20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég á sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og er því nokkuð kunnugur þeim málavöxtum sem hér er um að ræða. Sannleikurinn er sá, að efnislega séð er till. þessi ekki í samræmi við gildandi milliríkjasamning um starfsemi Norðurlandaráðs og starfsreglur þess. Efni hennar er í beinu ósamræmi við þann samning sem Ísland er aðili að og gildir nú um starfsemi Norðurlandaráðs. M.ö.o.: af formlegum ástæðum væri ógerningur fyrir Alþingi Íslendinga, að ég ekki tali um fyrir Norðurlandaráð sjálft, að samþykkja slíka till. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því, þótt hv. flm. 3, þm. Reykv., Magnús Kjartansson, flytji till. sem ekki er formlega hægt að samþykkja. Alþ. var fyrir einni og hálfri klukkustund að fella að leyfa fsp., sem hann hafði borið fram, af hliðstæðum ástæðum, vegna þess að hún er ekki í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi Alþingis, þ.e.a.s. ekki í samræmi við þingsköp, og það var skoðun allra viðstaddra þm. nema tveggja.

Hitt verð ég að segja, í allri vinsemd þó, að mér kemur það mjög á óvart að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera kunnugri þeim milliríkjasamningi, sem gildir um Norðurlandaráð og Ísland er aðili að, og þeim reglum, sem gilda um starfsemi Norðurlandaráðs, en svo, að hann treystir sér til þess að mæla með því að þessi till. verði samþ. Í henni segir að ríkisstj. og fulltrúar Íslands skuli beita sér fyrir því, að Grænlendingar fái fulla aðild að Norðurlandaráði og velji fulltrúa sina sjálfir. Það er rangt, sem hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinn áðan, því miður, að Færeyingar og Álendingar hafi fulla aðild að Norðurlandaráði. Þeir velja að vísu sjálfir þá fulltrúa sem eiga sæti í deildum hlutaðeigandi ríkja sem Færeyingar og Álendingar eru í lögákveðnum tengslum við. En fulla aðild eiga Færeyingar og Álendingar ekki, beinlínis af því að samkvæmt stofnsamningi Norðurlandaráðs er slíkt ekki mögulegt. Af nákvæmlega sömu ástæðum yrði ekki heldur unnt að veita Grænlendingum fulla aðild að Norðurlandaráði.

Þetta hefur auðvitað verið ástæða þess, að enginn félaga hv. flm. í samgmn. Norðurlandaráðs hefur viljað taka undir þessa hugmynd hans þar. Öllum hinum þm. í samgmn. hefur auðvitað verið kunnugt um þær staðreyndir sem ég er að lýsa, að þetta er af formlegum ástæðum ekki mögulegt, og með formlegum ástæðum á ég við að það væri í andstöðu við milliríkjasamninginn um Norðurlandaráð og þær starfsreglur sem ráðið hefur sett sér samkv. honum.

Að sjálfsögðu hljóta ekki aðeins allir Íslendingar, heldur allir góðir menn á Norðurlöndum að hafa fyllstu samúð með réttindabaráttu og sjálfstæðisbaráttu þjóðaminnihlutanna á Norðurlöndum: Færeyinga, Álendinga, Grænlendinga og Sama og þýska minni hlutans í Danmörku, eins og hv. flm. nefndi. Ég endurtek: Að sjálfsögðu hljóta allir Íslendingar og allir góðir menn á Norðurlöndum og raunar hvarvetna að hafa fyllstu samúð með réttinda- og sjálfstæðisbaráttu þessara þjóðaminnihluta. En formlega rétta leiðin til þess að koma því fram, að þeir fái fulla aðild að Norðurlandaráði, er þá auðvitað að bera fram brtt. við milliríkjasamninginn eða um starfsreglur ráðsins sjálfs. Það getur gerst með tvennum hætti: annaðhvort að Norðurlandaráð sjálft hafi frumkvæði að því að breyta starfsreglum sínum eða ríkisstj. komi sér saman um breytingar á milliríkjasamningnum um starfsemi Norðurlandaráðs. Með öðru móti er það ekki hægt. Ég geri ekki ráð fyrir að neinum detti í hug, að ef slík breyting yrði gerð næði hún til eins þjóðernisminnihlutans. Þá ætti hún auðvitað að ná til þeirra allra. Hitt er vægast sagt út í bláinn, að ætlast til þess að ríkisstj. eða fulltrúar Íslands í Norðurlandaráði beiti sér fyrir samþykkt af hálfu þess, ráðsins sjálfs, sem er í beinni andstöðu við starfsreglur þess og samninginn sem þær eru grundvallaðar á. Hitt væri sök sér, að Alþ. skoraði á íslensku ríkisstj. að beita sér fyrir breytingum á samningnum og starfsreglunum í þá átt að auka réttindi þjóðernisminnihlutanna ú Norðurlöndum. Það er allt annað mál.

Ég vek athygli á því, að þessi till. er ekki um réttinda- eða sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga. Hún er um skipan Norðurlandaráðs, nánar tiltekið aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði. En ég endurtek, að slík aðild er ekki möguleg að óbreyttum starfsreglum Norðurlandaráðs og óbreyttum þeim samningi sem Íslendingar hafa undirritað. Slík till. væri í fullu ósamræmi við hann, og það er alveg öruggt, að verði slík till. flutt í Norðurlandaráði, þá verður henni vísað frá af nákvæmlega sömu ástæðu og Alþingi Íslendinga vísaði áðan frá fsp. hv. þm. til hæstv. dómsmrh. og formanns Framsfl., hvort sem menn vilja kalla það formlega ástæðu eða hafa um það einhver önnur orð.

Það er kunnugt, það ætti hv. flm. að vera kunnugt og það ætti einnig hæstv. utanrrh. að vera kunnugt, að Grænlendingar sjálfir hafa enga ósk borið fram í þessa átt. Það hefur engin ósk komið fram af hálfu grænlenskra stjórnvalda í þessa átt auðvitað af þeirri einföldu ástæðu að forustumönnum Grænlendinga er kunnugt um hvernig starfsreglur Norðurlandaráðs eru og hvernig sá milliríkjasamningur er sem starfsemi þess er grundvölluð á, Þess vegna hafa þeir enga slíka ósk borið fram. Hitt kæmi auðvitað vel til mála, það samrýmist reglunum og milliríkjasamningnum, að Grænlendingar fengju sömu aðstöðu og Færeyingar hafa nú að því er Danmörk snertir og Álendingar að því er Finnland snertir. Það samræmdist samningnum. Ef till. væri um það, þá væri hún frambærileg og yrði ekki vísað frá. En hún er ekki um það. Form hennar er þannig, að hún samræmist ekki gildandi reglum og samningum og yrði því eflaust vísað frá á þingi Norðurlandaráðs. Það tel ég að mundi hvorki verða Íslendingum til sóma né heldur gera Grænlendingum gagn. Þess vegna mun ég ekki treysta mér til þess að vera aðili að flutningi till. efnislega samhljóða þeirri sem flutt er á þskj. 13.