19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Þetta er sem sagt ráðstöfunarfé atvinnuvegasjóðanna. En sagan er þó ekki öll sögð með því, vegna þess að samkv. því sem segir neðanmáls á bls. 28, þar sem talin er upp fjármögnun sjóðanna, þá segir hér niður vísað:

„Auk eigin fjármögnunar, sbr. áætlun sjóðanna, er reiknað með árangri af fyrirhugaðri endurskoðun lánskjara.“ Ég vil taka það fram hér og nú, að ég tel að svo stöddu ófært að breyta lánskjörum Stofnlánadeildar landbúnaðarins, a.m.k. á eldri lánssamningum. En eins og segir á bls. 7 í lánsfjáráætluninni: „Endurskoðun lánskjara í samræmi við lög frá 1975 um lánskjör fjárfestingarlánasjóða hefur þegar skilað verulegum árangri. Áætlun um eigin fjármögnun sjóðanna 1978 miðast við að enn sé tekið myndarlegt skref (ég endurtek: myndarlegt skref) til samræmingar lánskjara og varðveislu fjárstofns sjóðanna og nái samræmingin jafnframt til breytilegra lánskjara eldri lánssamninga, þar sem því verður við komið.“

Ég lít svo á, að því verði ekki við komið við Stofnlánadeild landbúnaðarins að svo komu máli, og færi þau rök fyrir því máli mínu, að í fyrsta lagi er alltaf vandræðaaðferð að breyta umsömdum kjörum á gerðum skuldabréfum. Samkv. yfirdómi, sem féll nú um daginn um kjör bænda, er bændum reiknað fjármagn í búunum 3 millj. 684 þús., en samkv. niðurstöðum n., sem að störfum var í sumar og hafði þetta til meðferðar svo og skilaði áliti í haust og í áttu sæti Árni Jónasson frá Stéttarsambandi bænda, Hallgrímur Snorrason frá Þjóðhagsstofnun, Guðmundur Sigþórsson frá landbrn. og Ketill Hannesson frá Búnaðarfélagi Íslands, þá litu þeir svo á eftir mjög vandaða úttekt á fjármagni í landbúnaði að í vísitölubúinu ættu ekki að vera 3 millj. 684 þús., heldur 12 millj. 560 þús. Meðan svona er að málum staðið tel ég gjörsamlega ófært að fara að ætla bændum að bera hærri vexti frá Stofnlánadeildinni og síður en svo mögulegt að breyta eldri samningum.

Jáyrði mitt við þessu frv. byggist á því, að ég treysti því að þetta verði ekki gert. Þá byggist jáyrði mitt á að Byggðasjóður láni verulega upphæð til landbúnaðar, og þá á ég við, þegar ég tala um verulega upphæð, æðimiklu hærri upphæð en lánuð hefur verið undanfarið, æðimiklu hærri hluta af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs en undanfarið hefur gengið til landbúnaðar. Þessu verði varið bæði til vinnslustöðva og létt þar með á Stofnlánadeildinni og eins til hagræðingar í landbúnaði. Byggðasjóður hefur lánað til hagræðingar í öðrum atvinnuvegum, og ég hygg að hann geti lánað til hagræðingar í landbúnaði ekki síður. Hann gæti t.d. gert veðdeild Búnaðarbankans kleift að gera skuldabreytingar, þ.e.a.s. breyta lausaskuldum þeirra bænda, sem hvað verst eru settir, í föst lán. Enn fremur verð ég að treysta því, að frv. til laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins nái fram að ganga á þessu þingi og taki gildi á árinu, þannig að lán til íbúðarhúsabygginga í sveitum færist frá Stofnlánadeildinni til Byggingarsjóðs ríkisins. Á þetta frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins lit ég svo, að það sé landbúnaðinum mjög mikilvægt. M.a. er einn þáttur þess að jafna kjörin á milli þeirra, sem búnir eru að gera framkvæmdirnar fyrir löngu og borga þær niður, og þeirra, sem þurfa að standa í framkvæmdum núna og standa undir gífurlegum fjármagnskostnaði sem þar á ofan er stórkostlega vantalinn í verðlagsgrundvelli.

Ég vil segja í sambandi við þá fjármögnun sem gert er ráð fyrir í 3. gr. frv., þ.e.a.s. um gjald lífeyrissjóðanna til Framkvæmdasjóðs, að ég lít svo á að jákvætt sé að verja auknum hluta af ráðstöfunarhluta lífeyrissjóðanna til samræmdra og skipulagðra framkvæmdalána. Það er eðlilegt að þetta veki óánægju forustumanna lífeyrissjóðanna og það skil ég mætavel. En ég get ekki fundið að það sé neitt rán sem þarna á að fremja. Mér sýnist að það sé rækilega tryggt í 3. gr., að þetta fé sé vel geymt og rýrni ekki, heldur ávaxtist. Og það hlýtur að vera eðli málsins samkv. skynsamlegt að gera þetta, þ.e.a.s. að lána þetta fé að meira marki en verið hefur á skipulegan hátt til nauðsynlegra framkvæmda í þjóðfélaginu, bæði til íbúðarhúsabygginga og til framkvæmdalána, ef á annað borð er verið að reyna að hafa einhverja stjórn á peningamálum í landinu.