17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Svo fór sem mig grunaði að hlyti að verða, að í ræðustól kom fulltrúi bænda, hinn mætasti og góðgjarnasti maður, og staðhæfði frammi fyrir okkur að aukin framleiðsla á mjólk frá því sem var á einu allra erfiðasta búskaparári á Suðurlandi á mjólkurframleiðslusvæðinu, — að aukin framleiðsla á mjólk nú þegar batnar í ári, framleiðsluaukning úr 112 þús. lestum í 118 bús. lestir, væri meginvandamál landbúnaðarins í bili. Í grg. með þáltill., sem við Alþb: menn hér í d. höfum lagt fram, er vakin athygli á því, að æ hljótum við að reikna með því að nokkur framleiðsla verði umfram innanlandsneyslu í góðum árum, þ.e.a.s. í meðalgóðum árum og góðum árum, til þess að landbúnaðurinn sé í stakk búinn að framleiða það sem við þurfum nauðsynlega af þessari vöru til neyslu í innanlands í slökum meðalárum og slæmum árum. Og nú er þetta svo sem við allir vitum á þessu ágæta landi okkar, að þau skiptast á góðu árin og slæmu árin og mun svo verða framvegis. en ekki eftir föstum reglum, þá væri hér léttara um vik.

Í grg. með till. okkar gerum við ráð fyrir því. að reiknað verði með útflutningsuppbótum á, eins og við segjum hér, 10–15% af framleiðslumagninu af hinum ýmsu vörum sem til útflutnings þurfa að koma, og hæstv. landbrh. fræddi okkur um það í fyrri hluta ræðu sinnar, eins og ýmislegt fleira sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þegar við veltum fyrir okkur vandamálinu núna, að í ár hefði þetta sennilega numið í kringum 12%, minnir mig. Með þessu þurfum við að reikna. Þegar við reiknum með þessu erum við ekki fyrst og fremst að hugsa um hag bænda, heldur fólksins í þessu landi yfirleitt, að bændum meðtöldum, því að við verðum að búa þannig að landbúnaði okkar, að bændur tryggi okkur æ þessar vörur. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, hversu erfitt er um vik að tryggja markað erlendis fyrir mjög svo sveiflukennda umframframleiðslu, vegna þess að við getum augljóslega ekki tryggt ákveðið magn öll ár þar sem við miðum fyrst og fremst að því að framleiða fyrir innanlandsmarkaðinn. Ég geri mér þetta fyllilega ljóst. Eigi að síður er ég þeirrar skoðunar, að það hljóti að vera hægt, ef að því er gengið af dugnaði og fyrirhyggju og til þess kost að því sem þarf til að tryggja okkur með einhverjum hætti hærra verð en gert hefur verið. Hæstv. landbrh. minntist á eina leiðina í upphafi ræðu sinnar, þar sem um er að ræða umsamin viðskipti okkar við lönd sem við höfum haft við óhagstæðan viðskiptajöfnuð, svo sem var við Norðmenn í sambandi við skipasmíðina, og fleira slíkt kemur til um þjóðir sem við kaupum meira frá heldur en við seljum til. Sjálfum er mér kunnugt um það, að frændum okkar Norðmönnum þykir íslenska dilkakjötið býsna gott, og heyrt hef ég menn um endilangan Noreg hafa það uppi, að ekki þyki þeim þeir hafa étið almennilegar baunir síðan þeir hættu að fá íslenska spaðkjötið sem var verkað sérstaklega fyrir Norðmennina.

Við verðum að reikna með umframframleiðslu í þessu landi, e.t.v. meiri sveiflum en í nokkru öðru landi, vegna þess hversu veðráttan hér er misjöfn til ræktunar. Ég gat þess, að mig minnir, í framsöguræðu minni, að verðbreytingar á nýmjólk hafi yfirleitt ekki valdið miklum sveiflum í neyslunni hér á landi. Ástæðan er beinlínis sú, að verðinu á nýmjólk hefur, guði sé lof, vil ég segja, verið haldið og er enn haldið það lágu hér á landi, að hér höfum við ódýrasta eggjahvítuefnagjafann sem við eigum völ á, næst á eftir fiski, og nýmjólkin er enn þá uppistaðan í mat hins fátæka manns á þessu landi. Ég vil halda því fram, að ein af meginástæðunum fyrir því. — ég hef fyrir mér raunar ummæli manna úr verkalýðsforustunni, — hve lengi verkalýðsfélögin á Reykjavíkursvæðinu hafa hlífst við því að hindra flutning á mjólk til Reykjavíkur í verkföllum á liðnum árum, hafi beinlínis verið sú, að það hafi verið slíkt hagsmunamál fyrir verkfallsheimilin á Reykjavíkursvæðinu að fá þennan ódýra mat, að án hans hefði framkvæmd verkfalla e.t.v. verið óframkvæmanleg.

Ég get heils hugar tekið undir ummæli hv. þm. Helga Seljans, þar sem hann lét í ljós furðu sína á því, hversu hagur bænda, þessarar láglaunastétta sem sannarlega vinnur fyrir brauði sínu berum höndum, — hversu takmarkaðs skilnings hagur þessarar stéttar hefur tíðum gætti innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að þar valdi m.a. gamall hefðbundinn misskilningur. Kannske byggður á fræðilegri skilgreiningu sem aldrei átti sér stoð í þessu landi. Það er alveg rétt, að ef við köllum afstöðuna til stjórnmálaflokkanna og hvar menn skipa sér í röð í kosningum til Alþingis — ef við nefnum það eitt pólitík. þá er það alveg rétt, að þeir eru ekki fáir verkamennirnir sem styðja Sjálfstfl. í kosningum. Þeir eru ekki fáir. Þrátt fyrir það að forustumenn þessa flokks gerist æ og undantekningarlaust höfuðandstæðingar verkamanna í kjarabaráttunni og í kjaraátökum, þá er fjöldinn allur af verkamönnum sem styður Sjálfstfl. Út í ástæður þess mun ég ekki fara hérna né gefa treinum einkunn fyrir það að skipa sér þannig í baráttusveit. Bændur eru sannarlega til sem styðja til valda hugsjónalega og hagsmunalega andstæðinga sína af sams konar hvötum. Þarna er um líkt að tefla. Kaup bænda á að vera sambærilegt við kaup hinna svonefndu viðmiðunarstétta. Þar er miðað við kauptaxta sem slegist er um í hverjum átökum sem verða á vinnumarkaðinum, sem barist er um í hverju verkfalli sem gert er við uppsögn hverra kjarasamninga. Með þeim hætti eru tengd kjör bænda og þessara viðmiðunarstétta, sem eiga undir högg að sækja um kjör sin í kjarasamningum.

Ég vil svo í lokin vekja athygli á því, að hv. þm. Helgi Seljan vakti í sömu andránni athygli á því til nánari skýringar á óeðlilegri ósætt á milli bændastéttarinnar og verkalýðssamtakanna, að formaður Stéttarsambands bænda hafði rétt þá nýverið, er þarna skarst því miður í odda, lýst í blaðaviðtölum yfir þeirri skoðun sinni, að rétt væri að stemma stigu við launahækkunum til verkamanna, til launafólksins í landinu, til þess að rétta við efnahag þjóðarinnar.

Við munum, — ég ítreka það, — við munum ekki ráða bót á því misrétti, sem bændastéttin á nú við að stríða í kjaramálum, með öðrum hætti en þeim, að forustumenn bænda fari að gera sér dálitla grein fyrir pólitísku samhengi þessara vandamála við vandamál launastéttanna, gera sér grein fyrir því, að kjör launafólksins í bæjunum, sem á að kaupa landbúnaðarafurðirnar, munu raða í meginatriðum sölumöguleikum og verði á landbúnaðarafurðum. Ef tækist nú að knýja fram þennan skilning af hálfu forustumanna bændastéttarinnar, þá hygg ég að auðvelt yrði að fá launafólkið til þess að gera sér grein fyrir því, að einyrkjabóndi á Íslandi er enginn kapítalisti, að einyrkjabóndi á Íslandi vinnur fyrir launum sínum hörðum höndum engu síður en hver annar. Þá yrði kannske dálítið meira torleiði fyrir ónefnda hagfræðiprófessora, sem eiga, — því miður, segl ég — ekki sæti í þessari d., en hafa ráðið meiru um fræðilegan pólitískan þankagang í andstöðu við íslenska bændur en velflestir aðrir, sem hafa setið á annarri rasskinninni í Háskólanum og hinni inni á Alþ. á liðnum áratugum og virðast vera vel á vegi komnir að lemja það inn í höfuðin á sjálfri bændaforustunni, að bændastéttin, landbúnaðurinn, sé dragbítur á hagvöxt íslensks bjóðfélags. Aukin framleiðsla í landbúnaði á síðustu 10 árum hefur rétt aðeins slefað því að halda í við aukinn fólksfjölda á landinu. Á síðustu 10 árum, þegar kaupgeta í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum hefur meira en tvöfaldast, en kaupgeta launastéttanna á Íslandi hefur staðið í stað, þegar neysla af kjötvörum á landi hér að öllu meðtöldu, kindakjöti og nautakjöti, nemur um það bil 60 kg á mann, samtímis því sem neysla í Bretlandi er upp í kringum 110 kg á mann, í Svíþjóð og Danmörku 120 kg á mann og um 140 kg á mannsbarn í Bandaríkjunum, — ekki vegna þess að Íslendingar vilji ekki borða kjöt, heldur vegna þess að launin, sem þeir hafa úr að spila, nægja ekki til þess að þorri almennings geti haft þann mat á borðum sem hann gjarnan vildi, — þá er ársaukning á framleiðslu mjólkur frá versta landbúnaðarári aldarinnar úr 112 þús, tonnum upp í 118 þús. tonn í góðu meðalári ekki meginvandamál bændastéttarinnar.

Ég hef fylgst allnáið með þeim samþykktum sem bændur hafa verið að gera á fundum sínum kringum landið undanfarnar vikur. Mér verður kannske á að hrósa hæstv. landbrh. allt of oft og títt, en það gladdi mig eigi að síður að heyra það á máli ráðh., að hann ætlar sér ekki að leggja út í neins konar stríð við bændastéttina í sambandi við prédikaðan fóðurbætisskatt til þess að temja með honum framleiðslu, — það ætlar hann ekki að gera. Ég heyrði það einnig á máli hans, að hann hugsar sér svo sannarlega ekki að framfylgja á nokkurn hátt hugmyndinni um kvótaskiptingu í framleiðslu á landbúnaðarafurðum. Það er beinlínis vegna þess að hvorugt þetta er hægt að gera gegn vilja bændastéttarinnar. Ég hef heyrt það á þeim bændum, sem ég hef talað við, og ég hef talað við hændur víðs vegar á landinu, að þeim finnst ekki fráleitt að taka upp skatt á erlendum fóðurhæti til styrktar innlendri kjarnfóðurframleiðslu, en aftur á móti finnst þeim af ýmsum ástæðum fráleitt að taka upp þess háttar skatt til þess að leggja framlög á framleiðslu landbúnaðarafurðanna. Hið sama gildir um hið hugsanlega kvótakerfi. Ég þykist hafa orðið þess var í þessum samþykktum bænda um kjaramálin, að þeir geri sér nú orðið grein fyrir því, að þeir verða að taka rögg á sig, efla stéttarsamtök sin, gera þau virkari og beita þeim í samningum við ríkisvaldið, ekki bara um verðlagsmálin, heldur um kjaramálin yfirleitt. Hitt geri ég mér fyllilega ljóst, að setning nýrra laga um kjaramál bænda er ekki einfalt mál. Það er ákaflega eðlilegt, að sú lagasetning verði vel undirbúin með stuðningi og ráðgjöf hænda. En grundvallaratriðið í þessu máli hygg ég vera það, að bændur geri sér grein fyrir því, á hvern hátt kjör þeirra eru tengd kjörum annars þess fólks í landinu sem vinnur fyrir brauði sínu hörðum höndum. Þeir eiga samstöðu með því fólki og Kjör þeirra verða ekki slitin frá kjörum annarrar vinnandi alþýðu í landinu. Þetta hygg ég að sé meginatriðið í þeirri kjarabaráttu, sem fram undan er fyrir bændur núna, og því er kveðið á um það í grg. sem fylgir þessari þáltill. okkar, að betra væri það fulltrúum bændastéttarinnar að gera sér grein fyrir þessu pólitíska samhengi heldur en að sendast eins og landafjandar út um allt til þess að telja kjark úr bændum og telja heim trú um að bað sé dugnaði þeirra við framleiðslustörf að kenna hvernig nú er komið kjörum þeirra.