19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Efnisatriði þessa frv. eru ákaflega ljós og einföld. Í fyrsta lagi fjallar það um, eins og fram kemur í 1. gr., að sú breyting verði gerð, að heimilt sé að setja rannsóknarlögreglu ríkisins annars staðar niður en endilega innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, en þó innan þess svæðis sem við, sem teljumst vera þingmenn landsbyggðarinnar almennt, köllum í huga okkar Stór-Reykjavíkursvæðið. Hitt efnisatriði frv. er það, að skipaður verði varamaður rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, sem geti gegnt embætti rannsóknarlögreglustjóra eða starfi hans í málum sem af einhverjum ástæðum þykir ekki við hæfi að rannsóknarlögreglustjóri ríkisins fari með. Mér finnst þessi tvö efnisatriði frv. vera það ljós og skýr, að það þurfi ekki að taka mjög langan tíma að átta sig á þeim, og ég vona að hæstv. dómsmrh. svipti mig ekki algjörlega öllum áhuga mínum á dómsmálum þó að ég lýsi því yfir, að ég sé reiðubúinn til að afgreiða það á stundinni. Ég tel að hér sé um mjög ljós og skýr efnisatriði að ræða og alls ekki það flókin að það þurfi langan tíma til að átta sig á þeim.

Ég fæ t.d. ekki skilið og fékk það ekki heldur þegar þessi mál voru til umr. í undirnefnd fjvn. í sumar, hvaða nauðsyn bæri til þess að rannsóknarlögregla ríkisins yrði endilega að vera staðsett innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, en alls ekki í miðbæ Kópavogs. Væri t.d. betra að hafa aðalstöðvar rannsóknarlögreglu ríkisins hér á Ártúnshöfða, þar sem Bifreiðaeftirlitið er? Ég tel að það sé mun greiðari leið fyrir þá, sem þurfa að eiga viðskipti við rannsóknarlögregluna, að sækja þá þjónustu í miðbæ Kópavogs heldur en t.d. á Ártúnshöfða. Ég tel að það geti jafnvel verið greiðari leið til þeirrar stöðvar, þar sem rannsóknarlögreglunni er ætlað að starfa í Kópavogi, heldur en að því húsi þar sem á að vera hið nýja aðsetur menntmrn., Víðishúsinu. Ég tel að það geti a.m.k. verið auðveldara að komast til rannsóknarlögreglunnar við Auðbrekku heldur en í framtíðarheimkynni hæstv. menntmrh. Mér finnst eiginlega furðulegt ef það á að taka sérstaklega langan tíma að kanna, hvort það sé óhætt fyrir réttarfarið í landinu að rannsóknarlögregla ríkisins verði til húsa í Kópavogi, í næsta nágrenni við Reykjavík. Halda menn að með því sé verið að taka einhverja óskaplega áhættu sem gerir það að verkum að það þurfi að kanna sérstaklega slíka breytingu og áhrif hennar? Hitt er svo allt annað mál, það skal ég fyllilega fallast á, hvort sú ákvörðun að kaupa þetta tiltekna hús með þeim tilteknu kjörum, sem það er keypt á, er rétt eða röng. Það kemur ekkert því máli við, hvort það sé rétt að gera þá breytingu að rannsóknarlögregla ríkisins geti haft aðsetur annars staðar en endilega innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur.

Ég skal fallast á það með hv. þm. sem talaði hér áðan, hv. 11. þm. Reykv., að það er ýmislegt í sambandi við húsakaupamál ríkisins, sem mætti athuga betur og þá ekki bara kaupin á húsnæðinu fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins, heldur ýmislegt annað. Ég vil í því sambandi aðeins taka það fram, að þegar þessi mál voru rædd í sumar hjá fjvn., þá lágu fyrir meðmæli fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar. (Gripið fram í: Það er yfirleitt skárra að kaupa en leigja.) Það er yfirleitt skárra að kaupa en leigja, vissulega er það rétt. En það getur verið þannig ástatt í þjóðfélaginu, að það sé ekki rétt að verja mjög miklum fjármunum af sameiginlegu fé landsmanna til að kaupa fasteignir. En látum það vera. Það, sem ég vildi að kæmi fram, var það, að þegar þessi húsakaupamál voru rædd í fjvn. í sumar, þá lágu fyrir meðmæli fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar með þeim kaupum. Þessi stofnun, sem á að vera fjvn. og fjárveitingavaldinu til ráðuneytis um slík mál, mælti með þessu. Hins vegar vil ég líka taka það fram, að ekki hefur verið hægt að fá sams konar umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar um öll þau húsakaup sem rædd hafa verið á vegum fjvn. á þessu ári. Getur þó vel verið að það sé ástæða til að athuga þessa húsakaupasamninga eins og ýmsa aðra. En undir það get ég tekið með hv. 11. þm. Reykv., að e.t.v. væri rétt að sú n., sem fer með þessi mál. þ.e.a.s. fjvn., ætti að taka upp önnur vinnubrögð í sambandi við húsakaup og hún ætti að fá að fylgjast með strax frá upphafi þegar ákveðið er að leita eftir kaupum. Yfirleitt er ekki þannig haldið á málum, heldur koma þessi mál ekki á borð fjvn. fyrr en raunverulega er búið að leita eftir kaupum og liggur fyrir eitthvað ákveðið svar með einhverjum ákveðnum kjörum. Þá er það val og þau kjör kynnt fjvn. og síðan leitar hún umsagnar fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar um það, hvort þessi breyting er fýsileg eða ekki. Að fenginni þeirri umsögn tekur síðan fjvn. afstöðu sína og væntanlega Alþ. að sjálfsögðu einnig, því ekki verður slíkum kaupum ráðið til lykta nema með samþykki þess.

Þetta er það sem ég hef að segja um i. gr. Ég tel alveg fráleitt að það þurfi langan tíma til að athuga það meginmál sem þar kemur fram, að rannsóknarlögregla ríkisins geti haft aðalstarfsstöð annars staðar en endilega innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, þegar fram er tekið að sú aðalstarfsstöð skuli vera í nágrenni Reykjavíkur. Ég er fús til að fallast á það án sérstakrar langrar athugunar eða rannsóknar.

Mér finnst hitt efnisatriðið jafneðlilegt, sú breyting sem fólgin er í 2. gr. og 3. gr., eins og lýst var áðan. Ég tók það fram þegar frv. um breyt. á lögum um rannsóknarlögreglu ríkisins var samþ. að það mætti búast við því, að reynslan leiddi í ljós mjög fljótlega að ýmsar minni háttar breytingar kynni að þurfa að gera á þeim lögum. Það voru ýmis minni háttar atriði sem ég sjálfur taldi að breyta þyrfti, en taldi ekki ástæðu til að flytja brtt. um þegar frv. var afgreitt, einfaldlega vegna þess að ég taldi að það mundi koma í ljós í framkvæmdinni, hvort breytingar þyrfti að gera á slíkum minni háttar framkvæmdaatriðum. Hér er um að ræða eina slíka breytingu, minni háttar breytingu á framkvæmdaratriði, sem gerð er vegna tilmæla og í samráði við rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Ég tel þá breytingu svo eðlilega og raunar sjálfsagða, að það sé engin þörf á að taka langan tíma hér í þinginu til könnunar á slíkri breytingu og áhrifum hennar. Sem sé ég er ekkert feiminn við að lýsa því yfir, að sem allshn.- maður er ég reiðubúinn til að standa að afgreiðslu þessa frv. nú í dag.