19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég kveða mér hljóðs til þess að mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 248, en brtt. sú, sem þar er greint frá, er við 3. gr. þess frv. sem hér er á dagskrá, að við 1. mgr. þeirrar gr, bætist: „Ef sérstakar fjárhagsástæður einstakra lífeyrissjóða krefjast, getur fjmrh. lækkað framangreint hlutfall verðbréfakaupa af ráðstöfunarfé.“

Ég skal einskorða mig við að ræða 3. gr. þessa frv. til laga um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978, en vísa að öðru leyti til framsöguræðu hæstv. fjmrh. og til framsöguræðu talsmanns meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Austurl., hér áðan.

3. gr. umræddra laga þjónar þeim tilgangi að tryggja eðlilega ávöxtun lífeyrissjóðanna almennt. Það þykir ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til lífeyrissjóðanna í landinu að þeir verðtryggi 40% af ráðstöfunarfé sínu. Þessi krafa er gerð í þeim tilgangi að lífeyrissjóðirnir séu betur færir en ella að ná tilgangi með starfsemi sinni. En við vitum öll, að tilgangurinn með starfsemi lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst að tryggja meðlimum lífeyri þegar starfsferli er lokið hvort sem það er vegna aldurs eða örorku. Og reynslan sýnir okkur að lífeyrissjóðirnir sinna því hlutverki ekki með óbreyttri ávöxtun fjármagns síns. Hins vegar er tilgangur lífeyrissjóðanna einnig sá að styðja félagsmenn sína til þess að byggja íbúðir, byggja sér þak yfir höfuðið, og einnig hvað þann þátt starfsemi sjóðanna snertir er ávöxtun þeirra mjög mikilvæg. Verðtrygging hluta lífeyrissjóðanna gerir það að verkum, að þeir verða þess betur umkomnir en ella að sinna einnig þessu hlutverki. Þá tel ég það vera eðlilegan þátt í starfsemi lífeyrissjóðanna að fjármagn þeirra sé ávaxtað með þeim hætti, að það tryggt atvinnuöryggi sjóðfélaganna hefur en ella, og því er eðlilegt að fjármagni þeirra sé engu síður veitt til atvinnuvegasjóða, til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, en til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ég tel að það sé eðlilegt að gera þá kröfu til lífeyrissjóðanna af hálfu hins opinbera, að ávöxtun þeirra sé með þessum hætti sem í greininni segir, vegna þess að ella varpa lífeyrissjóðirnir áhyggjum sínum og vanda sjóðfélaga sinna á ríkissjóð. Það kemur í hans hlut að sjá svo um, að menn líði ekki skort þegar starfsferli er lokið eða heilsan bilar, og það er einmitt nú í athugun, eins og kunnugt er, og á stefnuskrá núv. ríkisstj. að jafna kjör landsmanna hvað snertir verðtryggðan lífeyri.

Ákvæði 3. gr. er spor í þá átt að skapa grundvöll til lausnar því vandamáli, að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum. Sú mismunun, sem á sér stað hvað snertir lífeyrisgreiðslur, getur ekki gengið öllu lengur. Við erum hér þessa dagana að fjalla um afgreiðslu fjárlaga, og þar er ekki smáfúlga sem greidd er úr ríkissjóði til þess að lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins geti staðið við verðtryggingu lífeyrisins, Með því skilyrði, sem 3. gr. setur um ávöxtun lífeyrissjóðanna, er ástæða til að ætta að þessi kvöð, sem hvílir á ríkissjóði, geti smátt og smátt lækkað, en með sama hætti geti lífeyrissjóður opinberra starfsmanna svo og aðrir lífeyrissjóðir betur verið í stakk búnir til að sinna þessu höfuðverkefni lífeyrissjóðanna í landinu.

Í 2. mgr. 3. gr. er lagt á vald ríkisvaldsins, hvernig andvirði þeirra bréfa skuli skipt á milli atvinnuvegasjóðanna og Byggingarsjóðs sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Þetta er nauðsynlegt ákvæði ef lánsfjáráætlun á ekki að vera nafnið tómt. Ráðstöfun fjármagnsins, sem fæst við kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum, verður að vera í samræmi við lánsfjáráætlun. Samkvæmt þeirri lánsfjáráætlun, sem lögð hefur verið fram, er gert ráð fyrir um það bil sömu magnbreytingum lánveitinga af hálfu Byggingarsjóðs ríkisins og Framkvæmdasjóðs Íslands. Lánveitingar í heild af hálfu þessara aðila aukast um u.þ.b. 30% á milli ára miðað við fyrirætlanir í lánsfjáráætlunum fyrir hvort árið um sig. Þetta hlutfall kann að breytast nokkuð, ef miðað er við raunverulegar lánveitingar yfirstandandi árs, vegna þess að lánveitingar á þessu ári hafa að einhverju leyti fylgt nákvæmlega því sem ráð var fyrir gert í lánsfjáráætlun ársins.

Ég held að við getum verið sammála um það hér á hv. Alþ., að það sé eðlileg stefna að útlán til atvinnuvegasjóðanna annars vegar og íbúðabygginga hins vegar fylgist nokkuð að. Alla vega held ég að þær raddir komi fremur fram hér á hv. Alþ., að réttara væri að auka frekar útlánin til atvinnuveganna heldur en til íbúðarbygginga, þótt við séum öll sammála um nauðsyn íbúðarbygginga. Í þröngri stöðu ríður fremur á að tryggja atvinnuöryggið heldur en jafnvel auka íbúðarbyggingar. Og nú er því ekki þannig háttað, að gert sé ráð fyrir magnminnkun í fjárfestingu til íbúðarbygginga, heldur er samkv. þjóðhagsspám gert ráð fyrir meiri framkvæmdum við byggingu íbúðarhúsa heldur en á yfirstandandi ári. Mig minnir að gert sé ráð fyrir því, að fjárfesting í íbúðarbyggingum aukist um 6%, en fjárfesting atvinnuveganna minnki um 2-3%. Ég held þess vegna að það sé alveg ljóst og ætti ekki að vera deiluefni hér á Alþ., að nauðsynlegt sé að leiða fjármagnið a.m.k. að því marki, sem lánsfjáráætlunin segir til um, í þá farvegi sem hún gerir ráð fyrir. Þess vegna eru nauðsynleg ákvæði 2. mgr. 3. gr., sem veita ríkisvaldinu heimild til að ráðstafa andvirði þeirra bréfa, er lífeyrissjóðirnir kaupa, með þeim hætti sem í lánsfjáráætluninni greinir.

Hér hefur verið nefnt að lífeyrissjóðirnir séu ekki þess umkomnir að ávaxta 40% af ráðstöfunarfé sínu með kaupum á verðtryggðum skuldabréfum ríkisins, Framkvæmdasjóðs, Byggingarsjóðs eða annarra viðurkenndra stofnlána- og fjárfestingarlánasjóða. Ég hef því til þess að koma til móts við þá gagnrýni og í samráði við ríkisstj. og meiri hl. fjh.- og viðskn. leyft mér að bera fram þá brtt., sem greinir frá á þskj. 248 og ég hef þegar lesið upp og útbýtt hefur verið.

Það kann að vera að á fyrsta ári eða fyrst um sinn eftir að slík breyting er gerð sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 3. gr. um skyldu lífeyrissjóðanna til að ávaxta fjármagn sitt, 40% af ráðstöfunarfé sínu, með verðtryggðum hætti, að þá sé einstaka sjóðum erfitt að fullnægja þeirri skyldu. Þess vegna er gert ráð fyrir að fjmrh. geti tekið tillit til sérstakra fjárhagsástæðna einstakra lífeyrissjóða og lækkað þetta hlutfall. Hins vegar vil ég leggja áherslu á það, að verðtryggingin gerir einmitt þessum sjóðum auðveldara þegar fram í sækir hvort tveggja að verðtryggja lífeyri félaga sinna og að aðstoða þá, til íbúðarbygginga, þannig að þegar til lengri tíma er lítið er hér um stórkostlegt hagsmunamál lífeyrissjóða og lífeyrissjóðsfélaga að ræða.

Hv. 2. þm. Austurl. gat þess, að undanfarið hefðu bankarnir í landinu lagt fram 10% af sparifjáraukningu sinni til fjármögnunar Framkvæmdasjóðs, og það er alveg rétt. Nú er ekki gert ráð fyrir að binding á sparifjáraukningunni verði meiri en 5% á næsta ári, og ástæðan er sú, að peningakerfi í landinu, bankarnir hafa átt erfitt með að fjármagna afurðalánin, en í þeim tilgangi er 25% innlánsbinding nú í gildi og nægir hvergi nærri til þess að fjármagna afurðalánin til atvinnuveganna. Til þess að gera bönkum landsins auðveldara að hlaupa þarna í skarðið og standa undir viðbótarlánum vegna rekstrarlána atvinnuveganna eru fjárráð þeirra rýmkuð með þessum hætti. Ég held einnig að við hér á Alþ. getum verið sammála um að eins og á stendur sé rétt að draga úr fjárfestingu almennt í landinu, en tryggja umfram allt rekstur atvinnuveganna og að rekstrarlánin verði eins og á stendur að ganga fyrir fjárfestingarlánum.

Það hefur borið á góma hér á Alþ., að einn verðbólguvaldurinn í þjóðfélagi okkar sé of mikil fjárfesting. Lánsfjárætlun ríkisstj. gerir einmitt ráð fyrir því, að hlutfall fjárfestingar af þjóðarframleiðslu minnki og um leið að sparifjármyndunin sé örvuð, helst þannig, að innlend sparifjármyndun standi undir þeirri fjárfestingu sem fram fer í þjóðfélaginu. Heildarmarkmiðið, sem að er stefnt, er einmitt að erlendar lántökur verði ekki hærri en afborganir erlendra lána og bætt gjaldeyrisstaða kann að segja fyrir um. Hér er um töluvert mikið átak að ræða, sem aðrir ræðumenn af hálfu stjórnarsinna hafa skýrt í einstökum atriðum og ég skal ekki tíunda. En í þessu felst að við tökum mun minni erlendar skuldir í krónutölu en við gerðum á yfirstandandi ári og ætlum okkur með þessum hætti að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir með innlendu sparifé. Þetta eru höfuðatriðin í stefnu sem ég tel í raun og veru að sé ekki eingöngu eða ætti ekki að vera eingöngu stefna ríkisstj., heldur okkar allra alþm.