19.12.1977
Efri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég hóf umr, um þetta frv. til þess eins að fá skýringu á því frá formanni n., til að flýta fyrir afgreiðslu málsins á fundi af því að tími er svo naumur, hvers vegna orðalag frv. væri eins og raun ber vitni, þar sem aðalaðili að málinu hefði komið til mín persónulega, skipstjórinn og eigandi skipsins, og tjáð mér að hann væri fús til að hafa Norðurlandshafnir sem aðalvettvang sinn til löndunar. Ég fór ekki fram á annað en það væri staðfest í frv. Og ég get líka sótt hér gögn sem sýna, að þegar um vetrarloðnuveiði er að ræða er sáralitlu landað norðanlands. Hins vegar snýst dæmið við þegar um sumarloðnu er að ræða og haustloðnu en þá er í flestum tilfellum hægt að sigla lengra, eins og íslensk skip hafa gert. Ég segi alveg hiklaust: Ég sé enga ástæðu til þess að þetta erlenda skip sé jafngilt í reglum og um íslenskt skip væri að ræða. Ég sé enga ástæðu til þess, því að þegar íslensk skip fengu leyfi til löndunar í Danmörku voru þau jafnan sett skör lægra en dönsk skip, þó að það væri frjáls löndun, en hún var ýmsum takmörkunum háð og hægt er að fá mörg dæmi um það, — ekki þarf að tefja tímann í þessum umr, með því. Það sem ég tel rétt, er að hafa það á hreinu í lögunum að aðallöndunarsvæðið skuli vera norðanlands. Þá dytti engum manni í hug að hrekja skipið út í óvíss veður eða þar fram eftir götunum. Ef Norðurlandshafnir lokast með einu eða öðru móti, þá siglir skipið auðvitað þangað sem loðnunefnd bendir því að fara. Það stendur að vísu í þessu frv. núna: „enda hlíti það reglum er sjútvrn. setur.“ Þetta gefur hæstv. sjútvrh. heimild til að setja næstum hvað sem vera skal í leyfið. En ég vil þá að þessar umr. verði til þess, að hæstv. ráðh. geri sér fulla grein fyrir því, að það sé vilji þm. að leyfið sé ekki jafngilt því, að um íslenskt skip væri að ræða. Einnig vil ég minna á, að a.m.k. útvegsmenn hafa eindregið lagst gegn þessu frv. Hins vegar hafa verksmiðjueigendur talið þetta æskilegt. Ég hald að frv. eigi góðan stuðning á Alþ. gegn vissum skilyrðum og mér finnst þess vegna vel hugsanlegt að setja inn í frv., að aðallöndunarsvæði þessa skips skuli vera hafnir norðanlands, Þá hefur hæstv. ráðh. það á hreinu, þegar hann gefur út sitt leyfi með þeim skilyrðum, sem hann metur nauðsynleg, að þetta skip á að koma til fyllingar íslenska flotanum með löndum á Norðurlandshafnir.

Að öðru leyti, herra forseti, skal ég ekki tefja þessar umr. Fleiri atriði hafa fléttast inn í þetta mál. En þetta er alls ekki einfalt, vegna þess að það hefur sýnt sig að afkastageta íslenska loðnuveiðiflotans er orðin svo mikil að hann fyllir allar verksmiðjur oft á einni viku og hefur orðið að sætta sig við að löndunarbið og jafnvel veiðistöðvun vegna þess að ekki hefur verið hlustað á þá kröfu og þau réttmætu rök, að auka þurfi afkastagetu verksmiðjanna í samræmi við mjög aukna afkastagetu veiðiflotans.