20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Flm, Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi flutti ég þessa sömu till. og grg„ sem var á sömu lund og fylgir till. nú. Till. sjálf hljóðar svo:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. og fulltrúa íslands í Norðurlandaráði að beita sér fyrir því að Grænlendingar fái fulla aðild að Norðurlandaráði og velji fulltrúa sína sjálfir.“

Við Íslendingar höfum að vonum ævinlega reynt að fyljast dálítið með högum Grænlendinga. Við áttum sameiginlega sögu í nokkrar aldir, og það er eitt af leyndarmálum mannkynssöguna hvernig þessari sameiginlegu sögu lauk. Má vel vera að Grænlendingar séu auk annars einnig frændur okkar.

En það er mikil ástæða bæði fyrir okkur og fyrir allar Norðurlandaþjóðir að beina athygli sinn að Grænlandi, því er svo háttað með Norðurlandaþjóðirnar, að við stöndum mjög framalega meðal þjóða heims á ýmsum sviðum að því er varðar lífskjör, menningarmál, félagsmál o.fl., og við hælum okkur einatt af þessu og höfum nokkra ástæðu til. En því miður er svo ástatt á Norðurlöndum. að þar er að finna staði sem hafa ekki tekið þátt í þessari svo jákvæðu þróun sem fyrst og fremst hefur verið að gerost síðustu hálfa öld eða svo.

Sá staður, sem verst er ástatt um hvað þetta snertir, er Grænland. Ég kynntist því sjálfur 1975, þegar samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs hélt fund á vesturströnd Grænlands, og notaði tækifærið til að ferðast þar æðimikið um um hálfs mánaðar skeið, þannig að ég kynntist ástandinu í landinu talsvert mikið, og þetta er í eina skiptið sem ég hef komið í land þar sem verið hefur nýlenduástand þó ég hafi flakkað æðimikið um veröldina. Þegar ég kom til Grænlands 1975 var þar ótvírætt nýlenduástand. Grænland var að vísu ekki formleg nýlenda lengur en til ársins 1953. Þá breyttu Danir stöðu landsins þannig að þeir kölluðu Grænland síðan amt í Danmörku.

Ástæðan fyrir þessari breytingu var mjög annarleg. Það hafði verið samþ. á þingi Sameinuðu þjóðanna, að Sameinuðu þjóðirnar skyldu kanna ástandið í þeim nýlendum sem eftir væru í heiminum. Danir vildu af eðlilegum ástæðum ekki að Sameinuðu þjóðirnar könnuðu ástandið á Grænlandi og þess vegna var þessi breyting gerð, að Grænland hét ekki lengur nýlenda, heldur amt í Danmörku. En það gerðist því miður um leið, að Danir framkvæmdu ákaflega umfangsmikla röskun á högum Grænlendinga. Fram að þeim tíma hafði allur þorri Grænlendinga verið veiðimenn og veiðimenn eru persónulega frjálsir menn hvernig sem háttað er yfirstjórn í landi þeirra. Þeir geta rekist á ýmsa ömurlega hluti í sambandi við verslunarkjör og annað slíkt, en daglega eru veiðimenn frjálsir menn. En 1953 var farið víða. m.a. með hreinu ofbeldi. að flytja alla Grænlendinga í þorp og smábæi við strendur Grænlands. Þetta gerðist á mjög stuttum tíma og hefur haft mjög átakanleg áhrif á grænlensku þjóðina. Þróun af þessu tagi er að vísu víða um lönd, m.a. hér á Íslandi. Hér hefur sú þróun orðið, að fólk heftur streymt úr sveitum til bæja. En hér gerðist þessi þróun það hægt og án nauðungar að hún hefur ekki klippt sundur samband þjóðar við fortíð sina eins og gerst hefur á Grænlandi.

Meðan ég ferðaðist um Grænland rak ég mig hvarvetna á þetta ömurlega ástand. Það er svo, að með hví að flytja fólk til bæja við ströndina og reyna að fá það til að taka upp svipaða lifnaðarhætti og tíðkast t.a.m. í ýmsum Vestur-Evrópulöndum. þá hefur hagur fólks ekki batnað því að sú vinna sem fyrst og fremst var tekin upp, var fiskveiðar og ýmiss konar fiskvinnsla í sambandi við þær. Hins vegar er svo ástatt í flestum höfnum Grænlands, að þar leggst ís að á veturna og ekki er hægt að stunda fiskveiðar eða fiskvinnslustörf á því tímabili og á þessu tímabili er fólkið atvinnulaust. Slík skipan getur að sjálfsögðu ekki haldist. Og ég rak mig hvarvetna á nýlenduástandið meðan ég ferðaðist um Grænland þennan hálfa mánuð.

Í landinu eru um 40 þús. Grænlendingar og um 10 þús. Danir. Danir eru algjör yfirstétt í landinu. Danskir verkamenn, sem vinna í Grænlandi, fá miklu hærra kaup en Grænlendingar. Og þetta á líka við um embættismenn. Ég man eftir því, að þegar ég ferðaðist við strendur Grænlands 1975, þá hitti ég einu sinni ungan Grænlenskan kennara Ég við spjölluðum svolítið saman. Hann sagði mér að hann hefði komist til Danmerkur og gengið þar í danska kennaraháskólann og lokið prófi. í skólanum kynntist hann danskri stúlku, sem líka var að læra til kennara, og þau giftust og útskrifuðust á sama tíma. Síðan störfuðu þau í eitt eða tvö ár í Danmörku við sama skóla og fengu að sjálfsögðu sama kaup. Síðan ákveða þau að flytjast til Grænlands. Þau eru ráðin að sama skólanum. En þá gerist það að kaup Grænlendingsins er skorið niður býsna mikið í samanburði við laun konu hans, vegna þess að þar gilti sú regla að þeir, sem voru Grænlendingar, ættu að hafa lægra kaup heldur en þeir sem voru Danir. Afleiðingin af þessu er m.a. sú, að meiri hl. af kennarastéttinni í Grænlandi er Danir og flestir þeirra kunna ekki neitt í grænlensku. það er ömurlegt ástand í grænlenskum skólum þar sem koma börn, sem skilja ekki dönsku, og kennari, sem kann ekki grænlensku. Það verður litið um kennslu í slíkum skólum, enda tóku Danir upp á því átakanlega úrræði, að þeir fluttu börn 10–11 ára gömul frá Grænlandi til Danmerkur og létu þau vera þar í eitt ár til þess að þau lærðu dönsku og gætu skilið kennara sinn. Það er varla hægt að hugsa sér öllu ömurlegra ástand en þetta.

Aðgangur Grænlendinga að námi hefur verið mjög takmarkaður. Þegar ég var í Grænlandi 1975 var mér sagt að þar væri einn maður, einn einasti Grænlendingur. sem hefði fengið að læra til þess að verða læknir. Ég kom á sjúkrahús, myndarlegt sjúkrahús, á einum stað þar sem við höfðum viðkomu. Þetta var myndarbygging og vel búin, og svo fór ég að spyrja um starfsliðið. Það kom í ljós að allir læknar sjúkrahússins voru danskir og kunnu ekki orð í grænlensku. Það kom í ljós að allar hjúkrunarkonur og allir sjúkraliðar á sjúkrahúsinu voru Danir og kunnu ekki orð í grænlensku. Grænlendingar fengu að vinna önnur störf í sjúkrahúsinu, þvo gólf, þvo þvotta og annað slíkt, en þeir fengu ekki að sinna sjúklingum. Og afleiðingin var sú, að læknar Ég hjúkrunarfólk gat ekki talað við sjúklingana nema með aðstoð túlks. og menn geta nærri hversu erfið hjúkrunarstörf eru þegar þannig er ástatt.

Ég get nefnt ákaflega mörg dæmi af þessu tagi sem ég rak mig á þessar tvær vikur sem ég ferðaðist um Grænland. Þau voru öll á þessa sömu lund. Og afleiðingin af þessu hefur að sjálfsögðu orðið sú, að það hefur vaxið upp frelsishreyfing hjá ungu fólki í Grænlandi frelsishreyfing sem hefur verið að magnast undanfarin ár og kemur stundum fram á býsna harkalegan hátt. Ég hefði það í fréttum á síðasta ári, að mig minnir, að forsrh. Dana, Anker Jörgensen, hefði orðið fyrir því í einni höfn, sem hann kom til í Grænlandi, að hann hefði verið grýttur. Ástand af þessu tagi hvetur til slíkra atburða.

Ég vil ekki líta á þetta einvörðungu sem smánarblett á Dönum, það er það, Ég bað er smánarblettur á öllum Norðurlandabúum. Eins og ég sagði áðan eigum við sameiginlega sögu með Grænlendingum. Norðmenn eiga það líka, og raunar deildu Norðmenn og Danir um það um skeið hvor ætti að fá að hafa nýlenduna Grænland. Það var hópur manna hér á Íslandi fyrir ekki ýkjalöngu sem stofnaði sérstakt félag sem átti að hafa þann tilgang að gera Grænland að íslenskri nýlendu. Sem betur fer heyrast ekki slíkar raddir lengur. En Grænlendingar hafa haft þessi sögulegu tengsl við Norðurlönd frá upphafi sögualdar, má segja, og það er sameiginleg skylda okkar Norðurlandabúa að aðstoða Grænlendinga til þess að geta haldið menningu sinni og andlegu sjálfstæði í því efnahagslega umróti sem vafalaust er óumflýjanlegt hjá þeim.

Það er sagt að Grænlendingar eigi að fá heimastjórn á næsta ári, minnir mig. En þessi hugmynd um heimastjórn er óhemjulega takmörkuð. Hún er takmörkuð á þann hátt, að allar auðlindir Grænlendinga, öll auðæfi, sem kunna að finnast í Grænlandi eða á hafsbotninum umhverfis Grænland, eru ekki eign Grænlendinga, heldur danska ríkisins. Þetta er að mínu viti ömurlegur blettur á Dönum, að gera slíkt. við þekkjum að vísu þetta sama. Árið 1901 sömdu Danir við Breta um að Bretar mættu veiða fisk alveg upp að ströndum Íslands, inni á fjörðum og flóum, upp að 3 mílum. Þetta var viðskiptasamningur til þess að koma dönsku fleski og dönsku smjöri á markað í Bretlandi, Við sátum uppi með þennan samning þangað til 1951, og við höfum orðið að heyja harða baráttu til þess að hrinda afleiðingum þessa samnings. Okkur hefur sem betur fer tekist það. En það kynni að verða erfiðara fyrir Grænlendinga að hrinda samningum sem gerðir væru við alþjóðlega auðhringa um að vinna t.a.m. olíu eða úran sem hvort tveggja hefur fundist á Grænlandi. Ef slíkir atburðir gerðust, að erlendum alþjóðlegum auðhringum yrði heimilað að vinna úran eða olíu við Grænland, þá yrði endanlega bundinn endir á sögu Grænlendinga og sennilega menningu.

Menning Grænlendinga á mjög í vök að verjast. Menning er hvarvetna samofin atvinnusögu og öðrum þvílíkum aðstæðum, eins og við Íslendingar þekkjum mætavel. Þegar Grænlendingar voru rifnir með valdi úr eðlilegu umhverfi sínu 1953 voru slitin tengsl þeirra við fortíðina á ömurlegan hátt. Það er starfandi í Grænlandi einn lýðháskóli þar sem kennt er á grænlensku um grænlenska menningu. Ég kom þangað. Þetta er mjög myndarleg stofnun, en hún er ekki sérlega öflug. Þessi skóli hefur mikinn áhuga á því að ná til næstu frænda Grænlendinga sem búa hinum megin við svolítið sund, Kanadamegin, því að þar er um að ræða sameiginlega menningu og að allmiklu leyti sameiginlegt málfar. Fulltrúar lýðháskólans fengu einu sinni tækifæri til þess — og hvernig gerðist það? Það var ekki hægt að ferðast þessa stuttu leið yfir sundið frá Grænlandi til Kanada, það voru engar samgöngur. Fulltrúar skólans urðu að fljúga til Kaupmannahafnar og þaðan var síðan flogið til höfuðborgar Kanada og loks farið landleið til næstu nágranna Grænlendinga Kanadamegin.

Þetta ástand er algerlega herfilegt og er, eins og ég hef áður sagt, sameiginlegur blettur á Dönum og okkur öllum Norðurlandabúum. Mér er ljóst að það þarf æðimikið átak til þess að Grænlendingar fái aftur fótfestu og geti hnýtt aftur tengslin við sína fornu menningu þó aðstæður séu breyttar. Til þess þarf vafalaust mjög mikla fjármuni. En ég tel að það ætti að vera siðferðileg skylda allra Norðurlandaríkja að leggja þá fjármuni fram. Við Íslendingar höfum notið þess, að hér hefur verið starfandi um skeið iðnþróunarsjóður sem önnur Norðurlönd veittu fé til til þess að aðstoða okkur. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að stofna slíkan iðnþróunarsjóð handa Grænlendingum einnig og þá með þátttöku okkar að sjálfsögðu. Við eigum að geta aðstoðað Grænlendinga við að nýta sjálfir þær auðlindir sem finnast í Grænlandi eða í hafsbotninum umhverfis Grænland, að nýta þær sjálfir og fá arðinn af starfseminni, sem kemur á sínum tíma, í eigin hendur. Þetta er tvímælalaus skylda okkar og þetta tel ég að við eigum að gera. Þáltill. mín hefur þennan tilgang. Ég skora í henni á ríkisstj. og fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði að heita sér fyrir því að Grænlendingar fái fulla aðild að Norðurlandaráði og velji fulltrúa sína sjálfir. Ég vona að þessi samstaða sé til á hinu háa Alþ. og að engin formleg atriði komi þar til með að standa í vegi.

Ég á, eins og ég gat um áðan, sæti í samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs. Við, sem eigum sæti í þeirri n., höfum haft þann hátt á, að við höfum heimsótt ýmsa afskekkta staði á Norðurlöndum og kynnt okkur aðstæður þar, ekki aðeins Grænland. Ég lagði til á fundi, sem haldinn var í sumar í þessari n. á Álandseyjum, að n. sameiginlega beitti sér fyrir því að þjóðernisminnihlutar á Norðurlöndum fengju beina aðild að Norðurlandaráði hver um sig með a.m.k. tveimur fulltrúum svo að afstaða þeirra gæti komið fram á sem skýrastan hátt. Þarna er um að ræða Grænlendinga, þarna er um að ræða Sama, þarna er um að ræða Færeyinga og Álandseyjabúa og þýska minni hlutann í Danmörku. Félagar mínir í samgöngumálanefndinni töldu að það væri ekki hægt af formlegum ástæðum að fallast á þetta, eins og ekki var hægt að fallast á fyrirspurnina hér í upphafi fundar af formlegum ástæðum, og vísuðu málinu á bug af formlegu tilefni. Ég ræddi við félaga mína í samgmn., og ég heyrði það á Dönum að þeir höfðu áhyggjur af því, að ef slík till. yrði samþ. eins og þessi, þá mundi þýski minni hl. í Danmörku geta fengið aðild að Norðurlandaráði. Við vitum það ákaflega vel, að ástandið í kringum landamærin milli Danmerkur og Þýskalands hefur verið ákaflega viðkvæmt mál. En ég held að það eina skynsamlega fyrir Dani væri það, ef þýski minni hl, óskar eftir því að komast í Norðurlandaráð, að hann fái fullkomlega aðstöðu til þess. Það er þýskur minni hl. Danamegin við landamæri, það er danskur minni hl. Þýskalandsmegin við landamærin og þarf að tryggja — það hlýtur að vera hagsmunamál Dana — að þarna verði sem eðlilegast ástand. Það verður einmitt með því að þessir minni hl. fái eðlilega aðild að sameiginlegum stofnunum.

Ég flutti þetta mál á þinginu í fyrra. En ég var veikur þegar málið kom til umr. og hv. þm. Gils Guðmundsson mælti fyrir því í minn stað. Mér þótti ákaflega vænt um, að hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson tók til máls eftir að hv. þm. Gils Guðmundsson hafði mælt fyrir málinu og hæstv. utanrrh. tók mjög undir þetta sjónarmið mitt. Hæstv. ráðh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er þessu mjög sammála. Ég álít að Grænlendingar eigi ekkert síður rétt á því heldur en Færeyingar, Álendingar og við að eiga aðild að Norðurlandaráði og kynna þar aðstæður sínar, málefni og vinna þeim það fylgi sem Norðurlandaráð getur veitt og við höfum áður rætt um hér og það ekki alls fyrir löngu að er umtalsvert:

Og hæstv, ráðh. lauk máli sínu á þessa leið: „Er hér um umtalsvert þjóðarbrot að ræða, fólk sem byggir sérstakt land og fólk sem á skilið að njóta fyllstu mannréttinda. Þess vegna styð ég þessa till. af heilum hug:

Þetta sagði hæstv. ráðh. og þetta var vissulega mikilvægur atburður. Mér er kunnugt um að hann vakti m.a. athygli í Danmörku.

Ég geri mér vonir um að þetta mál geti borið þannig að í Norðurlandaráði að við fulltrúar Íslands sameiginlega getum flutt málið. Það mundi gefa því þann þunga sem málið þarf að hafa. Og ég mun freista þess að ræða við félaga mína í Íslandsdeild Norðurlandaráðs um það, hvort við getum ekki náð samstöðu um að flytja þetta mál saman. Ég tel að á þann hátt sýndum við Grænlendingum þann ítrasta stuðning sem við getum gert að því er varðar Norðurlandaráð.

Nú reynist þetta af einhverjum ástæðum ókleift, þá mun ég beita mér fyrir því, að þessi till. verði engu að síður flutt í Norðurlandaráði, og leita þá almennt til Norðurlandaráðsmanna um hvort þeir vilji standa að tillögugerðinni með mér. En ég legg áherslu á það, að ég tel að það væri langsamlega öflugast ef við Íslendingar hærum gæfu til að standa saman um flutning þessarar tillögu.

Ég vil taka það fram, að ef einhver metnaður er í mönnum þá geri ég það ekki að neinu atriði að ég verði fyrsti flm. Hitt geri ég að mjög miklu atriði og vona að það takist, að Íslendingar standi saman um þá stefnu, sem ég hef verið að lýsa, og um þá stefnu, sem hæstv. utanrrh. hefur á eindregnasta hátt lýst stuðningi við.