19.12.1977
Neðri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því, sem hæstv. iðnrh, segir taka fram, að ég get í rauninni ekkert um það sagt, hvaða upplýsingar hafi verið veittar um þetta mál í þeirri n. sem ég á ekki sæti í og aðrir þm. hér margir eiga ekki sæti í. Ég segi aðeins það, að þessar upplýsingar hafa ekki komið hér fram og þær ættu að koma fram. Hafi iðnn. fengið þessar upplýsingar, þá tel ég að hún liggi á upplýsingum sem henni ber skylda til að láta koma fram í þinginu.

En eins og ég sagði áðan, þá er þetta dæmi, sem ég nefndi, kannske ekki neitt verra en önnur dæmi, en þetta er ekki sæmilegt. Ég er ekki að bera það, hvorki á hæstv. ráðh. né aðra, að þeir haldi hjá sér upplýsingum, heldur bendi ég fyrst og fremst á hitt, að þessar upplýsingar um aðalatriði málsins hefðu í rauninni átt að fylgja málinu í grg., það hefði verið eðlilegt, eða þá að þær hefðu komið greinilegar fram settar í sambandi við umr. í þinginu eða þá í nál. frá þeirri n. sem fjallaði um málið. Það er í rauninni ekki hægt að bjóða alþm. að taka afstöðu til mála þegar svona er að þeim staðið.