17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja dálitla brtt. við þetta frv., þar sem lagt er til að auka svolitlu við 5. gr. Viðbótin er svo hljóðandi:

„Hækkun flugvallagjaldsins samkv, þessari gr. skal renna til flugstöðvabygginga eftir nánari ákvörðun flugráðs“

Í fyrri hluta þessarar gr. segir að innheimta skuli flugvallagjald á árinu 1978 helmingi hærra heldur en það sem fyrir var. Þetta er aðeins í takt við annað sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram hér, þegar hana vantar peninga, eins og á hverju ári síðan hún tók við völdum. Ríkisstj. hefur alltaf fundið nýja möguleika í tekjuöflun með því að leggja á nýja skatta. Auk þess að leggja á nýja skatta hefur hún framlengt tímabundna skatta, eins og frægt er orðið af hinu sérstaka tímabundna vörugjaldi sem átti að standa í 6 mánuði og stendur enn eftir á fjórða ár. Auk þess að framlengja skatta, finna nýja skatta, þá hefur hún tvöfaldað aðra. Og einmitt í þessari grein er lagt til að tvöfalda þennan skatt. Ríkisstj. hefur auk þess verið ákaflega hugmyndarík í því að finna nýja tekjustofna og að þessu sinni eru tekjustofnarnir afar öruggir, ekki síst sjúklingarnir sem á nú að fá til þess að auka tekjur ríkissjóðs um 500 millj. með hækkun lyfja og læknisaðstoðar. Það væri sannarlega ástæða til þess að hver einasti þm. stjórnarandstöðunnar tæki þessi mál öll til rækilegrar meðferðar. En við höfum nú látið okkur nægja að fáir blandi sér í þessar umr. og teygi ekki um of úr þeim, en skoðanir okkar Alþb.- manna hafa að sjálfsögðu komið fram í þeim öllum.

En varðandi flugvallagjaldið er það ekkert sérstakt fyrir Íslendinga, því að flugvallagjald hefur verið lagt á erlendis mjög víða. En mér er ekki kunnugt um að slíkt flugvallagjald hafi nokkurs staðar verið tekið í ríkissjóð viðkomandi lands. Það hefur í flestum tilfellum verið notað beint til þess að fjármagna rekstur viðkomanúi flugvallar, þar sem það hefur verið tekið. En dæmi eru einnig til þess, að flugvallagjald hafi verið látið renna til annarra greina flugmála. Ég er á móti slíkri gjaldheimtu af ýmsum ástæðum og vil ekki tefja tímann með því að eyða löngu máli í að rökstyðja það, ég er mjög mikið á móti því að taka flugvallagjald sem rennur í ríkissjóð, en gæti hins vegar fallist á til samræmis við það sem annars staðar þekkist, ekki síst vegna fjárskorts þeirra sem eiga að sjá um framkvæmdir í flugmálum, að leggja á slíkan skatt ef hann rennur til framkvæmda í flugmálum. Það er ekki ósanngjarnt.

Í brtt. minni legg ég aðeins til að hækkun á gjaldinu — hækkunin ein — renni til sérstakra þarf í flugvallamálum, ekki allur flugvallaskatturinn, svona eins og til samkomulags, að krefjast ekki alls gjaldsins, heldur aðeins þess sem við bætist. Það er þó nokkur upphæð, þó ekki sé hún mjög há, en nógu há til þess að bæta úr sérstökum verkefnum í flugmálum. Og ég hef lagt til að þetta fari til þess að reisa flugstöðvar í landinu. Sá þáttur flugmála hefur vegna fjárskorts verið vanræktur mjög um langt árabil, því að fjárveitingar til þessara mála hafa verið svo naumt skammtaðar að ekki hefur þótt mögulegt að klípa af þeim til þess að lagfæra flugstöðvarbyggingar úti á landi eða í Reykjavík. Til þess hefur einfaldlega ekki verið fjármagn. Það er líklega áratugur síðan flugstöð var reist hér á landi, mig minnir að það hafi verið á Ísafirði, bar til nú að smíði flugstöðvar er hafin í Vestmannaeyjum.

Á fjárl. er nú áætlað að andvirði flugskýlisins í Reykjavík, sem flugmálastjórn selur, renni til smíði flugstöðvar hér í höfuðborginni, — flugstöðvar sem er auðvitað alls ekki fyrir Reykvíkinga fremur en aðra landsmenn, heldur flugstöð allra landsmanna, því að um slíka flugstöð fer á ári hverju í innanlandsflugi einu saman nokkuð á þriðja hundrað þúsund manns. Svo mikið er flugið orðið hér í þessu landi, að það er flogið með alla þjóðina á ári hverju og heldur meira en það. Og það er til skammar að hafa þá aðstöðu eins og hún er. Það er braggi á bragga ofan og hver skúrinn við annan, allt saman byggt úr efni sem getur fuðrað upp á augnabliki, og það er sérstök heppni að þessi flugstöð skuli ekki vera horfin út í veður og vind fyrir löngu í þeim eldsvoðum sem orðið hafa hér á flugvellinum. Með samþykkt þessarar brtt. væri einmitt tækifæri til þess að koma þessari flugstöð upp miklu fyrr en nokkur möguleiki er til með fjárveitingum af þeirri stærð sem um er að ræða í fjárlagafrv., þar sem flugstöð, sem sæmilega mætti una við, mundi vafalaust kosta mörg hundruð millj. kr. Og nú er einmitt kjörið tækifæri fyrir þá hv. hv. alþm., sem töluðu mikið í fyrri umr. sem fram fór hér á dögunum, þegar flugmálin bar á góma um leið og fjárlagafrv. var afgreitt. Þá tóku til máls margir hv. alþm. og kvörtuðu undan sáralitlum fjárframlögum til þess landshluta sem þeir sjálfir voru frá. Einstaka maður hafði þó nægilegt viðsýni til þess að sjá ekki aðeins niður fyrir tærnar á sjálfum sér, en horfði til landsins alls. En því miður eru slíkir hv. þm. allt of fáir. Nú er tækifærið fyrir þessa hv. þm., m.a. hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur sem hafði þá nægilegt loft til þess að þenja sig í alllangan tíma yfir fjárskorti til flugmála á Vestfjörðum. Og, nú er einnig tækifæri til fyrir hv. þm. Framsfl. að taka undir sams konar söng flokksbróður síns Ólafs Þórðarsonar, hv, þm., því að með þessum fjármunum, sem þarna mundu koma, væri hægt að létta af fjárveitingafé hvers árs, því að ég geri fastlega ráð fyrir því, þó að þarna sé gert ráð fyrir fjárveitingunni aðeins árið 1978, þá verði það framlengt áfram eins og siður hefur verið hjá hæstv. ríkisstj. Ég slæ því ósköp einfaldlega föstu vegna reynslunnar.

Nú er einmitt tækifæri til þess fyrir þessa hv. alþm. að bæta við það fjármagn sem til ráðstöfunar fer, þar sem þessir peningar kæmu þá til þessara sérstöku mála, þ.e. flugstöðvabygginga, og þá ætla ég endilega að taka það fram, að ég á ekki eingöngu við Reykjavík, síður en svo, því viða úti á landi eru þetta kofaskrifli sem engum manni er í rauninni bjóðandi inn í. Ég get auðvitað sagt það hér, að sú flugstöð, sem enn er t.d. í notkun í Vestmannaeyjum, er að flatarmáli minni en karlaklósettin í flugstöðinni á Egilsstöðum, og um þessa flugstöð fara um 60 þús. manns árlega. Auðvitað er slíkt okkur til vansa. Þeir kofar, sem eru við ýmsa flugvelli úti á landi, eru þannig, að það er stundum jafnvel betra að vera úti heldur en inni, þó í vondu veðri sé. Ég tel óþarft að telja upp þá staði. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að þessi mál komi hér sem oftast til umr., þannig að menn geti ekki komist hjá því að heyra vissar staðreyndir um þetta vandræðabarn, flugmálin, sem hefur verið allt of naumt skammtað í allt of langan tíma.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að sinni. En ég vil þó sérstaklega beina orðum mínum til hæstv. samgrh., sem ég sé að nú er kominn í salinn, að hann hvetji flokksbræður sína til að standa að samþykkja þessarar brtt., því að þeim mun meiri peningar sem koma inn í viðbót með þessum hætti, þeim mun minni áhyggjur þarf hann að hafa af því að veita meiri peninga til þessara hluta, þar sem við komumst ekki hjá því á næstu árum að bæta úr varðandi flugstöðvarbyggingar, hvort sem okkur þykir það ljúft eða leitt.