17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

126. mál, almannatryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir viðhorfum mínum til þess. Það var því ekki ætlun mín að tala mikið meira um málið. En það er ástæðulaust, þegar hv. stjórnarþm. bjóða hér í almennar umr. um málefni, að verða ekki við óskum af slíku tagi og tala víð þá.

Ég held að ræða hv. síðasta ræðumanns gefi fullt tilefni til þess að fara hér um þetta mál nokkrum fleiri orðum en gert hefur verið. Það er að vísu ekkert nýtt að heyra það úr herbúðum stjórnarþm., að þær ráðstafanir, sem nú sé verið að gera í skattheimtumálum, séu gerðar fyrst og fremst og raunverulega eingöngu vegna þess að launafólk hafi fengið allt of mikið í síðustu samningum. Margir hafa talað djarft í þessum málum, en engan hef ég þó heyrt tala á þann hátt sem hv. síðasti ræðumaður, Sigurlaug Bjarnadóttir, talaði.

Ég vil fyrst víkja að því sem hún sagði hér að því er varðaði nefndarstarfið. Hún talaði í ásökunartón til okkar í minni hl. n. um það, að við hefðum ekki krufið málið til mergjar á nefndarfundi. Ég vil minna þennan hv. þm. á það, að það var meiri hl., sem virtist hafa það mikið að gera varðandi eitthvað annað, að það var hann sem sleit fundi í raun og veru áður en búið var að ræða málið út í n. Það er ekki við okkur minnihlutamenn að sakast um það, að málið hafi ekki verið krufið til mergjar í n.

Það voru þá stjórnarliðar, sem virtust eiga annríkt við önnur störf en í þessari n., sem slitu fundi áður en að mínu áliti var í raun og veru búið að ræða málið til botns. Og það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, að þessari hugmynd, sem hér er nú komin á borð þm. í brtt.-formi, hreyfði hann á fundi n., og það skal fram tekið, að það var einn hv. þm. úr þingliði meiri hl. sem tók undir þetta. Það var Guðmundur H. Garðarsson, hv. þm., og hann tjáði sig ekki reiðubúinn til að skrifa undir nál. þar sem mælt væri með því að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það væri lagt fram. Aðrir stjórnarliðar virtust vera tilbúnir að samþykkja málið eins og það lá fyrir Að vísu sagði hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir: Ég geri grein fyrir því í umr., að ég er ekki ánægð, en ég styð samt málið þó að sú breyting komi ekki fram sem hér er búið að leggja til. — Svo talar þessi hv. þm. digurbarkalega hér um það, að hún sé óánægð, hún vildi hafa hitt og þetta öðruvísi en það nú er. Hún samþykkir samt allt saman eftir sem áður eins og það er fyrir hana lagt af foringjunum í liðinu. Og þetta er ekki í fyrsta skiptíð sem hér fara fram umr. af þessu tagi af hálfu þessa hv. þm. Það er ekkert nýtt að heyra það í ræðustól á Alþ., að hún segist vera óánægð með hitt og þetta. En óánægja hennar breytir sáralitlu þegar hún samþykkir allt saman sem fyrir hana er lagt, hversu nauðug sem hún gerir það, hún gerir það eigi að síður.

Hún sagði að við fulltrúar minni hl. í heilbr: og trn. hefðum haft meiri áhyggjur af öðru heldur en láglaunahópum sem þessi gjaldheimta kæmi niður á. Ég vísa þessu algjörlega á bug. Ég veit ekki betur en fulltrúar minni hl. á Alþ., stjórnarandstaðan, í fyrsta lagi í sambandi við umr. um málið við 1. umr. hafi lýst viðhorfum sínum og bent fyrst og fremst á það, að hér væri verið að rjúfa fyrirheit sem hæstv. ríkisstj. gaf varðandi lausnina á vinnumarkaðinum á s.l. vori, með því að leggja þetta gjald á láglaunafólk, stóra hópa láglaunafólks sem lofað var skattfríðindum eða skattalækkunum. Og þetta var ítrekað af okkur í minni hl. n. á nefndarfundi. Hér er því ekki rétt skýrt frá því sem hv. þm, var að fara með. Hitt er rétt, að við vöktum líka athygli á því, að hér væri verið að fara þvert á þau loforð og gefnu fyrirheiti, sem núv. stjórnarflokkar hafa gefið um hreinni verkskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og hér væri ekki farið að þeim óskum, sem sveitarstjórnarmenn í raun og veru allir sem einn hafa talið eðlilegast, þ.e.a.s. að það væri ríkissjóðs eins að sjá fyrir sjúkratryggingum. Þetta bentum við á, og þetta er líka hluti af málinu. Við skulum hafa það í huga, og það ætti þessi hv. þm. að muna, að haustið 1975, þegar þetta mál kom fyrst upp með 1% gjaldi á útsvarsstofn, þá var því lýst yfir af hæstv. heilbr.- og trmrh., að þetta gjald væri einungis hugsað til eins árs — einungis til eins árs og þá 1%. Nú er það búið að gilda í tvö ár og lagt er til að það gildi þriðja árið og þá 2%. Hvað sem þessi hv. þm. þykist bera mikla umhyggju fyrir láglaunafólki varðandi samningsgerð, sem ég hygg að þessi hv. þm. hafi lítið sett sig inn í, eftir því sem hún talaði varðandi samningsgerðina sjálfa og verkalýðshreyfinguna í heild og starf hennar, þá sýnist mér þessi afstaða þessa hv. þm. ekki gefa tilefni til að ætla að hún sé mjög hlynnt láglaunafólki. Hér er um að ræða stórkostlega rangláta skattheimtu og ekki síst gagnvart láglaunafólki.

Hér er verið að leggja byrðar á þá hópa í þjóðfélaginu sem hafa síst efni á því og ástæður til að bera þær. Því er þessi hv, þm. samþykkur, hversu mikið sem hún talar um það hér í ræðustól í vandlætingartón, að þessir „sjálfskipuðu verkalýðsforingjar“ „lýðskrumarar“ og annað eftir því, sem hún talaði um, hugsi ekki mikið um þetta fólk. Ég hygg að þessi hv. þm. ætti, áður en hún talar í þessum dúr sem hún gerði hér áðan varðandi störf verkalýðshreyfingarinnar, að kynna sér eilítið betur það sem þar hefur gerst og hefur verið að gerast á undanförnum árum og áratugum. Henni er það ábyggilega ekki vel kunnugt, eftir því sem hún talaði.

En þessi hv. þm. sagði líka: Maður verður oft að gera fleira en gott þykir. — Og það er það sem hún virðist vera að gera núna. Hún vill koma því út á þrykk, hv. þm., að hún sé óánægð, hún hefði viljað hafa hlutina öðruvísi en leggur samt blessun sína yfir það, að það verði á þann hátt sem kemur verst við þá lægst launuðu, þá sem minnst hafa.

Þessi hv. þm. sagði: Hvernig verður komist hjá því að gera ráðstafanir vegna 70% kauphækkunar á árinu? (SigurlB: 60%.) 70% sagði hún síðan. í ræðunni. Við skulum taka millibilið, 65, förum miðlunarleiðina, hún sagði 60 og 70, við skulum taka 65%. Ég vil spyrja þennan hv. þm.: Hverjir voru það sem fengu 65% kauphækkun eftir samningana og hverjir sömdu um það?

Ég vænti þess, að þessi hv. þm. svari því hér á eftir, mér er ekki um það kunnugt, hvaða hópar innan Alþýðusambands Íslands hafa fengið 60 eða 65% kauphækkun. Ég vil spyrja þennan hv. þm.? Hverjir voru það sem sömdu um þessa kauphækkun í síðustu samningum? Ég vænti svars. (Gripið fram í.) Ég vænti þess, að hv. þm. komi hér í ræðustól á eftir og lýsi því skýrt og skorinort, hverjir það voru sem sömdu um þetta. Ég vil fá það á hreint. Mér er ekki um það kunnugt. Þessi hv. þm. sagði líka: Launahækkanirnar voru fjarri öllu lagi. — Hún skilgreindi ekkert nánar hvað hún ætti hér við, launahækkanirnar voru bara fjarri öllu lagi. Svo hélt hún áfram, eins og flestir stjórnarliðar hafa talað, að samningar við BSRB á s.l. hausti séu undirrót þess alls sem nú þarf að hækka varðandi afgreiðslu fjárlaga, þarf að skattleggja vegna samninganna við BSRB.

Þessi hv. þm. sagði líka að alþm. væru vel launaðir. Það er út af fyrir sig rétt, þeir eru vel launaðir. En við skulum hafa það í huga, að þessi hv. þm. hefur helminginn af sínum alþm: launum undanþeginn skatti. Það er líka mikils virði. Þeir, sem þannig eru settir, geta talað digurbarkalega um það, að aðrir sem þurfa af eigin rammleik að sjá fyrir heimilisframfærslu, hafi nægilega góð laun. Ég varð ekki var við það, fyrst þegar þessi hv. þm. kom inn á Alþ. eftir að hafa gegnt starfi sem opinber starfsmaður, sem kennari, að hún legði mikið kapp á að aflétta því, að hún fengi borguð laun frá ríkinu fyrir meira en eitt starf, — fyrir starf sem hún gegndi ekki. En það er hægt að koma eftir á og tala í þeim dúr sem þessi hv. þm. gerði um það, að alþm. séu það vel launaðir að hugsanlega mætti lækka hjá þeim kaupið. Um það ætla ég ekki að deila. En ég vil aðeins minna á það, að þessi hv. þm. átti ekki frumkvæði að því að leggja til að þau laun, sem borguð væru til kennara sem hér voru á Alþ., en sinntu ekki starfi, væru lögð niður. En hún var í hópnum sem fékk þau greidd. Og það er einnig rétt að minna þennan hv. þm. á það, að hann hefur skattfríðindi umfram allflesta aðra hv. þm. hér.

Svo er það eitt sem mér finnst sérstök ástæða til að fá upplýsingar um hjá þessum hv. þm. Það er í sambandi við launasamningana á s.l. sumri. Þessi hv. þm. sagði, ég held orðrétt: „Loforð ríkisstj. var háð skilyrði.“ Loforð ríkisstj. að því er varðaði skattalækkanir og hugsanlega annað líka, líklega lífeyrissjóði og annað slíkt, var háð skilyrði. Og ég vil fá að vita hvaða skilyrði eða skuldbindingar það voru sem verkalýðshreyfingin tók á sig að því er varðaði niðurstöðu samninganna. Var það að kauphækkanir mættu ekki fara yfir eitthvert ákveðið mark? Ég veit ekki til í fyrsta lagi, að verkalýðshreyfingin hafi gefið neinar slíkar yfirlýsingar vegna þessa loforðs hæstv. ríkisstj. En það væri fróðlegt að fá upplýst hjá þessum hv. þm. hvert þetta loforð var.

Því hefur verið haldið fram hér, hæði af mér og öðrum, að með því, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að fara með skattvísitöluna, bara það eina, hvernig hún hugsar sér að fara með skattvísitöluna, taki hún til baka þá skattalækkun sem lofað var við lausn vinnudeilnanna í sumar. Það eitt, hvernig með skattvísitöluna á að fara, gerir það að verkum, að því er öllu kippt til baka. Þó vil ég segja fyrir mitt leyti, að það, sem hér er nú verið að ræða um, er í mínum huga miklu alvarlegra atriði í því að ganga á bak loforða ríkisstj. af hennar hálfu varðandi lausn á samningunum í vor. Hér er beinlínis verið að ráðast með skattheimtu að ótrúlega stórum hóp þeirra þegna þjóðfélagsins sem verst eru settir, lægst hafa launin. Þetta frv., ef að lögum verður, segir ekki síst til sín hjá þeim.

Þá sagði hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, að hún fagnaði því sem hæstv. ríkisstj. væri nú að gera varðandi það að draga úr yfirvinnu. Vissulega er það fagnaðarefni að spara. En hvar heldur þessi hv. þm, að dregið verði úr yfirvinnu? Heldur hún að það verði frá þeim toppum sem hún var að tala um áðan? Ætli það verði fyrst byrjað á þeim? Ég hef enga trú á því. Það verður ábyggilega fyrst byrjað á þeim sem minna hafa og eru neðar í launastiganum. Það verður ábyggilega dyggilega um það séð, að þeir, sem mest hafa launin og mest hafa fríðindin að því er varðar ríkissjóð, haldi sínu. Það verður annars staðar hert að. En ég tek undir það með hv. þm., ef það verður svo, að hér verði um að ræða sparnað varðandi þá sem eru í toppunum, sem ég tel að eigi að byrja á að láta spara, þá fagna ég því. En ég hef bara ekki trú á því. Við höfum horft upp á það hér undanfarin ár undir handleiðslu núv. hæstv. ríkisstj. að útþensla ríkiskerfisins, þ.e.a.s. rekstrarins, hefur verið með þeim hætti, að það hefur ekki skapað trú á að nú yrði allt í einu snúið við blaðinu og farið að draga úr þar sem það er í raun og veru hægt. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort mikið er eftir máls hans-) Það gæti verið það og vissulega er tilefni til þess að halda lengri ræðu, en ég skal, herra forseti, ljúka þessu innan örfárra mínútna a.m.k.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði, að till. sú eða hugmynd, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefði hreyft hér áðan, væri athyglisverð. Ég vænti þess, að þessi hv. þm. sé ekki fyrst að heyra þessa hugmynd núna. Ég vænti þess, að hann hafi heyrt þessari hugmynd komið á framfæri við 1. umr. af tveimur þm. Hv. þm. Benedikt Gröndal benti á þetta við 1. umr. málsins, og undir það var tekið, að það væri nær að snúa sér frá því að fara á hin hefðbundinn mið skattheimtu, sem er láglaunafólk og almenningur í landinu, fara heldur á hin miðin sem lítið sem ekkert hafa. verið könnuð, þ.e.a.s. á mið skattleysingjanna, fyrirtækjanna og þeirra hópa í þjóðfélaginu, sem hafa ekki borgað skatta hingað til, og ná þessu þar. Á þetta var bent í umr. og hefur verið bent oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þannig að hér er ekki um nýja hugmynd að ræða, þetta hefur komið fram áður.

Ég skal herra forseti, ljúka þessu að sinni. Hugsanlega gefst tækifæri til að tala frekar í málinu siðar, haldi hv. stjórnarþm. áfram að gefa tilefni til almennra umr. um stjfrv. nú á síðustu dögum þingsins fyrir, jólaleyfi. En ég vil aðeins segja það að lokum, að þetta frv. er í fyrsta lagi að mínu víti brot á því loforði sem hæstv. ríkisstj. gaf varðandi lausnina á vinnumarkaðnum á s.l. vori. Það er í öðru lagi ranglátt, fyrst og fremst vegna þess að það leggst þyngst á stóra hópa í þjóðfélaginu sem enga möguleika hafa á að bera þá skatta sem hér er lagt til að á þá verði lagðir. Þetta tvennt eru í mínum huga nægilega miklar ástæður, þó ekki bætist fleira við, sem vissulega er fyrir hendi, til þess að vera andvígur þessu frv. og það með því að greiða atkv. á móti því, — ekki bara tala hér og þar og hingað og þangað um óánægju í hinum og þessum áttum, en standa svo að því, eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, að ætla með verkunum að leggja til, að það verði samþ., og greiða atkv. með því.