19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja hér örfá orð í tilefni af ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar áðan. Ég verð að segja það, að ég varð fyrir vonbrigðum með það sem fram kom í ræðu hans. Ég minnist þess, að árið 1974, þegar verið var að ræða um það ákvæði frv. um viðnám gegn verðbólgu sem var sama eðlis og það sem lagt er til í þessu frv., þá var þessi hv. þm. algerlega andvígur því, ekki kannske fyrst og fremst vegna þess hvaða prósentutölur þar væri um að ræða, heldur vegna „prinsip“-ákvörðunar um það, að ekki ætti að skipa þessum málum með lagaboði, og var þó í því frv, um að ræða heimild til handa ríkisstj. Það var þó sett upp í heimildarformi. Ég var alveg sammála þessum hv. þm. þá, ég var algerlega andvígur þessu ákvæði þess frv., og á nákvæmlega sama hátt er ég andvígur ákvæði frv. sem við erum nú að ræða um, að því er tekur til 3. gr. Ég tel að ekki eigi að skipa þessum málum með lagaboði. Og ég ítreka það, eftir þá andstöðu sem þetta ákvæði frv. hefur fengið frá lífeyrissjóðunum sjálfum, að hér er um lögþvingun að ræða, ef að þessu verður horfið. Og ég er nærri því viss um það, hvað sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson segir um þetta, að innst inni er hann alveg sammála mér um þetta efni. Ég á ekki von á því, að skoðun hans hafi breyst frá 1974 að því er þetta atriði varðar. Hér er ekki um það að ræða, að meginmáli skipti hvort það eru 20%, 30% eða eitthvað annað. Hér er grundvallarspurningin um það, hvort eigi að skylda þetta í lögum eða hvort hinn frjálsi samningsréttur eigi að ákvarða þessa hluti.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðmund H. Garðarsson um það, af því að ég veit að hv. þm. er mjög kunnugur þessum málum, hvað hann telur marga lífeyrissjóði geta orðið við þessari lagaskyldu eins og aðstæður eru nú. Ég þykist vita að hann sé mér sammála um að þeir eru örfáir, þeir lífeyrissjóðir sem nú undir þessum kringumstæðum gætu orðið við þessari skyldu, þó svo að þeir væru allir af vilja gerðir til að gera það. Ég efast um að það væru fleiri en svona 10 sjóðir af þeim að ég held um 40 sem eru innan sambands hinna alinennu lífeyrissjóða, þ.e.a.s. SAL. Ég efast mjög um að þeir gætu þetta, nema þá því aðeins að skerða stórlega þann rétt lífeyrissjóðsþeganna sjálfra sem þeir hafa tif lána. Ég á ekki von á því, að um þetta séum við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ósammála. Ég er jafnframt nærri því viss um að þessi hv. þm., styðji hann þessa gr. frv., geri hann það nauðugur. Hann er ekki þessa sinnis innst inni, ég er alveg viss um það.

Hv. þm. sagði að ekki yrði undan því vikist að setja lífeyrissjóðunum skorður í þessum efnum, ella væri voðinn vís. Ég vil spyrja þennan hv. þm. um það líka: Hefur hann orðið sérstaklega var við það af hálfu lífeyrissjóðanna, að þeir hafi verið andsnúnir því að leggja fram fjármagn t.d. í Byggingarsjóð ríkisins eða Framkvæmdasjóð, að því marki sem þeir hafa talið sig geta gert? Og ef svo er, hvaða sjóðir hafa það þá verið? Þetta veit þessi hv. þm. allt. Mér kæmi á óvart ef hann segði það hér t.d. úr ræðustóli á Alþ., að gætt hafi andstöðu hjá lífeyrissjóðum við því að kaupa verðtryggð skuldabréf, t.d. af Byggingarsjóði ríkisins. Ég held að það verði ekki sagt. Ég held að lífeyrissjóðir almennt hafi sýnt fyllstu sanngirni í þessum efnum á undanförnum árum. Og svo er þessi stóra spurning, sem ég vildi líka gjarnan fá að heyra álit hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar á: Telur hann að ríkisstj., stjórnvöld, hafi staðið við sinn þátt þess samkomulags sem gert hefur verið að því er varðar fjármögnun úr lífeyríssjóðunum með kaupum á verðtryggðum skuldabréfum tvívegis a.m.k. í samningum, — hefur ríkisstj. staðið við sinn hluta þess samkomulags? Kannske eru þessi áform hæstv, ríkisstj. að framkvæma þessa lögþvingun til komin vegna þess, að hún hefur orðið vör við að farið er að gæta þreytu hjá lífeyrissjóðum, sem standa alltaf við sinn hluta samkomulagsins, þó að ríkisstj. sýni engan lit á því að standa við þann þátt samkomulagsins sem hún þó lofaði að fullnægja?

En það er alveg sama hvernig menn velta þessu fyrir sér. Hér er um þá grundvallarspurningu að ræða, hvort menn vilja skipa þessu með lagaboði eða hvort á að fara samkomulagsleiðina, eins og gert hefur verið. Ég er alveg viss um það, raunar kom það fram í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, að hann er þeirrar skoðunar að fara eigi samkomulagsleiðina.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan, að hér væri ekki verið að taka rétt af einum eða neinum til eilífðarnóns. (ÞÞ: Þetta er satt.) Þetta er satt, segir hv. þm. Þórarinn Þórarinsson. (Gripið fram í.) Hann sagði að þetta væri satt hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að hér væri ekki verið að taka rétt af einum eða neinum til eilífðarnóns. (Gripið fram í.) Ég er nærri því viss um það, að ef hæstv. ríkisstj. kemst upp með að ákvarða þetta svona í lögum, þá verða fleiri ríkisstj. til þess að feta í fótsporin. Ég er nærri viss um það. Það verður ekki snúið til baka eftir að núv. hæstv. ríkisstj. hefur gefið fordæmi með því að lögþvinga lífeyrissjóðina með þessum hætti. Hér er ekki verið að stíga fyrsta skrefið, ef af þessu verður, undir forustu núv. hæstv. ríkisstj. og að því er mér virðist allt benda til með stuðningi ,jafnágæts verkalýðsforingja og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er. Hann ætlar að ljá þessu stuðning. Það eru mér mikil vonbrigði. Eins og ég hef áður sagt, ég er viss um það, hvað sem öllu tali hans líður hér, þá er hann mér hjartanlega sammála um það, að hér á að fara að stíga rangt skref í þessum efnum, — skref, sem hæstv. ríkisstj. hefur engan ávinning af, því að lögþvingun í þessum efnum kann ekki góðri lukku að stýra. Hæstv. ríkisstj. hefði að mínu viti orðið miklu meira ágengt ef hún hefði farið samkomulagsleiðina, eins og áður hefur verið gert. Ég skora því á hv. þm. Guðmund H. Garðarsson að beita sér fyrir því innan stjórnarliðsins og fyrst og fremst að hafa þau áhrif á hæstv. ríkisstj., að hún hætti við þessi áform og taki upp viðræður við þessa aðila og fari þá leið, sem gefist hefur vel allt til þessa, að ná frjálsu samkomulagi við lífeyrissjóðina um að fjármagna þessa þætti, að svo miklu leyti sem þeir telja sér unnt án þess að ganga á rétt lífeyrissjóðsþegana sjálfra.

Hvað sem öðru líður verður að minni hyggju að virða fullkomlega þann rétt sem sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum eru búnir að ávinna sér með innborgun í sjóðina. Fari svo, að þetta ákvæði verði hér samþykkt, er enginn vafi á að hæstv. ríkisstj. nær ekki þeim árangri sem hún telur sig hugsanlega vera að ná. Það er útilokað að nema örlitill hluti, örlítið brot af lífeyrissjóðunum, sem eru starfandi í landinu, geti beygt sig að fullu fyrir þessari laga þvingun ef af henni verður.