17.12.1977
Efri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. gat um, varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Við í minni hl. leggjumst raunar ekki gegn frv. nema að því leyti til, að við teljum ekki víðeigandi að ríkissjóður eigi færi á því að taka meira fé vegna þessarar hækkunar en hann þegar gerir í formi aukins söluskatts. Við skilum sérstöku nál. og við skilum einnig brtt. á þskj. 212, þar sem lagt er til, að söluskattur, sem lagður kunni að verða á gjald þetta, skuli renna í Vegasjóð Í nál. okkar kemur fram, að við teljum að þegar ríkissjóður hafi svo mikið af umferðinni, sem er rétt um 2/3 hlutar af þeim tekjum er umferðin er skattlögð um, eigi ekki að halda lengra, heldur breyta dæminu og tryggja Vegasjóði meira fjármagn.

Það væri hægt að hafa um þetta frv. og vegamál í heild langt mál, en við ríkjandi aðstæður og tímaskort svo síðla á þessum degi ætla ég ekki að gera það. En ég vara við því, að ef til bensínhækkunar kemur samkv. heimild í lögum vegna vísitöluhækkana, hagnast ríkissjóður alltaf jafnt og þétt á því með sínu hlutfalli út úr söluskatti. Það gengur ekki. Margir eru á því, að það sé þegar of mikið ef ríkissjóður tekur helming af þeim gjöldum, sem umferðin skapar ríkissjóði möguleika á, en hér hefur verið svo undanfarið, að ríkissjóður tekur um 2/3. Allir þm. eru sammála um, að gera þarf stórátak til að lagfæra vegi um allt land, og til þess þarf auðvitað mikið fjármagn. Þess vegna erum við ekki á móti hækkuninni, en við deilum um hvernig hún á að skiptast.

Það er með eindæmum — ég fullyrði það — hversu miklir skattar eru á nýjum bifreiðum á Íslandi og hef ég sagt það áður í ræðustól á hv. Alþ., að ég tel allt of langt gengið. Ég tel að bifreiðarnar eigi ekki að skattleggja svo óskaplega þegar innkaup eru gerð á nýjum bifreiðum, tel að bifreiðin sé orðin óhjákvæmileg flestum fimm manna fjölskyldum í landinu og vegna vinnu þúsunda manna verði þeir að hafa bíl til að komast leiðar sinnar. Einnig er það staðreynd, að fólkið úti um allt land vill fá betri vegi og verður að fá betri vegi. Þess vegna er sú krafa rökrétt og réttmæt, að sem mest af því fjármagni, sem umferðin gefur, renni í vegagerð og gerð varanlegs slitlags.

Í sameinuðu þingi liggur fyrir till. frá tveimur hv. þm. Annar þm. er frsm. meiri hl. nú, hv. 4. þm. Suðurl. Ég lýsti mig mjög eindreginn stuðningsmann þessarar till. þeirra tvímenninganna að gera sérstakt átak í því að leggja það sem við köllum varanlegt slitlag eða bundið slitlag á sem mest af þjóðvegum úti um land. Ég harma að ekki skuli hafa komið fram yfirlýsingar frá hæstv, ráðh., þar sem hann styður efnislega framgang þessarar till. Vonandi fær till. byr í sameinuðu þingi, og vonandi getum við tryggt Vegasjóði réttmætan hluta þess gjalds sem umferðin gefur, því að annars förum við heldur aftur á bak í vegagerðinni vegna verðbólgu og vegna aukinnar bifreiðanotkunar úti um allt land.

Ég vil undirstrika þá till. okkar í minni hl., að þetta frv. gefi Vegasjóði allar þær tekjur er það gerir ráð fyrir, en ríkissjóður fá ekki krónu vegna frv.