19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs sérstaklega vegna þess að það eru ýmis viðhorf, sem komu fram við umr., sem mig langar til að fara um nokkrum orðum.

Það er þá í fyrsta lagi till. hv. 5, þm. Norðurl. v., þar sem hann leggur til að félög og atvinnurekstur yfirleitt skuli einnig greiða skyldusparnað svo sem einstaklingar. Þau rök, sem hann hefur fyrir þessu, eru að sjálfsögðu þau, að margvíslegur einkarekstur, rekstur sem er rekinn í eigin nafni, er skyldugur til þess að borga skyldusparnað samkv. þessum lögum, ef afraksturinn er slíkur, og getur að því leyti stutt mál sitt nokkrum rökum. Ég tel þau þó ekki fullnægjandi þar sem ég tel að atvinnurekstrinum yfirleitt sé íþyngt það mikið, að eitthvert hóf verði að vera þar á. Ég álít að afkoma hans í heild sé ekki það góð að ástæða sé til þessarar skattlagningar. Það má náttúrlega reyna að mótmæla þessu á þeim forsendum, að ef fyrirtæki sýni hreinan hagnað, þá sé ekki um það að ræða að sá rekstur eigi í erfiðleikum. Þessi rök eru þó ekki fullnægjandi, vegna þess að í verðbólguþjóðfélagi, eins og nú er, er rekstrarreikningur ekki einhlítur um afkomu fyrirtækis. Fyrirtækið getur sýnt hreinan rekstrarlegan hagnað, þó svo að fyrir liggi að tap sé á rekstrinum. Það er hægt að búa til slík dæmi. Ég álít að mjög nauðsynlegt sé að eigið fé fyrirtækja sé verulegt og það sé miklu fremur nauðsynlegt í mörgum tilvikum að reyna að rýmka þær reglur sem eru til eiginfjármyndunar í fyrirtækjum. Ég get ekki fallist á þetta, enda er markmiðið með þessu ákvæði um skyldusparnaðinn að sjálfsögðu að reyna að draga úr óþarfaneyslu í þjóðfélaginu, en ekki að sporna gegn því að fé sé látið í atvinnureksturinn í landinu. Það er fyrst og fremst markmiðið með þessari lagasetningu að reyna að koma í veg fyrir óþarfaeyðslu, „spandans“, eins og það heitir á vondu máli. Ég vil jafnframt láta þess getið, að mér þykir þessi skyldusparnaðarskuldbinding fullhá, en sætti mig við hana eins og sakir standa, m.a. vegna hins mikla launaskriðs sem orðið hefur í landinn og fyrirsjáanlegt er, en mundi ekki að öðrum kosti geta fellt mig við svona háan skyldusparnað. Ég vil að það komi skýrt fram.

Ég sé ástæðu til að fjalla sérstaklega um eina till. hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds. Hann leggur til á þskj. 253 að söluskattur verði felldur niður af kjöti og kjötvörum og verðlag á þeim vörum lækkað samkv. því. Þetta eru náttúrlega frómar og fallegar óskir. En nú var sá ljóður á málflutningi þessa hv. þm„ að þótt hann í öðru orðinu reyndi að gera lítið úr framkvæmdarörðugleikum slíkrar lagasetningar, þá viðurkenndi hann erfiðleikana í hinu orðinu, þegar hann talaði um að það væri hægt að fella þennan söluskatt niður með því að auka niðurgreiðslur. Ef sú er hugmynd þessa hv. þm., ef ég hef þá ekki tekið rangt eftir, þá er þessi till. að sjálfsögðu flutt á vitlausum stað og við vitlaust frv., þá ætti þessi till. að koma fram við 3. umr. fjárl. og ræðast undir þeim lið. Þá er einungis stefnumörkun sem felst í þessari till., og má þá búast við því að þessi hv. þm. dragi till. til baka þannig að hún komi ekki til atkv.

Þetta er að sjálfsögðu ekki nýtt mál, að fella niður söluskatt af kjöti og kjötvörum. Það var rætt í hæstv. síðustu ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, og þótt þessi hv. þm. efist að sjálfsögðu um einlægni sjálfstæðismanna í þessu máli, þá er ég í engum vafa um að vitnisburður hans mun verða sá, að sú ríkisstj. ættaði að fella þennan söluskatt niður. En það, sem olli því að það var ekki gert, voru framkvæmdarörðugleikar. Við skulum minnast þess, að sú ríkisstj. jók mjög margvíslegar undanþágur frá söluskatti, tók til margvíslegar vörur sem þar eru undanþegnar, þ. á m. er jafnvel innfluttur kexvarningur, fyrir utan náttúrlega margvíslegar mjólkurvörur, brauðvörur, nýja ávexti o.s.frv. Hins vegar er því ekki að neita, og einkanlega eftir að svo er nú farið að bregða við að á fundum Alþb. er farið að gera sérstakar ályktanir um landbúnaðarmál, þá er að sjálfsögðu ekki undarlegt þó að úr þeim hópi komi till. af þessu tagi, þar sem áskoranir bændasamtaka hafa verið mjög einarðlegar í þessum efnum, og skal ég ekki hafa frekari orð um það að sinni.

Hv. 12. þm. Reykv. er með tvær brtt. á þskj. 239, og þar sem ég er kominn í ræðustól vil ég gera þær nokkuð að umtalsefni.

Það er þá í fyrsta lagi sú brtt. hans, að 3. mgr. 1. gr. falli brott: „Hjá skattþegnum, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal. áður en ákvæðum 2. mgr. er beitt, hækka vergar tekjur skatts“ o.s.frv. Ég er þessum hv. þm. algerlega sammála um það, að grein af þessu tagi er mjög vafasöm í lögum, þar sem talað er um að skattleggja tekjur sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafa verði til. Við vitum ofurvel hvernig á þessu ákvæði stendur. Það er vegna þess að ýmsir, sem hafa mjög mikla einkaneyslu, hafa leikið þann leik að losna við opinber gjöld með því að nýta sér fyrningarreglur og annað því um líkt og þannig komist hjá því að greiða opinber gjöld, þótt einkaneysla þeirra hafi verið veruleg og kannske mjög mikil. Þetta er markmiðið á bak við þessa grein og aðrar slíkar, og er það mál út af fyrir sig, sérstakt mál, hvernig við lífá að snúast. Ég álít að það verði að taka til verulegrar endurskoðunar í sambandi við þessa lagasetningu og margvíslega lagasetningu aðra. Á hinn bóginn er það náttúrlega óþolandi, að menn, sem eru að reyna að halda áfram rekstri sem gengur illa, sem er kannske á mörkum þess að bera sig, og í sumum tilvikum stendur þannig á að slíkir aðilar beinlínis ganga á eignir sínar til þess að reyna að koma rekstrinum á réttan kjöl, slíkir aðilar séu skattlagðir með ákvæðum af þessu tagi. Ég vil þó vekja athygli á því, að samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, verður naumast um það að ræða að fólk þurfi að ganga á eignir sínar vegna þessara ákvæða, þar sem skyldusparnaðarmörkin eru svo há að þau taka ekki til slíkra skattþegna. Almennt séð er ég á móti ákvæðum af þessu tagi, en tel hins vegar að þarna þurfi að búa öðruvísi um hnútana til þess að ná lífmarkmiði sem er á bak við þessa lagagrein.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að ég er ósammála um b-lið þessarar brtt. hv. 12, þm. Reykv., að almennir sparisjóðsvextir verði á skyldusparnaðarbréfum, vegna þess að mér þykir það ofrausn þegar um verðtryggingu er að ræða á þeim bréfum.