17.12.1977
Efri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ákvæði þessa frv., sem hér er til umr., stefnir að því að lögbjóða að þegnarnir leggi af mörkum aðstoð við þjóðfélagið, þar sem það á í vissum erfiðleikum, með því að inna af hendi sparnað sem nánar er tilgreindur í þessu frv. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá stefnu, sem kemur fram í þessu frv., og mun fylgja því. Aðeins fannst mér rétt á þessu stigi málsins að vekja athygli á 1. gr. frv., þar sem segir: „og ekki eru orðnir 67 ára fyrir 1. jan. 1978“.

Í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem við búum við jafnvíðtækt almannatryggingakerfi og hér ríkir samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi, þar sem engar hömlur eru settar á það, hvað snertir efnahag einstaklinganna, að þeir njóti þeirra hlunninda sem ákveðin eru í lögum um almannatryggingar — menn njóta þar allra réttinda hvað snertir greiðslu sjúkrakostnaðar, slysatrygginga og ellilífeyris — fæ ég ekki skilið að nokkur sanngirni mæli á móti því, að allir þegnar þjóðfélagsins, þegar svo er ástatt eins og nú er, taki þá ekki einnig þátt í því að inna þá skyldu af hendi sem rætt er um í þessu frv. Ég get ekki séð að nein ástæða sé til þess að hlífa manni við eða undanþiggja hann þeirri þjóðfélagsskyldu að koma til hjálpar ef þörf er á, þó að hann sé orðinn 67 ára eða eldri. Allar aðstæður þessa einstaklings geta verið á þann veg, að honum er miklu léttara að inna þessa skyldu af hendi en kannske yngri manni í þjóðfélaginu.

Ég verð að segja að oft hefur það komið mér í hug að taka bæri til gagngerðrar athugunar, hvort ekki ætti að lofa ungu fólki að koma sómasamlega undir sig fótunum efnahagslega séð áður en er farið að taka fulla skatta af því, því að oft vill einmitt svo verða, að þó að menn á unga aldri hafi miklar tekjur standa þeir líka í miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum við að byggja upp heimili sín, koma sér upp húsnæði og ýmsu fleira. Hjá flestum er svo komið, að þegar þeir eru komnir á vissan aldur hafa þeir lokið þessu hlutverki, þannig að þeir eru oft miklu frekar þess umkomnir að inna af hendi slíka skyldu eins og til að myndu ræðir um hér í þessu frv. en þeir sem yngri eru.

Ég vil því leyfa mér að óska eftir því, að það yrði athugað í þeirri n., sem fær þetta frv. til athugunar, að gera breytingu á þessu frv. í þá átt sem ég hef verið að ræða um, því að ég tel að þær ábendingar, sem ég hef verið að koma með hér, séu á sanngirni reistar.