19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég átti nú eiginlega ekki von á því, að hér yrðu mjög almennar umr. í tilefni af þessu frv. Hins vegar finnst mér hafa verið rösklega boðið til þess. Sé ég þá enga ástæðu til að skorast undan að taka þátt í slíkum umr.

Mig langar fyrst til að víkja nokkrum orðum að því sem síðasti hv, ræðumaður, Guðmundur H. Garðarsson, sagði. Hann ræddi nokkuð almennt um lífeyrissjóðamálin og þá skoðun sína, að rétt væri að breyta þessu kerfi í grundvallaratriðum og taka m.a. upp svonefnt gegnumstreymiskerfi í staðinn fyrir það sjóðamyndunarkerfi sem nú er byggt á. Ég hugsa að býsna margir geti verið honum sammála um þetta. Ég er það fyrir mitt leyti í meginatriðum, Ég álít að huga þurfi að því að breyta þessu kerfi, enda verð ég að segja að ég hef litið svo á, að einmitt þær breytingar, sem hafa verið að ganga yfir nú að undanförnu með samkomulagi, sem gert hefur verið annars vegar á milli eigenda sjóðanna og ríkisvaldsins, fulltrúa launþegasamtakanna í landinu og fulltrúa atvinnurekenda, það samkomulag hefur allt að mínum dómi stefnt í þessa átt, að taka hér í rauninni upp nýtt kerfi. Ég álít því, að ekkert sé í rauninni á réttri leið.

Ég vitnaði nokkuð í skýrslu sem birtist fyrir stuttu af hálfu forustumanna lífeyrissjóðanna um slíkt samkomulag og um stöðu sjóðakerfisins eins að það er nú. Í þessari skýrslu segir m a. um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 28. febr. 1976 var ákveðið að stefna að nýskipan lífeyriskerfisins, sem taka skyldi gildi 1. jan. 1978.“ Það var það tímamark, sem menn höfðu þá sett sér. — „Aðilar urðu sammála um eftirfarandi markmið endurskipulagningarinnar: 1. Samfellt lífeyriskerfi taki helst til allra landsmanna. 2. Að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri, er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma“ — og fleiri atriði eru þarna upp talin, en ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa þau öll upp.

Aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og fulltrúar launafólks, komu sér saman um þessi atriði um nýskipan lífeyrissjóðakerfisins og hafa verið að vinna að því að undanförnu, en vegna þess að þetta tekur nokkurn tíma, eins og oft hefur komið fram, m.a. hjá Guðmundi H. Garðarssyni þegar hann hefur rætt þessi mál af því að hann þekkir þarna vel til, þá liggur ljóst fyrir talsverðan tíma tekur að koma á nýju skipulagi margra og mismunandi sjóða. En þá vildi verkalýðshreyfingin reyna að tryggja það með samkomulagi sínu að upp yrði tekið, á meðan unnið væri að þessu, bráðabirgðakerfi sem gæti mætt þörfum sjóðfélaga miklu betur en verið hefur. Það er einmitt þetta bráðabirgðakerfi sem ég gerði hér nokkra grein fyrir fyrr í þessum umr., en það stefnir í þá átt að stórauka lífeyrísgreiðslurnar frá sjóðunum frá því sem verið hefur, m.ö.o.: það er farið að gera ráð fyrir því að verðtryggja þær bætur, sem greiddar eru, og sú verðbreyting komi fram með tiltölulega stuttu millibili, Þeir sjóðir, sem enn njóta ekki neins stuðnings frá opinberum aðilum um verðtryggingar og verða því að standa undir verðtryggingunni sjálfir, eru þegar komnir inn á þessa braut og eru að vinna að því. Á þann hátt eru þeir að taka á sig nýjar kvaðir, nýjar skuldbindingar, og þeir verða að hafa fjárráð til að ráða við þetta verkefni. Ég tel því, að einmitt þetta, sem ég hef nú sagt og ég hafði vikið að áður, sýni það best, að það er rétt, sem komið hefur fram hjá mér og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, að taka verður tillit til þessara nýju kringumstæðna þegar er verið að gera till. um ákveðnar viðbótarskyldur á sjóðina. Í þessum efnum gildir það, eins og reyndar í öllum málum, að vitanlega verður að miða við ráðandi kringumstæður á hverjum tíma. Menn geta ekki grafið sig niður í eitthvað gamalt sem einu sinni var, haldið sig í sífellu við það og notað það sem einhverja almenna röksemd fyrir afstöðu sinni, af því að einu sinni var hægt að tala um hlutina í þessa átt þó að aðstæður væru þá allt aðrar. Slíkar röksemdir geta auðvitað dugað sumum mönnum, en ekki öllum.

Hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, minntist m.a. á það í ræðu sinni, að áður hefðu komið fram till. um að leggja kvaðir á lífeyrissjóðina. Vitnaði hann þá til frv., sem vinstri stjórnin lagði fram eftir að öllum varð ljóst og menn vissu ósköp vel, að hún var að liðast í sundur og ganga til kosninga. Í því frv. var vissulega farið inn á þá braut að gera ráð fyrir því, að lífeyrissjóðir yrðu skuldbundnir til þess að kaupa nokkuð af verðtryggðum skuldabréfum. Hv. þm, vildi reyna að rökstyðja það, sem nú væri verið að gera, með þeim till. sem þarna komu fram. En í öllum greinum fataðist hv. þm. auðvitað sundið, af því að hann varð að grípa til vandræðaráðstafana til þess að reyna að rökstyðja það mál sem hér lá fyrir. Hann hafði engin tök á því að rökstyðja mál sitt nema grípa í eitthvað gamalt sem í rauninni átti ekki við. Hann hefði gjarnan mátt geta þess, að í þessu frv., sem var lagt fram á sínum tíma af vinstri stjórninni. í grg. með frv., kom skýrt fram það sem hér segir: „Það skal fram tekið, að stjórnarflokkarnir hafa óbundnar hendur um einstök atriði frv.“

Það lá mjög skýrt fyrir og kom fram í umr. á þingi oftar en einu sinni, að við Alþb: menn vorum algerlega andvígir vissum ákvæðum í frv., sem forsrh. þá lagði mikla áherslu á að fengju að koma fram í frv., af lifað það væru hans till. Frv. var lagt fram, stjórnarflokkarnir voru ekki sammála um öll ákvæði frv. og höfðu óbundnar hendur og gerðu grein fyrir því, að afstaða þeirra væri sú, að þeir væru ekki bundnir af öllu því sem fram kvæmi í þessum tillögum.

Nú skal ég líka segja það, að við Alþb: menn lýstum yfir eindreginni andstöðu við ýmis ákvæði í þessu frv., sem hér er vitnað til. En það atriði, sem hér um ræðir, skuldbinding lífeyrissjóðanna, var þó ekki neitt meginatriði í þessum fyrirvara okkar. Þó höfðu margir þennan fyrirvara, vegna þess að það, sem um var að ræða í sambandi við þessa skuldbindingu í umræddu frv., var miklu viðtækara en svo, að aðeins væri verið að skuldbinda lífeyrissjóðina til þess að leggja fram fjármagn í ákveðnu skyni. Í þessari till. var lagt til að skylda viðskiptabanka og sparisjóði til þess að binda ákveðið fjármagn, lífeyrissjóði, Atvinnuleysistryggingasjóð og vátryggingafélögin í landinu. Hér hafði það gerst á þessum tíma, sem var alveg óumdeilanlegt, að bankakerfið í landinu hafði staðið fyrir stórkostlegri útlánaaukningu, sem mikið var rætt um á þessum tíma, og þótti því full ástæða til að leggja nokkrar hömlur á útlánastarfsemi bankanna um tíma. Rétt er það, að á þessum tíma gátu lífeyrissjóðirnir einnig fallið undir þetta að lífleyti til, að þeir höfðu yfir að ráða nokkru fjármagni, en þeir höfðu þá ekki tekið á sig neinar hliðstæðar skuldbindingar og nú er um að ræða, af því að þeir voru rétt að byrja að byggja sig upp og höfðu enga aðstöðu til að taka á sig stórfelld útgjöld, Kringumstæðurnar hafa því alveg gerbreyst.

Það eru að mínum dómi ákaflega lítilvæg rök fyrir því, sem nú er verið að gera, að benda á að þetta frv., þar sem flokkarnir höfðu sterkan fyrirvara á um ýmis ákvæði í frv., þær till. sem þar komu fram og voru miklu víðtækari í sambandi við lánastofnanir í landinu heldur en það sem hér er nú um að ræða og við allt aðrar kringumstæður, réttlæti það sem nú er verið að gera. Ég hef bent á það áður í þessum umr., að nú er stefnan breytt, því að nú er lagt til að leggja meiri skyldur á lífeyrissjóðina en nokkurn tíma hefur áður verið rætt um að leggja á þá, á sama tíma sem frá því er greint að nú skuli draga úr skuldbindingum bankanna til þess að leggja fram fé í þessu sama skyni, draga úr skyldum, sem hafa hvílt á bankakerfinu í fjöldamörg ár, síðan á viðreisnartímanum. Hér er vitanlega um gjörbreytta stefnu að ræða, og þetta gerist á þeim tíma þegar fyrir liggur að þessir lífeyrissjóðir eru farnir að verðtryggja í verulega ríkum mæli bótagreiðslur sínar.

En þetta er í rauninni ekki eina dæmið. Mér fannst satt að segja að málflutningur hv. 4. þm. Austurl., Tómasar Árnasonar, væri í rauninni allur af þessum toga. Þegar ég hafði gert þá grein fyrir afstöðu minni, að ég væri því t.d. ekki samþykkur að erlent lán yrði tekið upp á tæpan 1 milljarð kr, til þess að leggja fram sem hlutafé í járnblendiverksmiðjuna, en það er í fullu samræmi við þá afstöðu sem hefur komið fram hjá mér og mínum flokki til þess máls, þá er í rauninni eina svar þessa hv, þm. — ekki það að hann geti fært nokkur rök fyrir afstöðu sinni, nei, það eru engin rök fyrir henni önnur en þessi: Afstaða hans, Tómasar Árnasonar, er að kenna Magnúsi Kjartanssyni. Tómas Árnason og hans flokksmenn hafa auðvitað enga ábyrgð sjálfir, þeir hafa enga getu sjálfir til þess að fella dóm um það sem hér er á ferðinni, en afsaka sig með því, að Magnús Kjartansson hafi þó einu sinni verið með þessu máli. — Þetta eru auðvitað afskaplega léttvæg rök og lítilmótleg, því að auðvitað hvílir sú skylda á hverjum þm., að hann sé fær um að rökstyðja eigin skoðun og eigin gerðir, en ekki hlaupast frá því á þennan hátt.

Þessi ummæli hv. þm, gefa mér tilefni til að ræða hér nokkru nánar um járnblendiverksmiðjumálið og afstöðu Framsfl., fyrst það er á þennan hátt dregið inn í þessar umr. — ekki af mér — það, sem ég sagði um málið, var fullkomlega málefnalegt. Hér er um það að ræða, að ríkisstj. er að óska eftir heimild til lántöku m.a. í þessu skyni, Ég gerði þá grein fyrir því, að ég gæti vel fallist á heimild til þessarar lántöku, þó að undanteknu þessu atriði, sem ég væri ósammála. En hv. þm. Tómas Árnason hefur boðið til umr, um þetta stóra mál, og sjálfsagt er að við ræðum svolítið nánar um það.

Það er alveg rétt, að um það er ekkert að villast, enda hefur það margsinnis komið fram, að Magnús Kjartansson, sem var ráðh. yfir tiltekinni starfsnefnd á vegum hans rn. í vinstri stjórninni, nefndar um orkufrekan iðnað, féllst á þær till, þeirrar nefndar, að rétt gæti verið að koma upp þessari svonefndu járnblendiverksmiðju. Það er ekkert um það að villast, þetta hefur komið fram hjá honum, að hann taldi að ef tiltekin skilyrði yrðu uppfyllt í sambandi við stofnun þess félags, þá gæti hann fallist á þennan rekstur. Um þetta hafa aldrei staðið neinar þrætur. Þetta liggur skýrt fyrir bæði í ræðum hans og á annan hátt. Hitt liggur líka jafnskýrt fyrir, að ég hef ekki aðeins bókað afstöðu mína, bókað hver afstaða mín var, heldur hef ég yfirlýsingar á hv. Alþ. frá samráðh. mínum úr Framsfl. um það, — en slíkar yfirlýsingar metur auðvitað Tómas Árnason einskis, — hver hafi verið afstaða mín til málsins. Þeir draga enga dul á það, að ég hafi allan tímann sagst vera andvígur þessu máli og mundi standa á móti því. En hv. þm, kýs auðvitað þá leið að grafa hausinn í sandinn er kemur að þeim hluta málsins, þykist aldrei hafa heyrt og vill ekki skilja það ef honum er sagt það, og hann gerir sig líklegan til þess að reyna að endurtaka þetta eins oft og mögulegt er. Ég skal hugga hann með því, og hann getur vel fengið æfingu í þessu máli rétt áður en við hittumst í kjördæminu, að það er auðvelt mál að reka haus hans niður í sandinn æ ofan í æ ef um þetta er fjallað, vegna þess að það liggja fyrir skýr dæmi um það, hver var afstaða mín, og líka liggur skýrt fyrir, hver var afstaða míns flokks til málsins. Í þeim bréfum, sem hv. þm. vitnar til og Magnús Kjartansson hefur skrifað, viðurkennir hann að flokkur hans hafði þá ekki tekið afstöðu til málsins af því, að málið var ekki komið frá ríkisstj. á þann hátt að það væri lagt fyrir þar. En flokkur minn tók afstöðu til málsins, einróma afstöðu, og hafnaði því að standa að byggingu þessarar verksmiðju. Það, sem var þó enn þá skýrara í málinn, var það, að þrátt fyrir þann áhuga, sem hafði komið fram hjá Magnúsi Kjartanssyni í sambandi við byggingu þessarar verksmiðju, þá tók hann þá afstöðu til málsins hér á Alþ., þegar það lá endanlega fyrir til samþykktar, að hann greiddi atkv. á móti byggingu þessarar verksmiðju. En það var meira en þessi hv. þm. gerði. Þá treysti hann sér ekki til þess að fylgja Magnúsi Kjartanssyni. Af hverju ekki? Það var af því að hann þurfti að elta þá málmblendimenn, af því að hann var málmblendimaður. Hann vildi leggja áherslu á það, að verksmiðjan yrði byggð, eins og næstum allur hans flokkur. Það leyndi sér ekki, að næstum allan tímann í ríkisstj. voru framsóknarmennirnir einna harðastir í kröfum um það, að ráðist yrði í þessa verksmiðjubyggingu, enda skorti ekki á að þeir stæðu með málinu hér. Þar er þó a.m.k. ein undantekning, hv. þm. Páll Pétursson. Hann er greinilega andvígur verksmiðjubyggingunni, og þegar hann fékk aðstöðu til kom afstaða hans skýrt fram.

En það var ekki aðeins að hv. þm. Tómas Árnason og hans flokkur hefðu aðstöðu til þess að taka á þennan hátt afstöðu til málsins áður en lög voru sett um byggingu þessarar verksmiðju. Þeir fengu á nýjan leik tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins þegar í l;ós hafði komið að hér var verið að ráðast í hið mesta vandræðafyrirtæki, einnig frá fjárhagslegu sjónarmiði, og þegar það lá fyrir, að hinn erlendi aðili, auðhringurinn Union Carbide, vildi gjarnan greiða stórar fjárfúlgur til þess að losna út úr félaginu. Raunverulega hefði átt að hætta þá við allar framkvæmdir. Nei, þá stóð núv. hæstv. ríkisstj. þannig að málum með dyggum stuðningi Tómasar Árnasonar og þeirra framsóknarmanna, að áfram skyldi haldið, og gerðu nýjan, enn vitlausari samning en þann fyrri. Það er einmitt í sambandi við framkvæmdina á þeim samningi sem nú á að fara að ráðast í lántöku. Þá skipti engu máli þótt fyrir lægju yfirlýsingar frá Þjóðhagsstofnun um það, að miðað við þær fjárhagsforsendur, sem lágu fyrir þegar kom til samningagerðarinnar við norska auðhringinn, væri um taprekstur að ræða á þessari verksmiðju sem næmi um 800 millj. kr. á ári. Þá skipti það engu máli. Áhuginn var svo mikill hjá framsóknarmönnum að koma málinu í gegn, að þá munaði ekkert um að borga með þessu fyrirtæki 800 millj. kr. á einu ári. Og þó að nú liggi fyrir, að tapreksturinn sé miklu meiri, miðað við þær fjárhagsforsendur sem nú liggja fyrir, þá eru menn samt sem áður ákveðnir í að halda áfram að moka þarna upp frá, halda áfram að taka erlend lán.

En hv. þm. Tómas Árnason hefur auðvitað eina ágæta afsökun fyrir allri þessari glópsku og fyrir þessari afstöðu Framsfl.: Var ekki Magnús Kjartansson einu sinni með þessu máli? — Ég segi það, að svona málflutningur er ekki upp á marga fiska.

Mér finnst í rauninni algert lágmark að þm., sem taka afstöðu til stærstu mála, eigi einhver rök með sjálfum sér fyrir því sem þeir eru að gera. Það er í þessum efnum ósköp svipað farið með hv. þm., að röksemdir hans fyrir því að vilja skylda lífeyrissjóðina nú til þess að kaupa verðbréf af stofnlánasjóðum eru eingöngu á þá lund, að einu sinni hafi komið fram till. um þetta áður og það hafi meira að segja verið till. frá ríkisstj. sem ég hafi átt þátt í, jafnvel þó að ég hafi ekki staðið að till. sem slíkri. Þetta eru hans rök, ekki hitt, að hann hafi einhver sjálfstæð rök fyrir því, að réttmætt sé að leggja þessar kvaðir á sjóðina eins og nú standa sakir. Þetta eru sem sagt járnblendirök frá hálfu Framsóknar, og þau eru ekki upp á marga fiska.

Um það verður vitanlega spurt, og vegna þess er eflaust sá kviði sem kemur fram hjá hv. 4. þm. Austurl., Tómasi Árnasyni, — hann verður auðvitað spurður um það á Austurlandi, hann efast ekkert um það sjálfur, — hvað hafi eiginlega ráðið því, að hann skyldi eftir allt, sem á undan er gengið, kjósa að standa að till. um að verja til hafnargerðar uppi á Grundartanga í sambandi við þessa verksmiðju 250 millj. kr. á næsta ári, á sama tíma sem hann er látinn fella hér á Alþ. till. um að verja 30 millj. kr. til hafnargerðar á Seyðisfirði. Nú efast ég ekkert um að hv. þm. hefði í hjarta sínu viljað geta samþykkt þá till. sem hér hefur verið flutt um að leggja fram 30 millj. kr, til bryggjugerðar á Seyðisfirði, þar sem allir aðilar á Seyðisfirði hafa eindregið skorað á okkur þm. af Austurlandi að standa að slíkri till. Hv, þm. hefur þó haft sig í það að greiða atkv. á móti þessari till., en með því að leggja í hafnargerðina á Grundartanga 250 millj. kr. Er nema von að fari hrollur um hv. þm. er hann hugsar til þess, að ekki séu nema nokkrir mánuðir þangað til hann verður yfirheyrður þar eystra út af þessari afstöðu? Hann heldur að hann sleppi svo „billega“ út úr þessu að hann geti sagt: Þetta er allt því að kenna að Magnús Kjartansson skrifaði bréf til Ameríku. — Ég er ansi hræddur um að hann fái enga syndaaflausn út á slíkar röksemdir. Ég held að það dugi honum skammt. Hitt verður hann að sætta sig við, að hann beri hér ákveðna ábyrgð á því sem hann hefur verið að gera, að hann hefur tvisvar samþykkt hér lagasetningu um byggingu þessarar verksmiðju, hann hefur hér staðið fyrir því að taka erlend lán til viðbótar við alla hina erlendu lánasúpu til þess að leggja fram í þessa verksmiðju og hann hefur staðið fyrir lifað taka hafnargerð, sem tilheyrir þessari verksmiðju, langt fram yfir aðrar hafnargerðir í landinu. Hann verður að standa við það að hafa tekið þessa afstöðu. Hann fær ekki réttlætt afstöðu sína með því, að Magnús Kjartansson hafi einhvern tíma skrifað bréf. Ég vildi segja þetta við hv. þm. í tilefni af því sem hann sagði hér, ef það mætti verða til þess að hann færi að endurmeta afstöðu sína í þessu efni. Ég held að það sé komið nóg hjá honum.

En svo að ég víki nú frá málmblendiverksmiðju aðeins augnablik, þá þykir mér einnig ástæða til þess að í sambandi við það, sem fram hefur komið í þessum umr., að minnast á annað mjög merkilegt stefnuatriði sem verið er að fjalla um, og hv. þm. Páll Pétursson vék nokkuð að í ræðu sinni, en það er að í lánsfjáráætlun ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að enn þá verði áfram haldið á þeirri braut sem farin hefur verið að undanförnu varðandi lánakjör stofnlánasjóðanna í landinu. Hv. þm. Páll Pétursson benti réttilega á að í grg. með lánsfjárskýrslunni segir m.a. um þetta atriði:

„Áætlunin um eiginfjármögnun sjóðanna 1978 miðast við að enn sé tekið myndarlegt skref til samræmingar lánskjara og varðveislu fjár stofnlánasjóðanna og nái samræmingin jafnframt til breytilegra lánskjara eldri lánssamninga, þar sem lífverður við komið.“

Þetta vitum við öll sem hér erum hvað þýðir. Þessu er ekki síst beint að alveg ákveðnum stofnlánasjóðum. Það hefur talsvert verið gert að því í tíð núv. ríkisstj. að knýja það fram, og ekki alltaf gengið auðveldlega, að knýja stofnfánasjóðina til að hækka í sífellu útlánsvexti og auka verðtryggingu á útlánum og gera þannig lán þessara sjóða illþolanleg fyrir lántakendur í mörgum tilfellum. En það er ekki nóg að gert. Enn á að halda áfram á þessari braut samkv. þessari yfirlýsingu — og hverjir eru það sem eiga þessa nótu alveg sérstaklega? Ég efast ekkert um að formaður í stofnlánasjóði landbúnaðarins hefur ábyggilega skilið þessa orðsendingu, hv. þm. Stefán Valgeirsson. Hann veit að í þessari sömu lánsfjárskýrslu sem hér liggur fyrir, lánsfjáráætlun, er á það bent að Stofnlánadeild landbúnaðarins standi þannig að eigið framlag hennar, áður en útlán hefjast á næsta ári, fyrir árið 1978, sé neikvætt upp á 905 millj. kr, sjóðurinn eigi þetta minna en ekkert. Það kemur skýrt fram í lánsfjáráætluninni, og ég get ekki miðað við neitt annað en það sem stendur í henni. Ég þori auðvitað ekki að segja um það, hvort þessi lánsfjáráætlun ríkisstj. er öll röng. Það veit ég ekkert um. En hitt veit ég, að þetta kemur mjög skýrt fram í þessari lánsfjáráætlun. Það er að finna m.a. á bls. 28 í lánsfjárskýrslunni. Þar er fyrsti dálkur í þeirri töflu sem merktur er nr. 9 og heitir: Fjáröflun og útlán fjárfestingarlánasjóða, lánsfjáráætlun 1978, og í fyrsta dálki segir: Eigin fjármögnun nettó: Stofnlánadeild landbúnaðarins — 905 millj. kr. — Það er enginn vafi á því, hvort sem þessi fjárhæð er nákvæmlega rétt eða ekki, að rétt mun vera að Stofnlánadeild landbúnaðarins standi höllustum fæti í þessu efni af öllum stofnlánasjóðunum, m.a. vegna þess að sjóðurinn hefur lánað talsvert fé út um nokkuð langan tíma á tiltölulega hagstæðum kjörum miðað við það sem hér hafði gilt og eigin tekjur sjóðsins voru ekki miklar, þó að þær hafi verið auknar mjög verulega í tíð vinstri stjórnarinnar og það sé sá tekjustofn sem deildin raunverulega flýtur á. En hér er beinlínis lýst yfir, að að því skuli stefnt að taka þessi lánskjör til nýrrar endurskoðunar og samræmingar við lánskjör annarra og með það í huga að tryggja enn betur að sjóðirnir komi jákvætt út og öll neikvæð afkoma þeirra verði úr sögunni, sem þýðir auðvitað verulega hækkun á útlánskjörum. Meira að segja er að því vikið í þessari yfirlýsingu, að ekki sé nóg með það, að þarna eigi að hækka eða gera lánakjörin enn þá óhagstæðari fyrir bændur, heldur eigi að nota alla möguleika til þess að koma hinum nýju, háu lánskjörum fram á eldri samningum líka. Fögur er nú yfirlýsingin og góð loforðin í garð bænda.

Önnur deild, sem einnig snertir landbúnaðinn, á hér alveg sérstaklega hlut að máli. Það er Veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Hún er líka neikvæð upp á 60 millj. kr. eftir lánsfjárskýrslunni. Stjórnendur þeirrar deildar fá þarna orðsendingu líka og býsna gott loforð.

Það er von að hv. þm. Páll Pétursson vilji biðjast undan því, að þessi ósköp eigi eftir að ganga yfir landbúnaðinn, og vilji hafa einhvern fyrirvara á. Hv. þm. Tómas Árnason hefur hins vegar engan fyrirvara á í þessum efnum — ekki hef ég heyrt það. E.t.v. gæti hann fundið það einhvers staðar, að Magnús Kjartansson hafi skrifað bréf eitthvað varðandi þetta mál. svo að það mætti verða honum til bjargar, — ég veit það ekki. Það er reynandi að leita að einhverju slíku. En hér er einfaldlega á ferðinni boðskapur um að það skuli enn og alveg sérstaklega hækka vexti og auka verðtryggingarákvæði á landbúnaðarlánum, Það er sem sagt ekki nóg að gert í þessum efnum.

Hins vegar er staða bæði Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs miklu betri en þessara sjóða. í þessari skýrslu, sem ég hef vitnað til, er gert ráð fyrir að Fiskveiðasjóður hafi 390 millj. kr. tekjur með sér að leggja sem eigið framlag. Er það vitanlega talsvert, enda liggur fyrir að um langan tíma hefur Fiskveiðasjóður haft þau ákvæði í sínum lánasamningum að þeir, sem kaupa fiskiskip erlendis frá, hafa tekið að láni allt upp í 80% af andvirði skipanna til 8 ára og hafa sjálfir þurft að standa undir gengisáhættu af þessum lánum. Lánsloforð Fiskveiðasjóðs hafa lífverið með þeim hætti, að þeir sem t.d. hafa verið að kaupa fiskiskip erlendis, hafa tekið á sig gengisáhættu að mjög verulegu leyti.

Ég vil líka segja í sambandi við þessi mál, að ekki er nóg með það, að með þeirri lánastefnu, sem mörkuð er af hæstv. ríkisstj. í lánsfjáráætlun hennar, sé gert ráð fyrir að um verulegan samdrátt verði að ræða í útlánum stofnlánasjóðanna til innlendra atvinnuvega, þ.e.a.s. til sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar — og þó sérstaklega til landbúnaðar og sjávarútvegs þegar tekið er tillit til verðbreytinga. Til viðbótar við þessa stefnu er gert ráð fyrir að draga þarna úr lánum, eins og reyndar hefur verið gert að undanförnu um alllangan tíma. Sem sagt er boðað að gera skuli lánskjör þessara aðila enn þá verri en þau eru nú. Þetta er auðvitað umhugsunarefni fyrir þá sem vilja eitthvað um þessi mál hugsa. Það er kannske í samræmi við þessa stefnu sem mönnum þykir sjálfsagt nú að taka upp sérstaklega þung skilyrði gagnvart lífeyrissjóðunum. Þegar þeir hafa tekið á sig auknar skuldbindingar í ríkum mæli til þess að standa undir almennum lífeyrisgreiðslum, þá þykir sjálfsagt að leggja á þá auknar lagalegar skyldur. Aftur á móti þykir hitt sjálfsagt: að gera hvort tveggja að draga úr lánum til undirstöðuatvinnuvega landsmanna og gera lánskjör þeirra enn þá verri, og svo þykir líka sjálfsagt að auka stórlega við lántökur til þess að geta haldið áfram járnblendiævintýrinu uppi á Grundartanga.

Ég hafði lagt áherslu á það, þegar ég talaði fyrir áliti okkar minnihlutamanna í fjh.- og viðskn, um afstöðu okkar til þessa frv , að ég teldi óskynsamlegt að halda fast við ákvæði 3. gr. frv., ekki vegna þess, — það kom skýrt fram hjá mér og ég get endurtekið það hér, — ekki vegna þess, að ég teldi óeðlilegt að lífeyrissjóðirnir keyptu verðtryggð bréf sem næmi kringum 40% af ráðstöfunarfé þeirra, og ekki heldur vegna þess, að ég vildi ekki gjarnan að ráðstöfunarfé þeirra gengi til stofnlánasjóða atvinnuveganna, heldur benti ég á að óskynsamlegt væri að hafa 3. gr. af þeim ástæðum, að sennilega yrði niðurstaðan sú, að stofnlánasjóðir atvinnuveganna fengju minna fjármagn með því að ætla að fara þessa þjösnalegu leið. Ég sagði að ég teldi langvænlegast fyrir ríkisstj. að fara hina hefðbundnu leið í þessum efnum og leita eftir samkomulagi við stjórnendur sjóðanna um að þeir ráðstöfuðu fé sjóðanna á þann hátt sem ríkisstj, teldi vera nauðsynlegt, ég teldi líklegast að hún næði árangri ef hún stæði þannig að málinu. En að koma fyrst með lögbindingarákvæði og ætla síðan að ganga til samninga, það er ekki líklegt til árangurs.

Ég vek enn athygli á þessari afstöðu minni. Afstaða mín er nú eins og hún hefur verið áður. Ég er ekki andvígur því, að þessir sjóðir ráðstafi fjármunum sínum til stofnlánasjóða atvinnuveganna, síður en svo. Þar tek ég vissa sjóði fram yfir aðra og það er ábyggilega mannlegt. Ég tel að bæði lífeyrissjóðirnir og reyndar aðrir sjóðir launþegasamtakanna í landinu hafi, eins og ég hef minnst á hér áður, þegar gert mjög myndarlegt átak til að fjármagna t.d. Byggingarsjóð ríkisins. Það væri að mínum dómi mjög æskilegt, að þeir gætu lagt fram fjármagn til þess að veita stofnlánasjóðum atvinnuveganna aukinn stuðning. En það er ábyggilega ekki leiðin til þess, að það takist, að fara þá leið sem hér er efnt til, að hafa ákvæðin í 3. gr, eins og þau eru.

Ég benti einnig á að alveg er augljóst að orðalagið á 3. gr, er þannig, að enginn af þessum sjóðum þarf að ráðstafa neinu af fé sínu umfram það sem þeir gera nú í dag til þessara sjóða sem ríkisstj. er að leita eftir fjármagni fyrir. Þeir geta auðveldlega ráðstafað 40% af ráðstöfunarfé sínu með verðtryggingarákvæðum í aðrar áttir. Hvort tveggja er, að þeir eru ýmsir til, sem eru tilbúnir að taka slík lán eins og nú er komið, án þess að það þurfi að fara í gegnum einhverja tiltekna sjóði, og þar að auki er alveg augljóst að sjóðfélagarnir sjálfir geta tekið lán í eitthvað ríkara mæli með verðtryggingarákvæðum en þrír gera nú. Allt ber þetta því að sama grunni, að ríkisstj, heldur svo óhönduglega á þessu máli, að allar líkur eru á því, að hún fái þveröfuga útkomu við það sem hún stefndi að, hún fái minna fjármagn en hún hafði búist við og lánsfjáráætlun hennar að þessu leyti ruglist öll. En þá getur hæstv. ríkisstj, kennt sjálfri sér um að hafa valið þessa leið. Það virðist ekki vera ein báran stök á því heimili. Það stafar allt af þeirri alröngu stefnu, sem hún heldur uppi í lánamálum, vaxtamálum og lánskjaramálum og er að þjarma að atvinnulífinu í landinu núna, af þeirri stefnu að beina aðalkröftunum að því að efla erlenda stóriðju. Hvernig sem svo útlitið er með slíkan rekstur, þá skal hann hafa forgang, þá skal samt sem áður gengið út frá því, að varið skuli 8000 millj. kr. til byggingar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga auk hafnarframkvæmdanna, það skuli ætt enn þá lengra út í tapreksturinn en orðið er. Það er eins og ég segi: það er ekki ein báran stök hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum Það virðist vera, að hún velji í öllum greinum þá leiðina sem er vitlausust.

Ég hef áður rætt um það, að þeir lífeyrissjóðir, sem hér er verið að ræða um, hafa þegar tekið að sér verulega miklar skuldbindingar í sambandi við fjármögnun stofnlánasjóða í landinu. Ég efast mjög um að við núverandi aðstæður sé hægt að búast við því, að þeir sjóðir taki þarna á sig miklu meiri skuldbindingar. Ef það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það megi áætla að á milli 20 og 25% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna gangi nú til stofnlánakerfisins, þar með talið til Byggingarsjóðs ríkisins, þá er ekki um lítið fjármagn að ræða eins og nú er komið. Og þegar þessar nýju og stórauknu skuldbindingar eru hafðar í huga, sem sjóðakerfið hefur tekið á sig, þá kalla ég það mikla bjartsýni að sjóðirnir geti keypt skuldabréf af þessum stofnlánasjóðum upp á 40%. Það er að mínum dómi atriði sem menn verða að gera sér ljóst, að þessir lífeyrissjóðir komast ekki undan að lána sjóðfélögum eitthvað eins og verðtryggðu lífeyrissjóðirnir gera. Við skulum hafa í huga t.d. lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, sem eru verðtryggðir af ríkinu. Þar sér ríkissjóður um verðtrygginguna, en auk þess hafa svo þessir sjóðir yfir að ráða miklu fjármagni til útlána til sinna sjóðfélaga og lána einnig út með lægri vöxtum. Hins vegar er það, að alveg er vonlaust að búast við því, að þessir almennu lífeyrissjóðir hætti með öllu útlánastarfsemi til sinna sjóðfélaga, — það er alveg vonlaust. Það er eins og hér hefur verið bent á, að ef farið yrði inn á þá braut, að þeir gætu ekki veitt nein slík lán, á meðan verðtryggðu sjóðirnir gera það, þá er mjög vafasamt að takist að halda uppi þeim mikla sparnaði sem á sér stað í sambandi við lífeyrissjóðakerfið. Það er mjög vafasamt að þá takist að fá sjóðfélagana til að leggja fram 4% af kaupi sínu og atvinnurekendur til þess að leggja fram 6% á móti. Það er enginn vafi á því, að það eru svo miklar kröfur gerðar til þessara sjóða um fyrirgreiðslu á svipaðan hátt og verðtryggðu sjóðirnir veita, að það er aðeins skammsýni að reikna með því, að þeir verði ekki að veita einhver lán af þessari tegund. Hitt er svo augljóst mál, að þessir sjóðir þurfa samt sem áður í vaxandi mæli að verðtryggja fjármagn sitt til þess að þeir geti staðið undir þessum nýju skuldbindingum.

Ég tel að betra hefði verið að fara svolítið hægar í þetta mál en gert hefur verið og athuga m.a. nokkru betur, hvort ekki væri rétt, miðað við þau rök sem hér hafa fram komið, að endurskoða málið allt, ekki síst út frá þessari aðvörun minni, að ég held að ekki þurfi mikla skarpskyggni til að lesa það út úr þessu máli, að sterkar líkur séu til að þeir stofnlánasjóðir, sem ríkisstj. ber hér fyrir brjósti, fari verr en ella út úr þessu lánsfjármáli öllu ef reynt verður að þjösna málinu í gegn á þann hátt sem hv. 4. þm. Austurl. hefur talað fyrir. Ég vil nú fara fram á það við hann, af því að hann hlýtur að vera búinn að átta sig á því eftir þau ræðuhöld sem hér hafa farið fram, að málið er af hans hálfu og hans samherja þegar komið í öngþveiti, hvort ekki væri rétt að staldra við og athuga málið, hvort ekki væri hyggilegt að fara að okkar ráðum. Ég held að það væri miklu heilladrýgra fyrir lausn þessa máls.