19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt, á l. um rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108 frá 1976. Það felur í sér tvær breytingar á þeim lögum.

Í fyrsta lagi er það um hvar aðalstarfsstöð rannsóknarlögreglunnar skuli vera. Er lagt til í 1. gr, að rannsóknarlögregla ríkisins skuli hafa aðalstarfsstöð í Reykjavík eða nágrenni, í stað þess að í núgildandi lögum er sagt að aðalstarfsstöð eða heimili hennar skuli vera í Reykjavík. Þetta er í rauninni til samræmis við þá útvíkkun á aðalumdæmi rannsóknarlögreglunnar sem gerð var í meðferð þingsins á sínum tíma og hér í þessari hv. d. Í upphaflega frv. var aðalumdæmi deildarinnar í Reykjavík, en síðan var það fært út, en þess þá ekki gætt, að í raun og veru hefði verið eðlilegt að breyta ákvæðinu um hvar aðalstarfsstöð skyldi vera.

Þó að gert sé ráð fyrir að aðalstarfsstöð rannsóknarlögreglunnar sé í Reykjavík eða nágrenni, þá er gert ráð fyrir því, að rannsóknarlögreglan geti að auki haft starfsstöðvar bæði innan og utan þess aðalumdæmis sem hún tekur til. M.a. er gert ráð fyrir því, að hún hafi starfsstöð hér í Reykjavík.

Hin breytingin er í því fólgin, að gert er ráð fyrir að það skuli skipaður vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins og skuli hann vera staðgengill ríkisrannsóknarlögreglustjóra. Þessi breyting er flutt samkvæmt ósk ríkisrannsóknarlögreglustjóra. Það skal tekið fram, að ekki er gert ráð fyrir því, að þessi breyting hafi í för með sér mannafjölgun við embættið.

Það var á sínum tíma nokkuð talað um staðarval fyrir rannsóknarlögregluna og ég gerði þess vegna nokkra grein fyrir því í framsöguræðu minni í Ed. Ég skal aðeins rifja það stuttlega upp hér.

Það var að sjálfsögðu eitt af fyrstu atriðunum, sem komu til athugunar í sambandi við undirbúning að því að setja rannsóknarlögregluna af stað, að finna handa henni húsnæði, þar sem hún bjó við og býr reyndar enn við allsendis ófullnægjandi húsnæði. Það var þá svo, að dómsmrn. kom fyrst auga á húsnæði við Skaftahlið 24 hér í Reykjavík, eign Tryggingar hf., og var gerður af hálfu rn. bráðabirgðasamningur um það húsnæði. Þegar hann kom til skoðunar hjá hagsýslustofnun þótti þessi samningur óhagstæður og féllst hún ekki á hann. Eftir það var leitað að húsnæði hér í Reykjavík a.m.k. á einum 10 stöðum, en tókst ekki að finna það sem talið var henta. Þá var það að hagsýslustofnun benti á að til sölu væri húsnæði við Auðbrekku 61 í Kópavogi. Það húsnæði var skoðað af þessum aðilum og eftir athugun á því féllust þeir á að festa kaup á því húsi, Þetta hús er um þrisvar sinnum stærra en það húsnæði sem rannsóknarlögreglan hefur nú. Það er hús á þremur hæðum. Kaupverðið var ákveðið 115 millj. kr. og það greiðist þannig, að 40 millj. voru greiddar við undirskrift samningsins, 30 millj. eiga að greiðast 25. jan. 1978 og með skuldabréfum eiga að greiðast með jöfnum afborgunum á næstu 5 árum 45 millj, Ársvextir af þeirri fjárhæð eru 14%.

Það voru fengnir arkitektar til að hanna þetta húsnæði. Þeir hafa gengið frá teikningum, og þeir arkitektar, sem það hafa haft með höndum, eru Geirharður Þorsteinsson og Hróbjartur Hróbjartsson. Það var gerð kostnaðaráætlun á sínum tíma um það, hvað mundi kosta innréttingar í húsinu, og sú áætlun var upp á 90 millj. kr. En nú má gera ráð fyrir að kostnaður verði nokkru meiri.

Ég tel að eftir atvikum megi segja að það hafi verði gerð góð kaup á þessu húsnæði. Og ég hef fallist á og sætt mig við rök hagsýslustofnunar um það, að þessi leið, sem farin var, sé mun hagstæðari en sú sem upphaflega var gert ráð fyrir, að leigja hús við Skaftahlíð 24. Þarna er húsið keypt og verður góð eign. Þó að til þess sé hugsað að byggja hér dómhús í Reykjavík einhvern tíma í framtíðinni og vonandi fyrr en seinna, og ég hef samkvæmt þál., sem þar um var samþ, á síðasta Alþ., skipað n. til að kanna það mál, og þó að gert sé ráð fyrir að í því væntanlega dómhúsi fái rannsóknarlögregla ríkisins inni, þá geri ég lífmiður ráð fyrir að það liði það langur tími þangað til það verður komið í framkvæmd, að það verði að ætta rannsóknarlögreglunni að búa við þau starfsskilyrði, sem henni eru búin þarna í Kópavogskaupstað, um nokkur ókomin ár og hafa þar sína aðalstarfsstöð.

Það má færa fram rök fyrir því, að þetta sé ekki einskorðað við Reykjavík, eins og gert var upphaflega í lögunum og frv. sem þá var flutt. Þá var gert ráð fyrir því, að aðalumdæmi rannsóknarlögreglunnar væri í Reykjavík, en rannsóknarlögreglu ríkisins er ætlað að ná til landsins alls. Rannsóknarlögreglunni er enn fremur ætlað að rannsaka meiri háttar afbrot, þannig að fjarlægð á milli aðseturs rannsóknarlögreglu og brotastaðar ætti að skipta nokkru minna máli en ella. Þetta hús að Auðbrekku 61 er staðsett eins nálægt miðju þess svæðis, sem rannsóknarlögregla ríkisins tekur beint til, eins og í raun og veru er hægt að hugsa sér.

Enn fremur vil ég undirstrika, að það er gert ráð fyrir því, að eftir sem áður hafi rannsóknarlögreglan aðstöðu í lögreglustöðinni hér í Reykjavík og þar verði hægt að kveðja menn til yfirheyrslu. Ég hygg að þær raddir, sem heyrðust á sínum tíma og gagnrýndu nokkuð þetta staðarval, séu þagnaðar, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að eyða lengri tíma í að ræða um það efni eða fara þar um fleiri orðum.

Þetta frv. var lagt fram nokkuð snemma þingtímans, er mér óhætt að segja, og var þá gert ráð fyrir því að sjálfsögðu, að það yrði afgreitt fyrir áramót. En það hefur haft lengri viðdvöl í hv. Ed. en gert var ráð fyrir og reikna mátti með, þar sem hér er um einfalt mál að ræða.

Það er stuttur tími nú til stefnu, og ég hef ekki aðdáun á þeim starfsháttum að frv. sé sett hér í gegn án þess að þm. hafi nokkurt færi á því að athuga þau. Ég hef ekki lagt þá starfshætti í vana minn. Ég legg þess vegna það á vald hv. n., sem fær frv. til meðferðar, hvort hún treystir sér til að afgreiða það á þessum stutta tíma, þannig að þetta geti orðið að lögum fyrir áramót. Ég er henni þakklátur ef hún telur sér það fært, ef ekki, þá verður við það að sitja. Ég tel að hvort sem fáist samþykkt á þessari ráðstöfun í fjárlagaákvæði og verði þess vegna hægt að vinna að öllum undirbúningi í húsinu eftir sem áður, jafnvel þó að svo færi að staðfesting þessara lagabreytinga drægist fram yfir áramót.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.