17.12.1977
Efri deild: 37. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég skal hafa aths. eins stutta og ég mögulega get. Ég hef áður þrisvar í löngu máli reynt að útskýra fyrir hv. þm. Jóni Helgasyni og öðrum hv. þm. d. þá staðreynd, að kaupgetan innanlands og verðið á afurðunum hefur að verulegu leyti, mjög verulegu leyti og sjálfsagt að mestu leyti ráðið neyslunni. Þegar verð á smjöri og öðrum mjólkurafurðum er stórlega hækkað með því að skera niður niðurgreiðslurnar í tíð núv. ríkisstj., samtímis því sem launakjör og kaupmáttur launastéttanna í landinu eru skert, þá dregur úr neyslunni. Í grg. þessarar till., sem við leggjum hér fram, gerum við grein fyrir þeim möguleika að nota m.a. það fé, þó ekki hrökkvi það eitt til, sem nú hefur farið í útflutningsbætur, til þess að lækka afurðarverðið innanlands, söluverðið innanlands, til þess að gera fólkinu kleifara að kaupa þessar vörur og til þess jafnframt að slá á dýrtíðina.

Ef bændur hefðu gætt þess, og þá fyrst og fremst þm. bænda, þegar þeir gengu til stjórnarsamstarfs við íhaldið, eins og þeir gerðu upp úr síðustu kosningum, — ef þeir hefðu gætt þess þá. að hagur bænda fer saman við hag alþýðu þessa lands að öðru leyti, launastéttanna, — ef þeir hefðu ekki gengið til samstarfs við þá aðila sem hafa hagsmuni af því að rýra kjör launastéttanna og bænda líka, þá kynni að hafa verið öðruvísi ástatt nú í dag. Ég minni þm. á útkomuna hjá bændum 1974, við lok vinstristjórnartímabilsins, þegar sinnt var hagsmunamálum bænda samtímis því sem sinnt var hagsmunamálum annarra launastéttar í landinu, annars þess fólks sem vinnur hörðum höndum. Þá var hagur bændastéttarinnar góður, þá var neysla landbúnaðarafurða í hámarki og þ. á m. mjólkur afurða.

Það, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan, var þetta: að ég hefði undrast það að hv. þm. Jón Helgason skyldi bræða það með sér núna og túlka fyrir bændum að um offramleiðsluvandamál væri að ræða, þó að mjólkurafurðir ykjust í góðu meðalári, á haustmánuðum þess, frá því sem þær voru í einu versta landbúnaðarári sem yfir landið hefur gengið á mjólkurframleiðslusvæðinu, sem var árið sem leið, úr 112 þús. tonnum í 118 þús. tonn. Ég gaf það alls ekki í skyn, að ég furðaði mig á því þótt hann hefði nokkrar áhyggjur nú af því, í hvílíkt óefni er komið fyrir — herra forseti, ég vil ekki segja drullusokkshátt, heldur slælega framgöngu fulltrúa bænda hér á Alþ., sem hingað voru kosnir til þess að gæta hagsmunamála þeirra, og fyrir slælega framgöngu þeirra erindreka sem á síðustu vikum hafa, eins og ég komst þá að orði og mun aftur komast að orði, verið eins og landafjandar út um allt til þess að tjá bændum það, að þeir eigi að taka sér á bak skellinn af fáránlegri stjórn landsmála yfirleitt.