19.12.1977
Neðri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Frv. um verðjöfnunargjald af raforku hefði í sjálfu sér gefið tilefni til þess að ræða raforkumálin í heild, enda ekki vanþörf á, því að á engu sviði ríkisbúskaparins hefur verið stjórnað jafnherfilega undanfarin ár. En þar sem nú eru miklar annir og jól fram undan, þá læt ég þá umr. bíða betri tíma.

Að því er verðjöfnunargjaldið varðar, þá eru þau lög, sem nú eru í gildi, undirbúin af fyrrv. ríkisstj. eftir allítarlega rannsókn og síðan flutt frv. Það var flutt á þinginu 1974 þegar þáv. stjórnarandstaða, Sjálfstfl. og Alþfl., lýsti yfir því, að hún mundi ekkert mál samþ. sem ríkisstj. flytti, hvort sem hún væri með því eða á móti. Ég flutti málið aftur á aukaþinginu 1974, vegna þess að ég taldi mjög brýnt að ráða fram úr þeim mikla fjárhagsvanda sem þarna var um að ræða. En það var ekki fyrr en stjórnarskipti höfðu orðið þá um haustið að nýja ríkisstj. greip allt í einu þetta frv., sem hún hafði ekki viljað samþ., og gerði það að sínu.

Verðjöfnun á raforku hefur þann tilgang, að tryggja sama heildsöluverð á raforku um land allt. Það er skref í þá áttina. Því marki verður að sjálfsögðu ekki náð fyrr en búið er að tengja saman allt orkuveitukerfið, og það hefði verið búið að gera það núna ef stefnu fyrrv. ríkisstj. hefði verið fylgt. En þeirri stefnu hefur því miður ekki verið fylgt og nú á að fara að skipta þessu verðjöfnunargjaldi á milli landshluta. Þar er um óvinnandi verk að ræða að mínu mati. Mér er ljóst að vandi Vestfirðinga er ákaflega mikill, einmitt fyrst og fremst vegna þess, að ekki er búið að leggja stofnlínu þangað, og því miður mun líða alllangur tími þangað til þeir fá slíka stofnlínu. Mér skilst að á fjárlagafrv. eða á fjárlögum næsta ár sé gert ráð fyrir því, að hægt sé að leggja stofnlínu vestur í Dali, það er allt og sumt.

En að því er varðar skiptingu á verðjöfnunargjaldi, þá hefði þurft að fjalla um það í heild. Það er ekki hægt að taka Vestfirði þar út úr með nokkru móti, þannig að umr. um það er algjört fálm í myrkri, og ég mun láta stjórnarflokkunum eftir að kljást við þann draug sem þeir hafa sjálfir vakið upp. Ég mun sitja hjá að því er varðar þann þátt frv., en er, eins og ég sagði áðan, samþykkur verðjöfnunargjaldinu.