20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um að formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. alþm. Jón Skaftason, hefur nú lýst yfir að þau efnisatriði, sem ég gerði að umtalsefni áðan í ræðu minni varðandi þessa till., eru fullkomlega rétt, enda ekki við öðru að búast af hans hálfu né heldur neinna þeirra sem þekkja gjörla til starfsemi og starfsreglna Norðurlandaráðs. Ég átti alls ekki von á öðru en að ummæli hans yrðu á þá lund sem þau raunverulega voru, en þykir hins vegar vænt um að þau skuli hafa komið skýrt fram.

Hann benti á það, eins og ég hafði gert, að eina leiðin til þess að ná fram efni tillögunnar væri að flytja till. í Norðurlandaráði sjálfu eða milli ríkisstj. um að breyta stofnsamningnum og þar með starfsreglunum. Ég get tekið undir það með honum, að ég fyrir mitt leyti vil gjarnan standa að því og stuðla að því að Íslendingar beiti sér fyrir slíkri tillögugerð, þ.e.a.s. breyt. á stofnsamningnum og þar með starfsreglunum sem auki rétt þjóðarminnihlutanna í hinum einstöku Norðurlandaríkjum, þannig að þau fái fulla aðild að ráðinu. Það er rétta formið, og það en, eins og hann benti á, fáránlegt að tala með lítilsvirðingu um form. Með sama hætti mætti tala með lítilsvirðingu um lög. Það er skammur vegur frá því að tala með lítilsvirðingu um form og tala með lítilsvirðingu um lög. (MK: Það eru sum lög sem eru lítils virði.)

Mér þykir vænt um að það kom fram í ræðu hæstv. utanrrh , að ég er talinn hafa misskilið það sem bann sagði, og að hann í síðari ræðu sinni virtist gera sér skýra grein fyrir því, að það, sem þarf til þess að ná fram auknum rétti þjóðarbrotanna á Norðurlöndum, er að breyta stofnsamningi Norðurlandaráðs og þar með starfsreglum þess. Og hafi ég misskilið hann, þá biðst ég afsökunar á því. En ég tel mig hafa nokkra afsökun fyrir því að hafa misskilið hann, ef það kemur í ljós að svo hafi verið, og sú afsökun er fólgin í því, að hæstv. ráðh. mælti með samþykkt till. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, en hún er um fulla aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði sem ekki samræmist stofnsamningnum eða starfsreglunum. (Gripið fram í.) Nú reynir hv. þm. að segja að þetta felist í till., en þar með er hann að túlka hana allt öðruvísi, eftir að ég flutti mitt mál, en hann gerði í framsögu sinni. Allir hv. þm., sem heyrðu framsöguræðu hans, tóku auðvitað eftir því, að tilgangurinn með tillöguflutningnum hér er að fá flutta till. í Norðurlandaráði um þetta sama efni. Hann sagði meira að segja að ef þessi till. yrði ekki samþ. hér, þá mundi hann sjálfur flytja hana og reyna að fá aðra þm. Norðurlanda til þess að flytja hana. (MK: Auðvitað.) Það fór því ekkert á milli mála — (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal.) Ég held að hæstv. forseti ætti að leggja meiri áherslu á að hér sé gætt venjulegra fundarskapa og venjulegrar framkomu heldur en virðist vera að tíðkast hér í upphafi þessa þings.

Það er alveg ljóst, að tilgangurinn með flutningi þessarar till. er sá, að sams konar till. verði flutt í Norðurlandaráði. Það var erindi mitt í ræðustól áðan að benda á að slíkri till. mundi verða vísað frá í Norðurlandaráði og þess vegna væri hvorki sómi að því fyrir Íslendinga né Grænlendingum gagn að því að slík till. yrði flutt. Ég minnti í því sambandi á að auðvitað er þetta ástæðan fyrir því tvennu, að af samnefndarmönnum hv. flm. í samgmn. tók enginn undir slíka tillögugerð né heldur að nokkur tilmæli hafa borist, eins og ég sagði, frá stjórnvöldum í Grænlandi. Það má vel vera — (Gripið fram í.) Grænlendingar hafa sín eigin stjórnvöld. (MK: Það eru Danir.) Það má vel vera að einhver félagssamtök hafi gert um þetta ályktun, en ég benti á hitt, ég tók alveg skýrt og ljóst til orða, að þau stjórnvöld, sem Grænlendingar hafa, landsstjórnin þar, hafa ekki borið fram slíka ósk, auðvitað af því að hún gerir sér grein fyrir að þetta form er ekki leiðin til þess að auka rétt Grænlendinga né annarra þjóðernisminnihluta á Norðurlöndum.

Það var vegna undirtekta hæstv. utanrrh. undir þessa till. sem ég taldi að hann væri að mæla með því, að Grænlendingar fengju fulla aðild að Norðurlandaráði. En nú kom það fram í síðari ræðu hans, að það var ekki meining hans. Fagna ég því og sé þá ekki í raun og veru að það sé neinn ágreiningur á milli hv. þm. Jóns Skaftasonar, hæstv. utanrrh. og mín um áframhaldandi meðferð málsins, sem yrði önnur en gert er ráð fyrir í þessari till. Fagna ég því að sjálfsögðu að hæstv, utanrrh. er, þegar öllu er á botninn hvolft, í raun og veru sammála okkur Jóni Skaftasyni um það, hvað þurfi til í þessu máli, en ekki sammála því sem hv. fim. þessarar till. hefur lagt til í till. sjálfri.

Ég læt mér auðvitað sem vind um eyru þjóta þau ummæli hv. flm., að það að benda á rétt form, það að benda á lög sé íhaldssemi eða eitthvað í þá átt. Það er ekki annað en sjálfsögð réttlætistilfinning og virðing fyrir lögum og reglum að benda á það, að eftir lögum eigi að fara. Ég efast ekki um að góður hugur er að baki þessari tillögu. Það hvarflar ekki að mér annað en að góðvild í garð Grænlendinga, sem ég hef líka til að bera, liggi að baki þessari till. Það hefur aldrei hvarflað annað að mér. En góðvildinni er valið rangt form. Henni er valið rangt form, með þeim afleiðingum að ekkert gott fyrir Grænlendinga gæti hlotist af flutningi þessarar till., hvorki hér á hinn háa Alþ. né heldur í Norðurlandaráði.

Ég lýk þessum orðum mínum með því að endurtaka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að þessi till. er ekki um sjálfstæði Grænlendinga.

Ef hún væri um það, þá stæði ekki á mér að lýsa stuðningi við hana og leita með öðrum að ráðum til þess að ná þeim tilgangi. Hún er ekki um það. Hún er um fulla aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði. Hún er um mál sem ekki er framkvæmanlegt á grundvelli gildandi samninga og starfsreglna Norðurlandaráðs.