19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Það voru vinsamlegar kveðjur sem ég fékk frá síðasta ræðumanni, Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það, að þær fullyrðingar, sem beinast að mér í sambandi við meðferð á þessum málum, eru allar staðlausir stafir og eiga engan rétt á sér, ekki hinn minnsta. Menn verða að muna eftir því, að þegar hér er verið að afgreiða mál og kynna sér mál, þá er það meira, sem skiptir þar sköpum, en hvaða skoðanir einstakir nm. hafa á málunum, heldur verða þeir líka að taka tillit til alls kyns sjónarmiða þeirra annarra sem vit hafa á. Í sambandi við meðferðina á frv, til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins er það ómótmælanleg staðreynd, að ýmsir þeir, sem lengst hafa starfað að lögreglumálum bæði hér í Reykjavík og annars staðar, höfðu sínar skoðanir á þessu máli. Þeir áttu fullan rétt á því, að þær skoðanir væru a.m.k. athugaðar, og að svo miklu leyti sem þetta mál hefur dregist í meðförum þingsins og nefndarinnar á sínum tíma, þá er það af þessum orsökum. Að ég hafi persónulega verið að þvælast fyrir þessu máli er algjörlega rakalaust, og ég leyfi mér að fullyrða að það er til skammar fyrir hv, þm. að láta þetta út úr sér hér á hinu háa Alþ.

Ég held að hæstv. ráðh. ætti að geta borið vitni um það, að ég hef verið fullur áhuga á að þetta mál næði fram, og hef gert mitt til þess, bæði í mínum þingflokki og í n., að svo mætti verða, og þá er ég að tala um lögin um rannsóknarlögreglu ríkisins.

Hér hafa einstakir nm, lýst því yfir, að þeir séu tilbúnir að afgreiða þetta mál á stundinni, eins og einn þeirra tók til orða, og ég held að það megi skilja það svo, að málið þurfi helst ekki að fara til n. eftir þessar yfirlýsingar, menn eru svo ákafir í að afgreiða málið. Ég vil nú biðjast afsökunar á því, að ég hef aðra skoðun. Ég held að n. sé til þess skipuð og hafi það hlutverk að fá mál til meðferðar og athuga þau og það sé engan veginn til framgangs neinum málum að þau séu afgreidd hér algjörlega án athugunar.

Ég verð líka að endurtaka það, að þó að menn séu svona sammála um að þessar breytingar eigi fullan rétt á sér, þá vil ég endurtaka það, að ég er ekki sömu skoðunar. Það getur vel verið að ég fallist á að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Ég hef hins vegar verið að benda á að það er ekki til þess að auka veg Alþ., að nánast daginn eftir að við erum búin að samþ. lög, sé verið að framkvæma þau á allt annan hátt en lagaákvæðið segir til um. Það er kjarni málsins, það er kjarni þeirra athugasemda sem ég set hér fram. Við skulum ekki vera neitt að leyna því, að það var ágreiningur um þetta efni, hvernig lögin ættu að vera orðuð og hvað í þeim ætti að vera. Þó að hv. þm. Páll Pétursson vilji gera lítið úr því, að breytingar hafi verið gerðar á frv., þá var það engu að siður gert, og þó að lítið færi fyrir þeim orðum, þá byggðust þær breytingar, sem gerðar voru, á sterkum rökum og skipta auðvitað sköpum við meðferð þessa máls þegar til lengdar lætur. (Gripið fram í: Þetta er afleiðing af þeim breytingum.) Ein af þeim ákvörðunum, sem n. og þingið tók á sínum tíma í fyrra, var að aðsetur rannsóknarlögreglunnar skyldi vera í Reykjavík, og það var engin tilviljun að þetta ákvæði var eins og lögin sýna fram á. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum með það, að rn. skyldi hlaupa til strax og búið er að afgreiða lögin og festa kaup á húsnæði í allt öðru byggðarlagi.

Menn eru að tala hér um að þetta húsnæði liggi vel við, af því að það sé í nafla höfuðstaðarsvæðisins, og ég ætti manna best að gera mér ljóst að réttar staðsetningar skipti miklu máli. Sannleikurinn er sá, að það er ekki alltaf rétta staðsetningin að vera á miðjum vellinum, og menn verða auðvitað að staðsetja sig á þessum vettvangi eins og annars staðar þar sem þeir standa best að vígi hverju sinni. Við skulum hafa það á hreinu, að óánægjan út af því, að verið sé að festa kaup á húsnæði í Kópavogi á tilteknum stað, er einmitt vegna þess að það er óaðgengilegur staður. Það er lítið um bílastæði, almenningi er ekki ljóst hvar þetta er eða hvernig eigi að komast þangað og það veldur margvíslegum vandræðum. Það er ekkert leyndarmál. Og ég leyfi mér sem sagt að efast um að þetta sé allra besti staðurinn sem rannsóknarlögreglan hefði getað verið sett niður á. Látum það nú vera. Hins vegar er fjarstæða að halda því fram, að einmitt þessi húsakaup og breyting á lagaákvæðinu séu tveir aðskildir hlutir. Það leiðir hvort af öðru, það vita allir sem til þekkja.

Ég vil af tilefni þessarar umr. taka fram, að það er alls ekki ætlun mín að þvælast fyrir þessu máli. Hins vegar er ljóst að búið er að auglýsa hlé á þingstörfum núna á miðvikudaginn. Á morgun er annasamur dagur vegna afgreiðslu á fjárlögum, og mér er ekki unnt að sjá hvernig n. á að geta afgreitt málið með því að fá til yfirheyrslu eða til upplýsinga starfsmenn rannsóknarlögreglunnar og þá væntanlega rn. líka, ganga á vettvang og gera það allt saman nú frá mánudegi síðdegis og fram á kvöld á morgun, og svo á að auki að afgreiða málið hér í gegnum þrjár umr. Þetta er auðvitað algjörlega vonlaust, og ég er alveg hissa á mönnum að tala svona.

Ég vil hins vegar benda mönnum á til hugarhægðar, að á morgun verða væntanlega afgreidd fjárlög hér frá þinginu, og í fjárlagafrv. er heimildarákvæði þar sem þingið annaðhvort getur samþ. eða synjað að rn. fái heimild til að festa kaup á þessu húsnæði, þannig að með afgreiðslu á lífákvæði og með samþykkt á því er rn. búið að fá umboð til þess að halda áfram framkvæmdum og breytingum á því húsnæði sem hér er raunverulega verið að fá samþykkt um.