19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér meiri háttar ráðstafanir til lagfæringar á efnahagsmálum okkar, eins og almennt er talað um. Ég harma því að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, því þó að þetta frv. nái fram að ganga, eins og till. bera með sér, þá hefur nú komið fram á síðustu dögum, bæði af hendi sjávarútvegs, landbúnaðar og einnig iðnaðar, að mjög mikið skortir á að þessar þrjár höfuðatvinnugreinar landsmanna telji sig geta starfað áfram. Þótt allt rætist, sem sagt er í aths. á bls. 3 um árangur af þessu frv. og löggjöf samkv. því, þá sé ég ekki hvernig atvinnulífið fær að ganga með eðlilegum hætti þegar í upphafi næsta árs. Ég hefði því óskað að hæstv. forsrh., ef hann er ekki önnum kafinn annars staðar, gæti verið hér viðstaddur og gæfi okkur skýringa.r á því, jafnvel þó að þetta frv. hafi verið flutt af hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Nú, þá er spurningin, hvort ég á að bíða hér í nokkrar mínútur eða óákveðinn tíma, ef hæstv. forsrh. er bundinn í Nd.

Þetta frv, er eitt af meginstoðum undir því, að atvinnulíf hafi möguleika til að halda jafnt áfram, eins og skýrt hefur verið af hæstv. fjmrh., og grundvallast á því, að jafnvægi eigi að ríkja í fjármálabúskap þjóðarinnar.

Ég geri ekki ágreining um hugmyndina um 10% skyldusparnað, tel að það sé réttlætanlegt við þau þensluskilyrði sem um er að ræða. Það kom fram hjá frsm., að orðaskipti hafa átt sér stað varðandi aldursmörk. Hann vildi gjarnan færa þau ofar. En ég var algerlega á móti því og tel, ef einhverjir hafa góða afkomu og hafa náð þessum aldursmörkum og meiru, að þá eigi þeir kost á því að spara frjálst, en ekki lögþvingað.

Svo er annað atriði í þessu frv. sem er mikilvægt hvernig leyst verður. Það felst í 1. gr. þar sem segir:

„Hjá skattþegnum, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal, áður en ákvæðum 2. mgr. er beitt, hækka vergar tekjur til skatts um þá upphæð sem tekjur af þessum störfum eru lægri en ætla má að laun þessara aðila miðað við vinnuframlag þeirra hefðu orðið ef þeir hefðu unnið starfið í þágu óskylds aðila.“

Þetta er búið að vera mikið deiluatriði í fjh.— og viðskn. í sambandi við annað frv, sem var lagt fram á sínum tíma, þ.e.a.s. skattalagafrv., en á nú að renna hér í gegn. Hér skiptir mjög miklu máli hvernig lítið verður á aðstæður manna, því að þær eru afar misjafnar. Og ef þessu verður ekki beitt af nokkurri varfærni, þá kann þetta ákvæði að verða mjög erfitt og viðkvæmt í framkvæmd. Mér er fullljóst að þetta getur verið réttlætanlegt, en það þarf, jafnframt því að segja að þetta sé réttlætanlegt, að leggja á það áherslu, að menn verða að fá mörg gögn í sambandi við mat á aðstæðum manna, ef á að beita þessu bókstaflega eins og það stendur í frv.

Miklar umr. urðu í n. um ákvæði 2, mgr., og ég er þakklátur form. n. fyrir það, að hann beitti sér fyrir að dagsetningunni 1. jan. yrði breytt og færð aftur um einn mánuð. Það er skynsamlegt og eðlilegt, því að svo getur staðið á fyrir mönnum að þeir hafi ekki að fullu lokið innborgun á þessum skyldusparnaði og kann að vera lítils háttar eftir, en þá hefðu mikilvæg ákvæði, sem greinin gerir ráð fyrir, fallið burt og þeir ekki notið þeirra kjara sem frv. annars gengur út frá. Ég er því fylgjandi þessu ákvæði, að við breytum, eins og fram kemur á sérstöku þskj., þskj. 256, að í staðinn fyrir 1. jan. 1979 komi 1. febr. 1979. Um þetta verður vonandi ekki ágreiningur í d. og vonandi að þetta fái samþykki og komist inn í lögin.

Síðan er 3. gr. Ég veit ekki hvort menn hafa almennt gert sér grein fyrir því, að svo að gagni megi koma að verðbætur, sem koma á þennan sparnað, hafi það gildi að sleppa við að vera skattlagðar, þá megi ekki vera um visst skuldahlutfall að ræða hjá viðkomandi einstaklingi. Þegar lög eru sett svona skyndilega á menn er auðvitað mjög erfitt fyrir suma, þó að þeir hafi þannig stofnað til skulda, að geta losað sig við þessar skuldir og notið þeirra kjara sem 3. gr. gerir ráð fyrir. En það virðist hafa verið mjög erfitt mál að gera þetta á annan veg en greinin gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. það er vitnað í 21. gr. skattalaga nr. 68 1971, að maður má ekki skulda nein skammtímalán, ef hann á að njóta ávöxtunar og sleppa við skattlagningu. En þá tel ég megintilgang sparnaðarins úr sögunni, því að hér er um tvö ólík atriði að ræða að mínu mati, þ.e.a.s. skattlagningu í þágu ríkisvaldsins, sem er gerð samkv. stjskr., og kvöð til skyldusparnaðar, sem ríkið tekur í sína umsjá og notar um óákveðinn tíma og skilar mönnum aftur með ávöxtun samkv. vísitöluákvæði í þessu frv., en ekki beinni vaxtatölu. Ég vil gera hér mjög skarpan mun á, vegna þess að ég tel að 10% kvöðin sé ekki skattlagning samkv. stjskr., þar sem ríkisvaldið skilar þeim peningum aftur til viðkomandi manns. Ber því að lita á það með öðrum hætti en venjulega skattskyldu. Um þetta mætti deila lengi, og auðheyrt var á þeim fundi, sem ríkisskattsjóri mætti á hjá n., að þetta mál er mjög snúið, ef svo má segja, skattalega séð og ekki hægt að koma því við með stuttum fyrirvara að gera á því breytingar. En hér er mjög mikilvægt atriði er mun koma aftan að mörgum mönnum þegar þeir sætta sig við þennan sparnað, en fá ekki árangur af honum heldur neikvæða niðurstöðu þegar þeir sækja sín bréf eftir þessi ár. Þá verður höfuðstóllinn skattlagður, en aðrir sleppa og fá hreina eignaaukningu. Þetta tel ég auðvitað ekki æskilegt, heldur óréttmætt að öllu leyti.

Það var upplýst um skyldusparnaðarárangur,et svo má segja, samkv. lögum 1975, að með viðmiðun 1000 kr. yrðu borgaðar út í byrjun næsta árs 1840 kr. og þá yrði það skattfrjáls stofn samkv. þessum ákvæðum skattalaga, 21. gr., ef menn hefðu ekki skammtímaskuldir á framtali sínu. Miðað við aðstæður, sem flestir áttu við að búa þá, mun hér ekki vera komið aftan að almenningi. Ég er þó ekki viss um að það sé eins almennt og talið er og margir muni verða fyrir vonbrigðum og verða að borga fullan skatt af þessari ímynduðu eignaaukningu sem þeir hafa fengið, og tel ég það miður.

Þetta vil ég undirstrika hér til þess að benda á að það er ekki bein eignaupptaka, þegar ríkisvaldið er að taka ráðstöfunarfé af mönnum, heldur er laust fjármagn lagt til hliðar með valdboði, og þá á að gera öllum mönnum jafnt undir höfði í þessu tilliti og á ekki að blanda því saman við skattalöggjöf, þar sem skattur er innheimtur í þágu alþjóðar samkv. stjskr.

Um önnur atriði frv. get ég verið sammála þeim sem hér hafa talað, um að hækkun á flugvallagjaldi ætti að renna í þágu flugmála beint. Það leiðir af sjálfu sér að þá má halda því fram, að ríkissjóður sé betur settur með framlög til flugvallamála, en þetta fari ekki beint í eyðsluhít. Það sama ætti einnig að gilda um aukinn skatt af gjaldeyrissölu. Æskilegt hefði verið að hafa það á hreinu, að ríkissjóður fengi hér 1.5% og bankarnir aðeins 0.5% af þessum auknu tekjum. Kannske hefði átt að koma fram sem skilningur nm. í nál., svo að það væri á hreinu, að við litum svo á að þessi aukna skattheimta ætti að renna óskipt til ríkissjóðs. Eins og málið stendur í frv. sé ég ekki að ríkissjóði séu tryggðar óskertar þessar viðbótartekjur, og tel ég það miður.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað tala miklu meira um þetta mál, vegna þess að þótt þetta frv. eigi að leysa nokkuð úr vandræðum ríkissjóðs og eigi að gefa ríkissjóði um 3.7 milljarða, þá er alveg augljóst að forsrh, hefði átt að svara því, áður en þingfrestun verður nú fyrir jólin, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að bregðast við þeim vanda, sem framleiðslan á við að etja til lands og sjávar og íslenskur iðaður í dag. Ef maður raunverulega vildi standa fast á rétti sínum hefði átt að fást hlé á þessum umr. og biða þar til hæstv. forsrh. gæti svarað þessu, vegna þess að þetta frv. sem slíkt leysir þennan vanda engan veginn að mínu mati og minni skoðun — ekki með nokkru móti. Ég vildi einnig vita um það, hvort hæstv. ríkisstj. hugsar sér að nota þinghléið til útgáfu t.d. á brbl. eða ekki, því að það fer ekki milli mála, að vandi sjávarútvegsins er gífurlegur og hefur verið ályktað núna með upplýsingum frá opinberum stofnunum, að það vanti allt að 5 milljörðum kr. til þess að fiskvinnslan í landinu geti haldið áfram, ályktanir landbúnaðarmanna um allt land hníga í sama farveg, að þar vanti stórfé, og iðnaðurinn biður um frestun á EFTA-löggjöfinni. Þetta frv. sem slíkt er því aðeins lítill plástur á þann vanda sem fyrir er hjá hæstv. ríkisstj. Nú eigum við eftir einn vinnudag fyrir jól á Alþ. og við a.m.k. í stjórnarandstöðunni, fáum ekki að vita eitt eða neitt hvað til stendur. Ég vildi þess vegna vekja athygli á því, að hér er um miklu meiri vanda að ræða en þetta frv. felur í sér að leysa.

Hæstv. forsrh. er nú genginn í salinn og vil ég í örstuttu máli undirstrika það, að ég var að óska eftir því, þar sem ég tel að þetta frv. leysi alls ekki aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum, að fá upplýst hvað hæstv. ríkisstj, hugsar til lausnar á þeim vanda sem hagsmunasamtök sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar hafa tilkynnt þjóðinni undanfarið að þessar atvinnugreinar standi frammi fyrir. Sjávarútvegsmenn, þ.e.a.s. eingöngu fiskvinnslan og það bara frystihúsamenn, hafa lýst yfir, að það vanti 4.5–5 milljarða, landbúnaðarmenn hafa gert skarpar ályktanir um sin vandamál og haldið maraþonfundi, sem er afar óvenjulegt, og forsvarsmenn iðnaðarins hafa einnig gert mjög skarpar ályktanir, þannig að ég fullyrði að þetta frv. sem slíkt sé aðeins lítill plástur og ekkert annað á aðsteðjandi vanda. E.t.v. hugsar hæstv. forsrh. sér að gefa yfirlýsingu um þessi mál í Sþ. áður en þinglausnir fara fram. Ef svo er, þá sætti ég mig við það að vera ekki að tefja fund hér í d. En að öðrum kosti tel ég eðlilegt að við fáum að vita, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar í þessum vanda, því að vandinn er svo langtum, langtum meiri en þetta frv. gerir ráð fyrir, að ég fullyrði að það leysi aðeins örlítið af þeim fjárhagsvanda sem efnahagslíf okkar stendur frammi fyrir nú á næstu vikum.