17.12.1977
Efri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil segja það, að mér kom það óþægilega á óvart að hv. 2. þm. Norðurl. e. skyldi lýsa ánægju sinni með þá stefnu sem þetta frv. til laga um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum markar. Ég vil á móti lýsa hryggð minni yfir að fjármál þjóðarinnar skuli vera svo bágborin að grípa þarf til þess að taka fjárráð að hluta af frjálsu fólki. Ríkissjóður sjálfur neitar að standa skil á vöxtum, þó svo að einstaklingar og fyrirtæki eigi inni hjá ríkissjóði, og á sama tíma rukkar ríkissjóður eða skattheimtan vexti og dráttarvexti af því sem sami einstaklingur skuldar, þannig að það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón sem um er að ræða.

Það, sem ég er óánægður með að sjá í þessu frv., ætla ég að leyfa mér að lesa hér. Það er þá fyrst — og hleyp ég þá yfir talsverðan part í upphafi 1. gr. — með leyfi forseta, en þetta stendur hér:

„Hjá skattþegnum, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal, áður en ákvæðum 2. mgr. er beitt, hækka vergar tekjur til skatts um þá upphæð sem tekjur af þessum störfum eru lægri en ætla má að laun þessara að afla miðað við vinnuframlag þeirra hefðu orðið ef þeir hefðu unnið starfið í þágu óskylds aðila.“

Þetta er stefna sem ég get ekki fellt mig við. É g lýsi andstöðu við bæði yfirlýsingar 2. þm. Norðurl. e. og frv, ríkisstj. sem hér liggur fyrir.

Það segir svo í síðustu mgr. á bls. 1: „Hið sparaða fé skal bundið vaxtalaust á reikningum til 1, febr. 1984, en með verðtryggingu samkv. 2. gr.

Af hverju á ríkið að þvinga fólk til þess að láta af hendi í skyldusparnað 10% af launum sínum, ef það nær að vinna sæmilega fyrir sér, og ríkið síðan að vísu að verðtryggja það, en standa ekki í skilum með eðlilega vexti eins og ríkisbankarnir greiða af bundnu fé? Hér er ríkissjóður í sínum fjárhagsvanda að reyna að fá ódýrara fé með lagasetningu en hann hefur aðgang að á frjálsum markaði, við skulum segja að hann fengi lán í bönkum, eins og hver og einn verður að gera ef hann þarf á því að halda. Ríkissjóður er hér með lögum að svipta ákveðna aðila sjálfsforræði yfir hluta af sínum ráðstöfunartekjum eftir að það hefur greitt sín opinberu gjöld og staðið í skilum við þjóðfélagið.

Síðan kemur hér í 2. gr., með leyfi forseta, svo hljóðandi: „Þann 30. jan. 1984 greiðir ríkissjóður verðbætur á höfuðstól í hlutfalli við þá hækkun sem kann að verða á vísitölu framfærslukostnaðar frá 1. jan. 1979 til 1. jan. 1984.“ Síðan kemur: „Sé skyldusparnaður ekki greiddur að fullu fyrir 1. jan. 1979 reiknast verðbætur þó aðeins frá 1. jan. næsta ár á eftir fullnaðarskilum.“

Segjum sem svo, að smáhluti af heildarupphæðinni sé ógreiddur,við skulum segja 10% ógreitt þá skal 90%, sem greitt hafði verið fyrir réttan gjalddaga, vera vaxtalaust í heilt ár. Þetta ásamt mörgu öðru í þessu frv. er hrein fjarstæða, og ég er hissa að ríkisstj. skuli leyfa sér að Leggja slíkt frv. fram.