17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Jón Helgason:

Herra forseti. Öllum er kunnugt, að fram hafa farið miklar umr. um landbúnaðarmál í þjóðfélagi okkar nú að undanförnu og gera enn, og ekki er nema eðlilegt að þær geri það einnig hér á hv. Alþ. Enda þótt þar hafi komið fram ólík sjónarmið og mjög skiptar skoðanir, þá held ég að efni þessarar þáltill., sem er til umr, nú, sé ekki deilumál á meðal bændastéttarinnar. Hæstv. landbrh. ræddi svo ítarlega um sögu þessa máls í ræðu sinni fyrr í þessum umr., að ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það. En þó að ekki séu deilur um þetta á meðal bænda, þar sem Stéttarsambandsfundur hefur oftar en einu sinni samþykkt að óska eftir því að fara þessa leið, þá eru menn kannske misjafnlega sannfærðir um ágæti þess eða vongóðir um að það leysi vandamál bændastéttarinnar að öllu leyti. En menn vilja gjarnan reyna þetta, og það er svo með allt skipulag, að það hefur nokkuð til síns ágætis. Hægt er að benda á kosti þess að fara eina leiðina, en einnig galla hennar umfram aðrar.

Í þessum umr. og grg, þessarar þáltill. er komið víðar við, þannig að hægt væri að fjalla um margt sem við kemur landbúnaðinum út frá þessum umr. Ég vil taka undir það, að nauðsynlegt sé að ræða þetta rólega og gera sér glögga grein fyrir staðreyndum, ekki vera að blekkja sjálfan síg með því kannske að viðurkenna ekki staðreyndir eða vera með einhverja óskhyggju. Ég segi þetta m.a. vegna þess, að í grg. þáltill. er sagt: „Hið sanna í málinu er hins vegar, að framleiðsla búvöru hefur ekki aukist síðustu árin.“ Þarna held ég að sé ekki rétt farið með staðreyndir. (StJ: Ef þú tekur hlutfallið í fólksfjölgun.) Ég get aðeins bent á það sem dæmi — ég skal ekki eyða löngum tíma — að á s.I. ári var mjólkurframleiðslan um 112 þús. tonna, minnir mig, en á þessu ári er gert ráð fyrir að hún fari upp í 118 þús. Þarna er um mjög mikla aukningu að ræða. Þetta er aukning sem er langalvarlegasta vandamálið fyrir okkur í dag í markaðsmálum. Það er vegna þess, að oftast á undanförnum áratugum, eða 10–15 árum, hefur mjólkurframleiðslan verið tiltölulega lítil umfram þörf þjóðarinnar. Það hefur verið milli 5 og 10%. En allt, sem umfram er, hefur þurft að flytja út, og verð á mjólkurvörum til útflutnings hefur yfirleitt verið óhagstætt, þannig að þegar aukningin verður meiri en þetta eða útflutningsþörfin, þá eru afleiðingarnar mjög slæmar. Og þegar svo saman fer minnkandi neysla innanlands, sem hv. 5. þm. Norðurl. e, vildi kenna minnkandi kaupgetu, þá verður vandinn enn þá meiri. Hins vegar var athugað á undanförnum árum, að verð á nýmjólk t. d, virtist ekki hafa áhrif á sölu. Sala á henni var í það föstum skorðum, að verðbreytingar virtust ekki hafa áhrif á hana. Þarna er talið að sé nú aðrar ástæður, þ.e.a.s. neysluvenjuhreytingar, sem er nýbúið að ræða hér í hv. d. og ég skal ekki fara lengra út í að ræða.

Hv. 7, landsk. þm. sagðist ekki trúa því, að ekki væri hægt að fá betra verð fyrir framleiðsluvörur okkar erlendis. Ég held að hann hljóti að vita, að ákaflega erfitt er að selja landbúnaðarvörur víða á erlendum mörkuðum, a.m.k. fyrir það verð sem er talið framleiðslukostnaður. Við höfum heyrt talað t.d. um sölu á smjöri frá Efnahagsbandalagslöndunum til Austur-Evrópu fyrir ákaflega lágt verð, þannig að í nágrannalöndum er vandamál með sölu á vissum framleiðsluvörum, m.a. smjöri, undanrennudufti og fleiri vörum. Ekki má því vera með of mikla óskhyggju í þessu sambandi,

Hins vegar get ég tekið undir það, að eitt þýðingarmesta málið í þessu sambandi er að vinna að öflun sem bestra markaða. Það hefur verið reynt að gera það. Nú má segja að það mál sé þó sérstaklega í athugun, þar sem á s.l. sumri var komið á fót samstarfsnefnd þeirra aðila sem þarna hafa mestra hagsmuna að gæta, þ.e. frá Stéttarsambandi bænda, framleiðsluráði landbúnaðarins, landbrn., Búnaðarfélagi Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem hefur haft með söluna erlendis að mestu leyti að gera á undanförnum árum. Hefur verið reynt að fá stuðning ríkiskerfisins við þetta. Landbrh. hefur sjálfur reynt, eins og hann hefur haft tök á, að vinna að þessu, og fleiri ráðh. hafa einnig reynt að ýta á eftir þessu, þannig að það er ekki hægt að segja að þessi leið hafi ekki verið farin. Ég get aðeins nefnt sem dæmi, að nú í byrjun næsta árs, í lok janúar, verður haldin árleg sýning í Berlín, svokölluð „Græna vika“, og þar stendur til að hafa til sýnis íslenskar framleiðsluvörur og kynna þær og reyna síðan að fylgja því eftir, hvort þarna er hægt að fá markað, betri og meiri markað en við höfum í dag. Menn eru margir hverjir vantrúaðir á að þetta beri árangur, fyrst og fremst vegna þess, að besti markaður fyrir dilkakjöt okkar er í Noregi og Svíþjóð og virðist vera sá langbesti, Menn óttast því, að það verði a.m.k. torsótt að fara inn á Efnahagsbandalagssvæðið, en samt sem áður vilja menn reyna allar leiðir og kanna möguleikana, til þess að það liggi ljóst fyrir, hverjar eru staðreyndir í þessu máli.

Það virðist koma nokkuð fram í grg. þessarar till, og einnig í máli þeirra hv. 7. landsk. þm., en sérstaklega þó hv. 5. þm. Norðurl. e., að hægt væri að leysa þessi vandamál bænda með samstarfi og samstöðu við verkalýðshreyfinguna. Hv. 7. landsk. þm. sagði að vísu, að hann vildi ekki taka að sér að verja afstöðu og framkomu verkalýðshreyfingarinnar í garð bænda. Við getum vafalaust allir verið sammála um að þetta samstarf hefur ekki verið nógu gott og þyrfti að batna, og það er sannfæring mín, að allar stéttir þessa lands þurfa að hafa sem nánast og best samstarf til þess að vel gangi í okkar þjóðfélagi. Ég held að það sé ákaflega hættulegt að fara að skipta þjóðfélaginu upp í andstæðinga eins og hv. 5, þm. Norðurl. e. virtist gera áðan, þegar hann var að tala um pólitíska andstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, minnir mig að hann hafi orðað það. (StJ: Og bændastéttarinnar.) Já, og bændastéttarinnar. En ég veit ekki til þess, að pólitísk skipting hér í landi fari alveg eftir stéttum, Ég held að allir flokkar eigi eitthvert fylgi meðal allra stétta og ákaflega erfitt væri að gera upp það dæmi. Hv. 7. landsk. þm. minntist einmitt á það áðan, að hann væri undrandi á þeirri afstöðu Alþýðusambands Íslands að vera á móti lækkuðu verði á landbúnaðarvörum fremur en að lækka tekjuskattinn, sem manni sýnist nú að sé helsta tækið til tekjuöflunar í okkar þjóðfélagi, a.m.k. miðað við það hvernig tekist hefur til með kjarasamninga á undanförnum árum.

Eins og ég sagði, væri hægt að halda lengi áfram að ræða um þessi mál okkar. En það er gjarnan svo, ef eitthvað gengur miður, að þá reyna menn að finna einhvern sökudólg til þess að skella skuldinni á, annaðhvort eitthvert kerfi, eitthvert skipulag eða einhverja einstaklinga, sem helst er hægt að draga þar til ábyrgðar. Ég vil vara við því, að vandamál landbúnaðarins verði leyst með því móti. En ég er sammála því og hef lagt á það áherslu, að reynt verði að kryfja þau til mergjar og kanna allar leiðir, sem væru til úrbóta, og fara síðan þá leið, sem hagkvæmust er, eða þær leiðir, sem hagkvæmastar eru fyrir bændastéttina. Landbúnaðurinn hefur margvíslegt gildi í okkar þjóðfélagi, og ég vil halda því fram, að það sé erfitt að meta það til fjár. Engu að síður þarf að tryggja fjárhagsstöðu hans sem best og þannig að þeir, sem að landbúnaðinum vinna, geti fengið sambærileg kjör og aðrar stéttir, landbúnaðurinn geti haldið áfram að vera sú kjölfesta í okkar þjóðfélagi sem hann hefur verið frá upphafi Íslandsbyggðar.