17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

126. mál, almannatryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Af fylgifrv. hæstv. ríkisstj. með fjárlagafrv. er þetta frv., sem hér er til umr., langsamlega varhugaverðast og langsamlega ranglátast. Fyrir þessari skoðun langar mig til að gera nokkra grein, en að sjálfsögðu munum við þm. Alþfl. hér í hv. d. greiða atkv. gegn þessu frv.

Áður en ég vik að röksemdafærslu minni gegn frv. og því, í hverju ranglæti þess er fólgið, kemst ég ekki hjá að víkja í örfáum orðum að upphafi ræðu hv. síðasta ræðumanns. hv, þm. Magnúsar Kjartanssonar, því að hann hóf ræðu sina, af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum, með ónotum í garð Alþfl. vegna afskipta hans af tryggingamálum. Það er raunar komið svo, að þessi hv. þm. heldur varla svo ræðu hér á Alþ., hvað svo sem hann talar um, að einhver kafli ræðunnar sé ekki ónot í garð eftirmanns hans í sæti orkumálaráðh., hæstv. ráðh. Gunnars Thoroddsens, eða ónot í garð Alþfl., nema hvort tveggja sé, sem oft hefur gerst. En ummæli hans í gær um Alþfl. og tryggingamálin voru svo ósanngjörn og svo ranglát að ég kemst ekki hjá því, þó í mjög stuttu máli verði að vera, að andmæla þeim.

Það er alveg sama hvað hv. þm. Magnús Kjartansson segir um Alþfl. og almannatryggingarnar, að það verður aldrei hrakið, að Alþfl. er brautryðjandi í íslenskum þjóðmálinn á sviði almannatrygginga. Það var fyrsti ráðh. Alþfl., Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðh., sem beitti sér fyrir því, að sett voru fyrstu fögin um almannatryggingar árið 1937. Næsta stóra sporið á sviði tryggingamála var þegar lögin um almannatryggingar voru sett árið 1944. Vita allir að það var ein af kröfum Alþfl. í sambandi við aðild hans að þeirri stjórn, að sú löggjöf yrði sett. (Gripið fram í.) Það var ekki Sósíalistaflokkurinn, sem einnig var í stjórninni, sem þá gerði kröfu um endurskoðun almannatrygginganna, heldur var það Alþfl. Þriðja stóra sporið, sem stigið hefur verið síðan almannatryggingalögin fyrstu voru sett, var í sambandi við myndun viðreisnarstjórnarinnar í árslok 1959. Þá var gert stórátak á sviði tryggingamála og það var einnig samkv. ósk Alþfl. í sambandi við stjórnarmyndun.

Það eina rétta í því, sem hv. þm. sagði í gær um tryggingamálin og Alþfl., var það, að á seinni helming 7. áratugsins minnkaði raungildi trygginga af ýmsum ástæðum mjög verulega. Þetta gerðum við, sem áttum sæti í þeirri stjórn, og Alþfl., sem var aðili að henni, sér algjörlega ljóst. Þess vegna var það einmitt sem þáv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, skipaði n. til að endurskoða almannatryggingalögin. Mig minnir að það hafi verið árið 1967. A.m.k. mun n. hafa skilað áliti 1969 og frv. n. var samþ. meðan viðreisnarstjórnin var enn við völd, á þinginu 1970–1971, áður en hv. þm. Magnús Kjartansson varð félmrh. Að vísu var það þannig, — það skal fúslega játað, það er söguleg staðreynd og sannleikur, — að það varð að ræða um það í ríkisstj. til hversu mikillar útgjaldaaukningar þetta frv. mætti leiða. Um það sýndist okkur sitt hvað, Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl., sérstaklega fjmrh, hans, hins vegar. Niðurstaðan af þeim umr. varð sú, að efnisatriði frv. mættu ekki leiða til meiri útgjalda en sem svaraði 500 millj. kr., og annað, sem okkur Alþýðuflokksráðh. og þingfl, Alþfl. þótti enn miður, að útgjaldaaukningin eða hin nýju ákvæði skyldu ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1972, Þetta þótti okkur mjög miður. En eins og verða vilt í samsteypustjórnum urðum við að sætta okkur við það sem heildarsamkomulag gat orðið um. Þáv. fjmrh. taldi sér ekki fært vegna mjög örðugs hags ríkissjóðs að fallast á að hin nýja lagasetning hefði í för með sér meira en 500 millj, kr. útgjaldaaukningu.

Í þessu frv., sem samið var að undirlagi eins Alþýðuflokksráðh., Eggerts G. Þorsteinssonar, og í þessum lögum, sem enn gilda í grundvallaratriðum, voru einmitt ýmis merkustu nýmæli sem til hafa orðið á sviði almannatrygginga á síðari árum. T.d. var tekjutryggingarhugmyndin lögfest þar, þó að því miður væri ekki hægt að verja nema tiltölulega litlu fé til hennar. (Gripið fram í.) 85 millj, kr., ég man þessa tölu og er búinn að kynna mér það nákvæmlega, en nú eru það 4 milljarðar. Hugmyndin fæddist í þessari n. sem starfaði á tímum viðreisnarstjórnarinnar, og ég hika ekki við að segja, að þetta er eitt merkasta nýmæli í tryggingamálum á síðari árum. Það stafar ekki frá ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar, það stafar frá ráðherratíð Eggerts G. Þorsteinssonar. Þetta er harmleikurinn í málinu.

Það afrek sem Magnús Kjartansson vann, einu afrekið sem hann vann á sínu fyrsta ári, var að taka ákvörðun um að fá því framgengt í vinstri stjórninni, sem að sjálfsögðu var þakkarvert, að ákvæði laganna skyldu taka gildi strax á miðju ári 1971, en ekki 1. jan. 1972, eins og áður hafði verið ákveðið, Þetta studdum við þm. Alþfl. að sjálfsögðu og glöddumst yfir því. (Gripið fram í: Það var gert með brbl.) Já, já, það var gert með brbl., og við studdum þau lög að sjálfsögðu þegar þau komu til kasta Alþ. um haustið. Þessari ráðstöfun fögnuðum við.

En það, sem mestu máli skiptir er að lögin, sem enn gilda í grundvallaratriðum, eru ekki frá ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar, þau eru frá ráðherratíð Eggerts G. Þorsteinssonar, þó að fjárveitingarnar samkv. lögunum hafi tekið stórkostlegum breytingum á þeim árum sem síðan eru liðin, og Alþfl. hefur að sjálfsögðu alltaf stutt þessar breytingar.

Ég læt svo útrætt um þetta, en fannst satt að segja ónot þm. í garð Alþfl. af þessu tilefni og í sambandi við frv., sem hér er um að ræða, svo óeðlileg og svo óskiljanleg í raun og veru, að ég taldi óhjákvæmilegt að láta þessi atriði koma fram. En nú skal ég víkja að því frv. sem hér er til umr.

Hér er um það að ræða að leggja nýjan skatt á almenning í landinu að upphæð 1.9 milljarða kr. og skattgrundvöllurinn er í meginatriðum sá sami og lagður er til grundvallar við álagningu útsvara. Útsvarið er, svo sem kunnugt er, hlutfallsskattur, sem sumir nefna flatan skatt, þ.e.a.s. greiddur sami hundraðshluti af tekjum hvort sem tekjurnar eru háar eða lágar. Lágtekjumaðurinn greiðir nákvæmlega sama hundraðshluta af tekjum sínum og hátekjumaðurinn, og barnmörg fjölskylda greiðir nákvæmlega sama hlutfall af tekjum sínum og einhleypingur. Réttur til frádráttar í sambandi við útsvarsálagningu er mjög takmarkaður. Enn fremur er þess að geta, að eingöngu einstaklingar greiða útsvar. Félög greiða ekkert útsvar. Þau greiða aðstöðugjald til sveitarfélaganna. Hér er því um einstaklingsskatt að ræða, — einstaklingsskatt sem er jafn á hátekjumenn og lágtekjumenn, — einstaklingsskatt sem er jafn á barnmarga fjölskyldu og einhleyping og þar sem frádráttarréttur er mjög takmarkaður. Útsvar er fyrst og fremst launamannaskattur, og það er á þennan grundvöll sem hæstv, ríkisstj. hefur kosið að leggja eins konar ríkisútsvar, leggja á nýjan skatt sem á að færa ríkissjóði 1.9 milljarða kr.

Í þessu sambandi verður að minnast þess, að þetta er ekki eina skattahækkunin, sem hæstv. ríkisstj. leggur til í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu. Skattbyrðin, tekjuskattsbyrðin, tekjuskattsheimtan, eykst um u.þ.b. 2 milljarða vegna þess að tekjuaukningin reynist meiri á milli ára heldur en nemur skattvísitölunni. Nýjustu athuganir leiða í ljós að tekjuaukningin milli áranna 1966 og 1967 verður 42%, en gamla ákvæðið um skattvísitöluna, 131, á að haldast óbreytt. Vegna tekjuaukningarinnar og þess, að ekki á að hækka skattvísitölu samsvarandi, eykst skattbyrðin um 2 miljarða. Um það bil önnur eins upphæð á síðan að koma í formi þessa feikilega rangláta nýja ríkisútsvars.

Í þessu sambandi hlýtur sú spurning að vakna, hvernig í óskögunum á því stendur að ríkisstj. eða engum aðila í stjórnarflokkunum skuli hafa hugkvæmst að láta atvinnureksturinn taka einhvern þátt í þessari alveg nýju skattheimtu, í innheimtu þessara 1.9 milljarða kr. Í því sambandi skulum við athuga hvernig skattgreiðslu af atvinnurekstri hefur verið háttað á þessu ári. Álagður tekjuskattur á allan atvinnurekstur í landinu nemur nú í ár 4.5 milljörðum kr. En álagður tekjuskattur á launþega — hvað skyldi hann nema miklu í ár? Hann nemur 8 millj. M.ö.o.: launþegarnir í landinu eru látnir borga næstum helmingi meira í tekjuskatt til ríkissjóðs en allur atvinnurekstur í landinu. Finnst mönnum þetta réttlátt, og finnst mönnum í framhaldi af þessari staðreynd vera réttlátt að bæta 1.9 milljörðum ofan á einstaklingana sem skattgjaldi?

Í þessu sambandi verður líka að minna á að það er ekki aðeins að atvinnureksturinn greiði um það bil helminginn á við það sem launþegar greiða í tekjuskatt til ríkissjóðs, heldur er fjöldinn allur af atvinnufyrirtækjum skattlaus, greiðir bókstaflega engan tekjuskatt. Það er ein skýringin á því, hvað heildarupphæðin hjá atvinnufyrirtækjunum er lítil, en upphæðin 4.5 milljarðar á bæði við félög, sem stunda atvinnurekstur, og einstaklinga, sem stunda atvinnurekstur.

Þessir 4.5 milljarðar, sem lagðir hafa verið á atvinnureksturinn í landinu í ár,eru tekjuskattsgreiðsla af veltu sem nemur — hvað skyldu þm. halda? — sem nemur 425 milljörðum kr., m.ö.o.: tekjuskattur atvinnufyrirtækja í landinu er um það bil 1% af veltunni. Ef einhverjum í hv. stjórnarflokkum kynni nú að hafa dottið í hug, að það væri eðlilegt að láta atvinnureksturinn taka einhvern þátt í eða jafnvel bera alveg þennan nýja skattstofn, 1.9 milljarða, sem leggja á með feikilega ranglátum hætti á einstaklinga í landinu, þá yrði auðvitað að spyrja: Hvað má gera ráð fyrir að velta atvinnufyrirtækja í fyrra hafi verið mikil? — ef menn hugsa sér hana gjaldstofn. Þetta hef ég athugað með aðstoð sérfróðra manna. Skattstofninn undir gjaldi sem yrði innheimt 1978, tekjur atvinnufyrirtækja í ár, á árinu 1977, eru taldar verða um 600 milljarðar kr. Þá er það mjög einfalt reikningsdæmi, hversu mikinn veltuskatt þyrfti að leggja á atvinnureksturinn í ár til þess að mæta þessari 1.9 milljarða tekjuþörf. Það eru 0.3% af veltunni eins og hún er áætluð í ár. Það er 1/3 úr prósentustigi af veltunni. Þegar menn hafa í huga skattgreiðslur fyrirtækjanna í ár og þá um leið væntanlega tekjuskattsbreytingu á næsta ári, fyndist mönnum þá réttlátara að láta á næsta ári einstaklinga í landinu greiða 1.9 milljarða, sömu prósentutölu fátæka manninn og ríka manninn, láta barnmörgu fjölskylduna greiða sömu prósentutölu af tekjum sínum og einstaklinginn, eða hitt að láta atvinnufyrirtækin í landinu greiða 1/3 úr prósentustigi af veltu sinni? Það væri mjög auðvelt í framkvæmd. Gjaldstofninn er til. Veltan er notuð sem gjaldstofn í sambandi við álagningu aðstöðugjalda. Það þyrfti ekki annað en bæta við þann gjaldstofn, — og það er einmitt það sem ríkið er að gera hér þegar miðað er við útsvörin, — það þyrfti ekki annað en bæta 0.3%, 1/3 úr stígi, ofan á þann gjaldstofn sem aðstöðugjöldin eru miðuð við til þess að ríkið fengi 1.9 milljarða sem þarf til að geta ábyrgst tekjuhallalaus fjárlög. Það er markmið sem ég og minn flokkur styðjum fullkomlega, að fjárlög séu eins og á stendur afgreidd án tekjuhalla.

Það er því ekki aðeins að með fyllstu rökum sé hægt að sýna fram á að sú gjaldheimta, sem þetta frv. fjallar um, sé feikilega ranglát, — um það erum við hv. frsm. minni hl. n., Magnús Kjartansson, algjörlega sammála, — ein ranglátasta gjaldheimta sem stungið hefur verið upp á um langt skeið. Það er ekki aðeins að hægt sé að fara ljós og skýr rök fyrir því, að gjaldheimtan sé ranglát, heldur líka auðvelt að benda á aðra tekjuöflunarleið sem er mjög einföld í framkvæmd og gæfi ríkissjóði sömu tekjur. Getur nokkur maður í alvöru verið í vafa um að það væri réttlátara að láta atvinnufyrirtæki á næsta ári borga til viðbótar aðstöðugjald 0.3% af veltu sinni heldur en að láta alla einstaklinga, hvernig svo sem högum þeirra er háttað, borga 1% af tekjum sínum í viðbót í eins konar ríkisútsvar?

Hér er í raun og veru um svo einfalt og ljóst mál að ræða, að mig satt að segja furðar á því, að slíkar hugmyndir skuli ekki hafa komið upp í alvöru í stjórnarflokkunum, og ég harma það mjög, ef engin breyting verður á afstöðu stjórnarflokkanna í þessu máli. Enn er tími til þess að gera breytingu hér á. Málið er mjög einfalt í eðli sínu. Frv. er einfalt. Sú hugmynd, sem ég hef hér sett fram og lýst, er líka mjög einföld. Það er hægt að gera þetta á einum eða tveimur fundum, sem að vísu yrðu að vera svolítið merkilegri heldur en fundirnir í n. sem hv. frsm. minni hl. var að lýsa, en þetta er hægt. Þetta er vandalaust að gera yfir helgina. Spurningin er bara, hvort vilji sé fyrir hendi.