19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma hér fram, að ég er hlynntur því sem fram kemur í brtt. á þskj. 235, að flugvallagjald renni til uppbyggingar og endurbóta á íslenskum flugvöllum. Rannar hef ég tjáð mig fylgjandi slíkri breytingu á áður. Ég tel hins vegar að þetta þurfi að verða allmiklu víðtækara en svo, að það nái eingöngu til flugvallagjalds, tel skynsamlegt, að tekjur af flugvöllum og flugi, sem nú renna í ríkissjóð, renni til framkvæmda á íslenskum flugvöllum, og tel, að í þágu flugvallaframkvæmda ætti að setja á fót eins konar flugvallasjóð, svipað og Vegasjóð, og láta renna í þann sjóð ýmsar slíkar tekjur. Ég get hins vegar ekki fylgt þessari brtt. nú af þessari ástæðu sem komið hefur fram hjá mér, að ég tel að skoða eigi þetta mál á breiðara grundvelli. Því vildi ég gera grein fyrir þessu, að þótt ég sé fylgjandi þessari stefnu, þá mun ég greiða atkv, gegn brtt. nú, en vil gjarnan að þetta verði endurskoðað síðar á breiðara grundvelli.

Raunar get ég sagt svipað um söluskatt á kjöti og kjötvörum. Ég hef lengi, eins og ýmsir aðrir þm. hér, verið fylgjandi því að kjötvörur lækki í verði, söluskattur verði felldur niður. Hins vegar höfum við fengið upplýsingar frá sérfróðum embættismönnum um erfiðleika á slíkri breytingu, og það er rétt, sem hér hefur komið fram, m.a. hjá síðasta hv. ræðumanni, að menn hafa ekki treyst sér til að ráðast í þessa breytingu þótt þeir kunni að vera fylgjandi henni. Það var athyglisvert, sem kom fram hjá hv. frsm, fyrir þessum brtt., að gera mætti þetta með frekari niðurgreiðslum. Reyndar hefur þetta heyrst áður. En þá er það rétt, sem síðasti hv. ræðumaður sagði, að þessi breyting á ekki heima hér.

Ég tel að það sé mikið nauðsynjamál að leita allra leiða til þess að lækka verð á innlendri landbúnaðarframleiðslu, þannig að aukning geti orðið á neyslu slíkrar framleiðslu hér á landi. Mjög veigamikið skref í þessa átt væri niðurfelling á söluskatti eða aukin niðurgreiðsla sem því nemur. Ég get hins vegar ekki greitt þessari till. atkv., m.a. af þessum sökum, sem mér fannst koma fram hjá hv. frsm., að framkvæmdin er miklum vandkvæðum bundin og líklega skynsamlegast að leita að öðrum leiðum til að ná þessu sama marki.