17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

116. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Tómas Árnason):

Hæstv. forseti. Frv. til l. um breyt, á l. nr 110 28 des. 1910, um Lífeyrissjóð bænda, sbr. lög nr. 35/1972, lög nr. 67/1974 og lög nr. 3 frá 1977, um breyt. á þeim lögum, hefur verið til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. og n. hefur fjallað um málið og orðið sammála um afgreiðslu þess og mælir með því á þskj. 219 að frv. verði samþykkt. Málið er því ágreiningslaust í n. og því ekki ástæða til að flytja langt mál um það til viðbótar framsögu fyrir frv. við 1, umr. í hv. þd. En þetta frv. fjallar um breytingar á löggjöfinni um Lífeyrissjóð bænda, sem var sett upphaflega 1970 og hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan.

1. gr. fjallar um breytingar á 3. mgr. 7. gr. laganna. Sú mgr, 7. gr. var ákveðin með tveimur lagasetningum. Önnur var árið 1974 og hin árið 1977. 1. mgr. 7. gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðgjöld bænda, sem eru sjóðfélagar, skulu innheimt af búvöruverði sem tiltekinn hundraðshluti þess. Hundraðshluti þessi skal ákveðinn fyrir fram fyrir hvert almanaksár, þannig að hann samsvari 4% af grundvallarlaunum, sbr. 8. gr., í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara haustið á undan. Hundraðshlutinn skal reiknaður með tveimur aukastöfum og skal gjald þetta dregið frá búvöruverði til sjóðfélaga á sama hátt og búnaðarmálasjóðsgjald samkv. lögum nr. 38 frá 1945.“

Á þessu var gerð breyting 1977 og 2. málsl. 3. mgr. hljóðar þannig í lögunum eins og þau eru nú:

„Þó skal gjaldið ekki vera lægra en svo, að það nemi 50% hærri hundraðshluta en hundraðshluta sjóðfélaga samkv. 1. mgr., reiknuðum að 3/4 hlutum heildarverðmætis búvara á almanaksárinu.“

1. gr. þessa frv. fjallar um að breyta þessum 3/4 hlutum í 4/5 hluta.

2. gr. leggur til breytingu á 8. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda. Þeirri gr. var breytt með lögum frá 1974, og 1. mgr. 8. gr. hljóðar svo:

„Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig er mynda grundvöll Lífeyrisréttinda hans. Nú hefur skilagrein um iðgjöld ekki borist sjóðnum innan 9 mánaða frá lokum almanaksárs, og er sjóðstjórn þá heimilt að telja þau iðgjöld með iðgjöldum næsta árs.“

Hér er lagt til samkv. 2. gr. þessa frv. að þessum 9 mánaða fresti verði breytt í 6 mánuði. Síðan er í 2. gr. í nánari atriðum greint frá framkvæmd þeirra breytinga sem gerðar eru með þessu lagafrv. og ég kem aðeins að í nokkrum orðum síðar, en sé ekki ástæðu til að lesa greinina í heild.

3. gr. fjallar um breytingu á löggjöf sem sett var fyrr á þessu ári og varðar ákvæði til bráðabirgða.

Varðandi málið í heild er það að segja, að með lögum nr. 3 frá 1977 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 101 frá 1970, um Lífeyrissjóð bænda, og var höfuðbreytingin sú, að sett voru ákvæði um sérstaka uppbót á lífeyrisgreiðslur árin 1976–1977 til samræmis við samkomulag Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda í febr. 1976 og breyt. á l. nr. 63 frá 1971, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Launþegar og vinnuveitendur gerðu með sér nýtt samkomulag, eins og öllum er kunnugt, í júnímánuði s.l., og var höfuðefni þess varðandi lífeyrissjóðina framlenging ofangreindra ráðstafana, sem ég var að gera grein fyrir, um tvö ár, þ.e.a.s. til ársloka 1979. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að tilsvarandi framlenging eigi sér stað hjá Lífeyrissjóði bænda. Stjórn Lífeyrissjóðsins telur þessa framlengingu óhjákvæmilega, og þess vegna er þetta frv. raunverulega flutt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við þetta frv., að upphaflega voru sett lög um Lífeyrissjóð bænda 1970. Síðan er búið að breyta þessu þrisvar sinnum og nú er verið að gera fjórðu breytinguna. Ef þm. eiga að átta sig á því, hvað eru lög í þessu efni, þá þurfa þeir að draga upp öll þessi lög, bera þau saman, vegna þess að þau hafa ekki verið felld saman í eitt meginmál. Ég vil nota tækifærið til að finna að því, að ekki skuli vera handhægt fyrir þm, að hafa aðgang að því, með stuttum fyrirvara og auðveldum hætti hvað eru lög, og læt ég í ljós undrun yfir því, að ekki skuli vera leiðrétt lagasafn til afnota fyrir þm. á ýmsum stöðum eða í ýmsum húsakynnum Alþ., t.d. fyrir þn. og fyrir þm. þegar þeir taka þátt í umr. hér á Alþ. Ég vil gjarnan beina því til hæstv. forseta, að forsetarnir hlutist til um að það verði gerð í þessum efnum breyting til batnaðar, þannig að það sé auðvelt fyrir þm., hvenær sem er, hæði við nefndarstörf og einnig við umr. hér, á Alþ., að átta sig á því, hvað raunverulega eru lög, en þurfi ekki að tína þetta til sitt úr hverju horninu til þess að vera vissir um hvað raunverulega er í gildi sem lög, þegar verið er að fjalla um breytingar á lögum.