17.12.1977
Efri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 170 er frv. til l. um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er eitt af þeim frv. sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. nú í sambandi við afgreiðslu fjárl. og gerð hefur verið grein fyrir í þeim umr. sem fram hafa farið við 2. umr. fjári. Þetta frv. fjallar um skyldusparnað, sem gert er ráð fyrir að verði árið 1978 lagður á tekjur ársins 1977, eins og kveðið er á í 1. gr. frv., og er ætlað að veiti ríkissjóði aukið ráðstöfunarfé um 1 milljarð, sem færðist þá á lánahreyfingareikning. Fjalla 1.–4. gr. frv. um skyldusparnaðinn og með hvaða hætti hann skal á lagður.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að lagt verði á flugvallargjaldið álag sem nemur 100% á árinu 1978, og gert ráð fyrir að það auki tekjur ríkissjóðs á árinu um 300 millj.

Í 6. gr. er ríkisstj. veitt heimild til að ákveða á árinu 1978, að gjald af gjaldeyris- og innflutningsleyfum verði allt að 2% af þeirri fjárhæð sem leyfin hljóða um. Ríkisstj. ákveður hvernig gjaldi þessu skuli ráðstafað. Gert er ráð fyrir að það gefi ríkissjóði um 200 millj. kr. í tekjur á árinu 1978.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv., en vísa til þess, sem ég hef áður sagt, svo og grg. Leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.