Hitt er augljóst mál, að til annarra virkra úrræða mætti grípa, svo sem þeirra að Leggja á sölubann, ef með þyrfti, gagnvart óvinsamlegu ríkisvaldi, og ég efast ekkert um það, að bændur tækju sig til og kæmu stéttarmálefnum sínum í eðlilegt horf, viðurkenndu ýmsar grundvallarstaðreyndir sem lúta að órofa samstöðu þeirra með launastéttum í landinu, þá mundu bændur fá stuðning í slíkum aðgerðum, að því tilskildu að þeir hættu jafnframt að styðja til pólitískra valda á landi hér höfuðóvini sína, höfuðféndur launastéttanna.

Það kerfi, sem við megum nú við una um verðlagningu á búfjárafurðum, er með þeim hætti að bændur hafa lokast inni í vítahring, Einstakir bændur, dugmiklir menn með mikið vinnuþrek sem vel eru settir með jarðnæði, hafa haft heilsu góða, hafa reynt að hækka laun sín með því að auka framleiðsluna, sem hefur þá náttúrulega leitt til þess að framleiðsla stéttarinnar í heild hefur aukist, sem hefur þá náttúrulega leitt til þess að framleiðsla stéttarinnar í heild hefur aukist, sem hefur aftur á móti leitt til þess að verðlag á afurðum bænda hefur hækkað og auknar tekjur einstakra bænda, sem hefur tekist að auka sína prívat og persónulegu framleiðslu, hafa þá bitnað á hinum sem ekki höfðu sama duginn eða sömu aðstöðuna. Þannig að tekjur þeirra hafa lækkað vegna lækkandi heildarverðlags. Ég vil ekki lasta — síður en svo — aukna vélvæðingu bændastéttarinnar. En ég hef grun um að ein af ástæðunum fyrir því, að svo kann að hafa farið, að óhagsýni hafi gætt í vélvæðingunni að sumu leyti og sums staðar hafi e.t.v. af þeim sökum orðið um of mikla fjárfestingu og óhyggilega að ræða í vélbúnaði, sé einmitt þessi barátta einstakara bænda til þess að reyna að bæta slæman hag sinn, þrátt fyrir allt að ná launum viðmiðunarstéttanna eða vel það, þessi barátta hafi leitt til þess,að við séum e.t.v. nú með óhagkvæma fjárfestingu í vélum að sumu leyti og að skipulagsleysi og rangt fyrirkomulag á verðlagningu landbúnaðarafurða og stefnuleysi um kjaramál bænda valdi langmestu um þau vandræði sem landbúnaðurinn á nú í.

Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt: það hvarflar ekki að mér, að hæstv. landbrh. vilji ekki veð íslenskri bændastétt. Hann er sjálfur hluti af henni og hefur lengst af ævi sinnar sinnt kjaramálum bænda — með misjöfnum árangri eins og gefur að skilja, eftir því hvers konar stuðning hann hefur fengið í viðleiti sinni til þess arna — með góðum árangri þegar hann hefur unnið með fulltrúum launastéttanna, fulltrúum þeirra aðila sem eiga hagsmuni sína hnýtta hagsmunum bænda, þessarar stéttar sem nú er hin kúgaða stétt, ef á landi hér finnst slík stétt og má nú una launum sem eru þriðjungi undir þeim launum sem kveðið er á um í lögum að bændur skuli hafa. Meðan hann hefur unnið að kjaramálefnum bænda í samvinnu víð þessar stéttir hefur honum vegnað vel og bændastéttinni vegnað vel. Þegar hann situr á ráðherrastóli í skjóli þeirra afla, sem andsnúin eru hagsmunum launastéttanna, alþýðunnar, og andsnúin eru bændastéttinni, þessari illa launaða stétt sem vinnur hörðum höndum að framleiðslu verðmæta, — meðan hann situr á ráðherrastóli í skjóli slíkra afla, þá vegnar honum náttúrlega illa og líður eflaust illa. — Enn þakka ég hæstsv. ráðh, fyrir hlutlæga fræðslu um kjör landbúnaðarins.

Þá fór hæstv. ráðh. nokkrum orðum um stofnlánadeildina og horfurnar þar. Enn eru tölurnar, sem fyrir liggja, talandi um það, hvort það eru hagsmunir bænda sem vaka fyrir ríkisstj. um mótun stefnu í efnahagsmálum í landinu. Í lánsfjáráætlun er Ferðamálasjóði ætluð 110% aukning, Iðnlánasjóði, sem var náttúrlega alls ekki vel haldinn fyrir, 44.1%, verslunarsjóði 71.2%, en stofnlánadeildinni 7.6%

Það gladdi mig að heyra hæstv. ráðh. taka í einlægni undir gagnrýni okkar á það tal, sem nú hefur verið haft uppi af hálfu ýmissa ráðamanna og þ. á m. erindreka bænda, að nú verði að draga úr framleiðslu landbúnaðarafurða. Þessu andmælti hæstv. ráðh, að ég held í fullkominni einlægni. En hann sagði okkur jafnframt, að framleiðsla umfram það magn, sem seljanlegt væri innanlands nú, af mjólkurafurðum fyrst og fremst, en landbúnaðarafurðum yfirleitt, kjöti líka, væri þess háttar stórvandamál sem mestu ylli nú um slæm launakjör bændastéttarinnar. Ég lái ráðh. það ekki, í þeirri stöðu sem hann er mína, þrátt fyrir góðan og einlægan vilja, þótt hann léti við það sitja að draga upp þessa mynd af erfiðleikunum á sölu landbúnaðarafurða. Þó er það svo, ef við lítum yfir samhengið á milli niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum, verðs landbúnaðarafurða og kaupgetu hins vegar á síðustu 10 árum, að við okkur blasir sveifla í neyslu á einstakling í beinum tengslum við verðlagsástandið og kaupgetuna innanlands, sem nemur 10 kg af kjöti árlega á mann, — 10 kg af kindakjöti árlega á hvern mann í landinu. Þessi sveifla orsakast beinlínis af stjórn verðlagsmála og kjaramála í landinu, sem er þrátt fyrir allt á valdi ríkisstj. Þetta munar núna í ár 2200 tonnum frá hámarksneyslu, þegar kjaramál hafa verið í góðu lagi innanlands og verðlagi á landbúnaðarafurðum haldið í eðlilegu horfi. Það munar 2200 tonnum. Við vitum býsna vel að þúsundir manna búa við þess háttar launakjör á landi hér núna, að mikið skortir á að fjölskyldurnar hafi á borðum jafnoft og þær gjarnan vildu það besta úr íslenskri matvælaframleiðslu, þar sem er dilkakjötið okkar og smjörið.

Ég er viss um að hæstv. landbrh. hlýtur að bíða með nokkurri vongleði þess tíma, að hann fái að ljúka sínum góðviljaða ferli á stóli landbrh. í samstarfi við pólitíska forustu launastéttanna. Hann getur þá tekið þátt í umr. og íhugun um málefni bændanna án þess að þurfa að spretta úr sæti sínu í miðjum klíðum og hlaupa yfir í næstu þd, til þess að hlusta eftir orðum stjórnarsamstarfsmanna sinna, sem hann kann kannske að efast um að séu hugsjónalegir samherjar hans og stuðningsmenn hans í þeirri viðleitni að bæta kjör íslenskra bænda.