19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég bjóst alls ekki við svona miklum umr. um þetta mál þegar ég sá frv. þetta á borðinu, og úr því að nm. allshn. eru komnir hér í röð til að vitna tel ég ekki rétt að láta mig vanta í þann hóp.

Ég er satt að segja ekkert hissa á því, þó að óskað sé eftir þeim breytingum sem verið er að fara fram á nú. Ég vil geta þess vegna ummæla formanns n., að það sé óvirðing við Alþ. eða jafnvel allshn. að fara að athuga húsnæði annars staðar en í Reykjavík skömmu eftir að lögin voru samþykkt, að um þetta atriði, staðsetningu embættisins, var eiginlega ekkert rætt þegar frv. var til meðferðar. Við ræddum starfssvæðið, og gerðum breytingar á því og víkkuðum það svæði mikið. En ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að okkur hafi hreinlega skort hugarflug til að íhuga breytingu á því ákvæði frv, að embættið skyldi vera í Reykjavík. Aðra möguleika ræddum við alls ekki. Ég tel það mjög eðlilega afleiðingu af þeirri breytingu, sem við gerðum á frv. um rannsóknarlögreglu á sinum tíma, að þessi breyting komi fram.

Ég hef ekki enn heyrt fullnægjandi rök hjá formanni n. um að þetta embætti skuli hafa aðsetur í Reykjavík. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að það sé ekkert sérstakt hagsmunamál fyrir Reykvíkinga að hafa embætti rannsóknarlögreglunnar í höfuðborginni. (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt annað en þetta. (Gripið fram í.) Ég er alveg fyllilega sammála því, að n. eigi að fá upplýsingar ef þeirra er krafist, en ég hef ekki heyrt að þeim þætti þetta neitt óhentugra en sitja einhvers staðar í óhentugu húsnæði í Reykjavík.

Ég held að þetta sé ekki svo mikið stórmál að það þurfi að lýsa yfir strax við 1. umr.n. geti ekki afgreitt það frá sér fyrir jól, og það mun ekki standa á mér að gera það ef formaður vill kalla saman fund.