20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

5. mál, öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Á þskj. 5 hef ég leyft mér að flytja þáltill. sem hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara sérstaka allsherjarathugun og úttekt á öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Öryggiseftirlit ríkisins og Heilbrigðiseftirlit ríkisins skulu stjórna athuguninni og framkvæmd hennar gerast í samráði við vinnuveitendur, trúnaðarmenn starfsfólks og viðkomandi verkaláðsfélög.“

Undanfarna mánuði hafa orðið mörg alvarleg vinnuslys hér á landi, og sýna þau að rík nauðsyn er að gefa meiri gaum að öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum en gert hefur verið til þessa. Sú heildarathugun og úttekt á þessum málum, sem till. þessi fjallar um. mundi án efa leiða í ljós fjölmargar hættur sem unnt er að fyrirbyggja. Auk þess mundi hún verða ómetanleg stoð við þá endurskoðun laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem nú stendur yfir.

Í viðræðum um kjarasamninga s.l. sumar lagði verkalýðshreyfingin mikla áherslu á að lög! um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum yrði endursamin og þá með tilliti til nútímahugmynda á þessu sviði. Með bréfi hinn 22. júní s.l. féllst ríkisstj. á að skipa 9 manna n. til að vinna það verk og skyldi stefna að því, að ný lög taki gildi eigi síðar en í ársbyrjun 1979. Vil ég treysta því, að þessi n. hafi þegar hafið störf og það takist að afgreiða ný lög um þetta efni ekki seinna en 1979, eins og miðað er að.

Þá lagði verkalýðshreyfingin s.l. sumar jöfnum höndum áherslu á að „gerð verði sérstök allsherjarathugun og úttekt á ástandi aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum“. Var þess óskað að úttekt þessi færi fram á næstu 12 mánuðum samkv. sérstöku umboði stjórnvalda. Svo og að allar nauðsynlegar úrbætur yrðu gerðar samkv. gildandi lögum að viðlagðri lokum vinnustaðanna. Enn fremur var farið fram á að fyrirtækjum yrðu veitt sérstök lán til þess að gera nauðsynlegustu úrbætur á þessu sviði.

Svo fór að ríkisstj. féllst ekki á þessa kröfu nema að nokkru leyti. Hún lofaði í áðurnefndu bréfi athugun sem á „að ná til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða“, eins og það er orðað í bréfinu.

Enda þótt mikill ávinningur sé að endursamningu laganna og takmarkaðri úttekt vinnustaða sýnir reynslan um hin tíðu og alvarlegu vinnuslys, að nauðsyn er á þeirri allsherjarathugun sem samninganefndir verkalýðsfélaganna óskuðu eftir. Samþykkt Alþ. á þessari till. sem ég hef flutt mundi því ekki aðeins verða mikilsverður stuðningur við þetta mál almennt, heldur aðkallandi útvíkkun á því lofaði sem ríkisstj. gaf.

Það getur verið örlagaríkur munur á því, hvort athugun er látin ná til allra vinnustað sem unnt er að skoða, eins og verkalýðsfélögin óskuðu eftir, eða til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða. Vegna þess að aðstæður geta verið mjög mismunandi á sambærilegum vinnustöðum og aðstæður geta í einu og einu fyrirtæki verið þannig að verkafólki stafi bein hætta af. Ég tel allsherjarathugun nauðsynlega bæði til þess að reyna að fyrirbyggja sem víðast slysahættu, eins og vinnuaðstaða er í dag. og einnig til þess að sú n., sem á að endurskoða þessi mál fyrir nýja lagasetningu ekki seinna en 1979, fái sem víðtækastar heildarupplýsingar um ástand mála á þessu sviði og geti af því dregið ályktanir um það, hvernig rétt og nauðsynlegt er að sníða væntanleg lög við íslenskar aðstæður.

Við þm. Alþfl. höfum mörg undanfarin þing flutt till. um vinnuvernd og starfsumhverfi, algera endurskoðun á löggjöf og hugmyndir manna á því sviði, og hafa þær verið ræddar, oft fengið mjög góðar undirtektir manna úr öllum flokkum, en hafa þó ekki hlotið afgreiðslu. Þessar till. hafa nú náð fram að ganga á þann hátt, að verkalýðshreyfingin hefur sjálf tekið málið upp í sambandi við heildarsamninga og ríkisstj. hefur fallist á að setja þá athugun í gang sem óskað hefur verið eftir. En slík áhersla, sem verkalýðshreyfingin lengur í þetta mál, kemur mjög vel fram í þeirri viðbótarkröfu samninganefndanna, að nú þegar fari fram og verði lokið á næstu 12 mánuðum allsherjarathugun og úttekt á ástandi vinnustaða hvað öryggi og heilbrigðishætti snertir.

Herra forseti. Að lokinni umr. legg ég til að till. verði vísað til allshn.