19.12.1977
Neðri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Það gerist skammt stórra högga á milli í loðnumálum þessarar hv. d. Síðdegis í dag lagði hæstv. sjútvrh. fram frv. til l. um breytingu á lögum um löndun á loðnu til bræðslu. Að vísu er um að ræða mál sem ekki ætti að verða ágreiningsmál. Þó verður að segjast, eins og kemur fram í nál., að það er ekki nógu gott þegar verið er að leggja slík mál fram á síðustu stundu, án þess að menn hafi tækifæri til þess að kynna sér málin á þann venjulega hátt sem n. vilja hafa á hv. Alþ. Tekist hefur þó að ná sambandi við þá aðila sem gátu gefið nauðsynlegar upplýsingar um þetta mál, bæði aðila sem eiga sæti í loðnunefnd og eins forystumenn úr þeim samtökum sem hlut eiga að máli. En mál þetta, sem er stjfrv., er flutt vegna samhljóða óska hagsmunaaðila sem sæti eiga í Verðlagsráði sjávarútvegsins. Undir bréf þess efnis skrifa formenn Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands, Farmannasambandsins, fulltrúi Alþýðusambandsins og einnig fulltrúar frá loðnuverksmiðjunum.

Þetta frv., sem við sáum í annarri mynd að vísu á síðasta Alþ. og náði þá ekki fram að ganga, hefur verið til athugunar hjá þessum aðilum. Nú hafa þeir náð samkomulagi á þann veg sem fram kemur í því frv, sem við hér ræðum. Við höfum þó orðið sammála um það í sjútvn. hv. d., og það eftir að hafa haft samband við aðila sem hafa starfað í loðnunefnd og fyrir loðnunefnd, að við teljum ekki rétt að láta samþykkja frv., þó að við mælum með því efnislega, nema nokkur breyting verði gerð á því. Því höfum við leyft okkur að flytja þá brtt. sem kemur frá n. og er á þskj. 268. Hún er þess efnis, að við frv. bætíst: „Þó er nefndinni skylt að leyfa löndun í einstakar verksmiðjur á ákveðnum svæðum ef öryggi skips eða skipshafnar krefur.“

Við teljum að við getum verið sammála um meginefni þessa frv., sem er að reyna að koma til starfa fleiri verksmiðjum sem fyrst, má segja, og létta á aðallöndunarsvæðunum. Hugsunin, sem er að baki þessa, er að bæta hag verksmiðjanna á stærra svæði en því sem aðallöndunin fer fram á, sem á væntanlega að geta hækkað verð loðnunnar til sjómanna og útvegsmanna. Um þetta atriði eru allir þeir aðilar, sem fjalla um verðlagsmál sjávarútvegsins, sammála.

Þótt um heimildarákvæði sé að ræða, vitum við samt, að þegar búið er að beita því einu sinni, þá geta komið upp ýmsir agnúar ef öryggi er annars vegar. Því viljum við hafa það alveg skýrt fram tekið í lögunum, að nefndinni sé skylt að taka til greina að gæta skuli öryggis bæði skips og skipshafnar. Vænti ég að allir hv. þm. séu þessu sammála. Ég hef rætt um þetta við aðila, sem m.a. stóðu að því að semja þetta frv., og þeir hafa tjáð mér, að vísu í símtali, — ég tek fyllilega mark á viðbrögðum þeirra og svörum þrátt fyrir það að þeir hafi ekki komið á fundi í n, og meðnm. mínir í sjútvn. hafa líka gert það, — að þeir séu fyllilega sammála því, að þetta ákvæði sé tekið inn.

Með því fororði mælir n, með því, að frv. sé samþykkt með þessari tilteknu breytingu. Að vísu hafði einn hv. þm. fyrirvara, Garðar Sigurðsson, og einn um, var fjarverandi.