17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti Sjútvn. hv. d. hefur haft mál þetta til athugunar og sendi það til umsagnar fjögurra aðila, þrír hafa svarað, þ.e.a.s. Landssamband ísl. Útvegsmanna, sem leggst eindregið gegn samþykkt þess, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands einnig, en Félag ísl. fiskmjölsframleiðenda mælir með samþykkt frv. Frá Sjómannasambandi Íslands hefur ekki borist umsögn.

Ég skal ekki fara ítarlega út í að ræða málið efnislega, eins og gert var við 1. umr. málsins. Hins vegar vil ég í framhaldi af þeim umr., sem þá urðu, taka undir athugasemdir og varnaðarorð sem þar komu fram, þau eiga á margan hátt fullan rétt á sér. Ég bendi þó enn á að hér er um eitt og einangrað mál að ræða sem Alþ. ber að taka ákvörðun um, þetta eina sérstaka skip, og það er verið að gefa því takmarkað leyfi til veiða eða heimild til veiða um takmarkaðan tíma. Til þess að hv. þm. geri sér frekar ljóst, hvað í mótmælunum felst, vil ég aðeins geta efnisatriða sem þar koma fram.

Framkvæmdastjórn Farmanna- og fiskimanasambands Íslands hefur vitnað til samþykkta sem komu fram á þingi sambandsins og að nokkru var svarað í grg. og framsögu fyrir frv. við 1. umr. Það er afskaplega vafasöm kenning, að það sé hægt að geyma þá loðnu í sjónum, sem við sjálfir veiðum ekki, sem einhvers konar varasjóð til seinni tíma. Ég held að það séu fleiri en ég og þeir, sem frv. fluttu með mér á sínum tíma, sem séu sammála um það, enda mun það stangast á við kenningar fiskifræðinga. Þeir hafa líka bent á örtröð sem ríki á miðunum við suðaustur- og suðurströndina á hefðbundinni loðnuvertíð. Þetta getur að sjálfsögðu staðist, eins og við allar veiðar okkar hér við Íslandsstrendur, ef þær eru á takmörkuðu svæði. Nú hefur þó svo þróast, að þessi veiði dreifist á nær allt árið og hún er á mjög stórum svæðum, og miðað við það stóra hafsvæði, sem loðnan fer um, má segja sem svo, að með þeim takmarkaða flota, sem við höfum yfir að ráða, á ekki að þurfa að koma til neinna árekstra á miðunum vegna þessa. Það, sem hins vegar hefur verið viss ótti uppi um, eru árekstrar í höfnum og við löndun þessa afla. En með orðalagi því, sem í frv. er, teljum við að sá ótti sé ástæðulaus, enda er það skilyrt að loðnunefndin geti beint þessu ákveðna skipi, mótorskipinu Ísafold, eftir því sem þörf er á til hafna er liggja fjarri aðalveiðisvæði hverju sinni.

Athugasemdir Landssambands ísl. útvegsmanna eru í fjórum höfuðliðum. Í fyrsta lið er bent á að það sé verið að veita, eins og við að sjálfsögðu vitum, hv. þm., að það sé verið að veita erlendu skipi heimild til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, eða eins og þeir segja orðrétt — með leyfi forseta, — í sinni fyrstu athugasemd: „Við teljum ekki koma til greina að heimila einu tilteknu erlendu skipi veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu sem nýtur allra réttinda innan fiskveiðilögsögu Efnahagsbandalags Evrópu, og mun ekki koma til veiða hér nema þegar eigendum skipsins hentar vegna takmarkana á veiðum hjá EBE. En það mun hafa fiskað fyrir meira aflaandvirði en nokkurt íslenskt skip á þessu ári Ef slíkt leyfi yrði veitt mundi það hafa í för með sér fordæmi fyrir leigu erlendra skipa til Íslands.“ Svo að ég svari þessu strax þá bendi ég enn á þá staðreynd, að það er Alþ. sem hefur úrskurðarvald um þetta í hverju og einu tilfelli, sem kemur upp í sambandi við slíka beiðni, og getur játað eða hafnað eftir því sem það sér ástæðu til. Hvernig hagur þessa skips hafi verið fram að þessu kemur auðvitað ekki þessu máli við. Spurningin er sú, hvort við teljum okkur hafa einhvern hag að því, og það teljum við. Þá segja þeir í 2. tölulið: „Við vekjum athygli á að loðnuflotinn hefur stækkuð frá s.l. ári um 8–10 þús. burðarlestir. Á sama tíma hefur engin ný verksmiðja tekið til starfa. Á s.l. ári háði takmörkuð vinnslugeta verksmiðja veiðimöguleikum flotans og mun svo verða í enn ríkari mæli á næsta ári.“

Þetta var 2. tölul. í athugasemdum LÍÚ. Við þessu er það svar, að þetta er ekki alls kostar rétt hjá þessum mikilsvirtu samtökum. Þó að fjöldi verksmiðja hafi ekki aukist hafa verið gerðar stórkostlegar endurbætur á þeim verksmiðjum sem fyrir eru. Vinnslugeta þeirra hefur verið stóraukin og jafnframt geymslumöguleiki aflans sem að landi kemur. Auk þess er meginefni frv. það, að skip þetta, sem um er rætt, svo ég endurtaki það einu sinni enn, eigi að landa fjarri aðalveiðisvæðunum, þannig að ekki komi til þess að árekstrar verði við löndunina. Ég bendi á það í fréttum sjónvarps í gærkvöldi eða fyrrakvöld var skýrt frá framkvæmdum við ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði, en það hafa orðið mjög umtalsverðar breytingar á þeim og tæknibúnaði einnig. Sama má segja um Seyðisfjörð, Eskifjörð og Bolungarvík. Á öllum þessum stöðum hefur orðið mjög mikil breyting til hins betra til móttöku loðnuaflans.

Í 3. athugasemd sinni segir LÍÚ: „Ákvæði um heimild til veiði í íslenskri fiskveiðilögsögu eiga ekki heima í lögum um löndun loðnu til bræðslu. Þau lög voru sett að beiðni samtaka útvegsmanna, sjómanna og verksmiðjueigenda til þess að ná betri nýtni á veiðiskip og verkmiðjur, og loðnulöndunarnefnd hefur aldrei verið falið að stjórna löndun á erlendum veiðiskipum. Ef henni verður falið það verkefni er allt það samstarf í hættu, því vér munum ekki kæra oss um að fulltrúar í n. komi nærri því starfi.“

Svo mörg voru þau orð. Nokkru vægar er farið í efnislegar aðfinnslur heldur en þegar mál þetta var síðast á dagskrá hér á þingi, en þá voru hinar stærstu hótanir og hin verstu orð viðhöfð frá þessum samtökum í garð Alþ. ef ekki yrði farið að þeirra till. Það kemur auðvitað engum öðrum hagsmunasamtökum við hvar Alþ. ákveður að staðsetja í lögum vilja sinn. Það verður að fara eftir því sem önnur lög heimila þinginu að gera, og það er þegar fordæmi um að þetta hefur verið samþ. hér á Alþ., í báðum deildum Alþingis, að veita slíka heimild í þeim lögum sem við erum að ræða nú.

Það að kippa manni sínum út úr loðnunefnd fær auðvitað ekki staðist, og hún mun starfa áfram þrátt fyrir það. Ég fæ ekki séð heldur að það eigi að verða neitt samstarf í hættu, vegna þess einfaldlega, og það er nú það skrítna við það, að það er eins og þeir komi ekki auga á eigin hagsmuni eða hagsmuni útgerðarinnar í heild, sem slíkan flota rekur, eða sjómannanna, sem starfa á þessum skipum, því að bættur hagur verksmiðja, meiri afli til úrvinnslu þar og bættur hagur þeirra, þýðir hærra fiskverð til þeirra sem taka sitt frá skipi, bæði áhafna og eigenda.

Í fjórðu athugasemd sinni segir LÍÚ: „Með öllu er óljóst hvernig aðild umrædds skips ætti að vera að því verðkerfi sem hér gildir, t.d. varðandi flutningsstyrk til loðnulöndunarnefndar, greiðslu vátryggingaiðgjalda, greiðslu í Stofnfjársjóð fiskiskipa, greiðslu útflutningsgjalda o.fl.“ Vegna þessa og líka að ósk annarra nm. leitaði ég upplýsinga hjá sjútvrn. Rn. bendir á það að sjálfsögðu, að í 1. gr, frv., setri við hér ræðum, sé gert ráð fyrir að þetta skip, eina ákveðna skip, hlíti reglum sem sjútvrn. setji, og hvað snertir aðild umrædds skip að verðkerfi því sem hér gildir, þá muni rn. setja þær reglur að skipið muni ekki njóta styrkja eða greiðslna úr neinum sjóða sjávarútvegsins né heldur flutningastyrkja loðnulöndunarnefndar. Skipið mundi einungis fá greitt verð verðtagsráðs fyrir afla sinn og mundi þá einnig njóta sambærilegra greiðslna við greiðslu í stofnfjársjóð eftir nánari reglum sem settar yrðu, en það fé, sem þar safnast upp, er skráð á hvert skip fyrir sig. Auk þess var tekið fram munnlega við mig af ráðh., að það vátryggingagjald, sem skipíð ætti að fá ef íslenskt væri, mundi ekki ganga til þess, heldur mundi því verða ráðstafað af sjútvrn. íslenskum sjávarútvegi til hagsbóta því að af nógu væri að taka þar.

Ég þykist þá hafa farið yfir efni þeirra athugasemda, sem hingað hafa borist, og lesið þær veigamestu og svarað beint.

Niðurstaða sjútvn. þessarar d. varð sú, að meiri hl. hennar, fimm nm., mælir með samþykkt frv., hv. 6. þm. Suðurl. mun skila séráliti, en sjöundi nm., Sighvatur Björgvinsson, hv. 8. landsk. þm., var bundinn við skyldustörf sín í fjvn. þegar fundur okkar var haldinn og var því fjarverandi.