19.12.1977
Efri deild: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki setið fund sjútvn. þar sem fjallað var um þetta mál með miklum skyndingi í dag. Ég tel að nægur tími hefði átt að vera til þess að fjalla um þetta mál. Það er búið að vera lengi á döfinni og æskilegt hefði verið að málið hefði komið í tæka tíð til Ed., þannig að hægt hefði verið að fjalla um það á eðlilegan hátt og leita umsagnar aðila um málið, þ. á m. Landssambands ísl. útvegsmanna, sjómannasamtakanna og Hafrannsóknastofnunar, og við hefðum því fengið m.a. að heyra álit hennar á því, hvernig væri komið möguleikunum á sókn í loðnustofninn með tilliti til þess, að við höfum nýlega samþykkt að veita Færeyingum aðild að loðnustofninum okkar í vetur.

Eins og ég sagði í umr. um þetta mál í dag, þá hefði ég talið æskilegt að kveðið væri beinlínis á um það í lagagr., að skipið ætti — að öðru jöfnu og þegar hægt væri — að landa afla sínum á svæðinu fyrir norðan, í verksmiðjurnar fyrir norðan. Hér er um að ræða ákaflega sérstakt mál, einstakt mál, og ég sé ekki hvers vegna við hefðum átt að hlífast við því að kveða beinlínis á um þetta í lagagr. Það hefur ekki fengist fram, fyrst og fremst að því er virðist vegna tímaskorts. Ekki hefur fengist tími til þess að endurskoða lagafrv., fara í gegnum það og athuga þetta mál. Á það ráð var brugðið í n, sjálfri að kveða á um það álit n., að skipið ætti yfirleitt að landa fyrir norðan. Þetta ákvæði í nál. er allra góðra gjalda vert og er ugglaus vísbending um það, með hvaða fororði n. sem slík mælir með samþykkt frv. fremur en að láta málið niður falla, fremur en að bregða fæti fyrir það, þar sem að því er virðist gefst ekki tími til þess, ráðrúm til þess eða vilji að fá frv. breytt á þann hátt að þetta ákvæði verði beinlínis sett inn í lagagr, Þessi yfirlýsing sjútvn. hefur, eins og að líkum lætur, ekki neitt lagagildi, og ég beini því nú til hæstv. sjútvrh., að hann segi okkur ljósum orðum, áður en málið kemur til atkv., á hvern hátt hann muni láta framkvæma þessi lög á vertíðinni nú í vetur. Ég mun haga atkv. mínu eftir því, hvernig hann svarar þeirri spurningu.