20.12.1977
Efri deild: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 174 er frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978. Það kom fram, þegar ég gerði grein fyrir lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir 1978, að lagt yrði fram frv. á Alþ. varðandi heimildir til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir, svo og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar. Í þeirri umr., sem fram fór í sambandi við 2. umr, fjárlagafrv., var gerð grein fyrir lánsfjáráætluninni svo og þeim meginstefnumiðum, sem þar kæmu fram, og þeim atriðum, sem sérstaka lagasetningu þyrfti við að hafa til þess að lánsfjáráætlunin næði fullnustu á árinu.

Í frv. því, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir að samkv. lánsfjáráætlun verði fjmrh. heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlent lán á árinu 1978 að jafnvirði allt að 4 milljarða 866 millj. kr. Hliðstæð upphæð í lánsfjáráætlun fyrir 1977 var 6 milljarðar 870 millj. og að auki 2 milljarðar 862 millj. vegna Framkvæmdasjóðs, en í þessu frv. og samkv. lánsfjáráætlun er ekki gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður taki erlent lán á næsta ári. Samtals var því erlend fjáröflun til ríkisframkvæmda og fjárfestingarlánasjóða á s.l. ári samkv. lánsfjáráætlun 9 milljarðar 732 millj. kr., þannig að hér er um að ræða nákvæmlega 50% lækkun í íslenskum krónum á þeirri erlendu lántöku sem gert er ráð fyrir á árinu 1978 miðað við 1977. 2. gr. frv. fjallar svo um að því lánsfé, sem aflað verður samkv. 1. gr., skuli varið til framkvæmda í samræmi við ákvæði fjárl. fyrir árið 1978.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til að ávaxta 40% af ráðstöfunarfé sínu í verðtryggðum skuldabréfum. Tilgangur þessa ákvæðis er tvíhættur: Annars vegar að treysta ávöxtun lífeyrissjóðanna til þess að þeir geti betur sinnt skyldum sínum við lífeyrisþega og einnig að tryggja fjáröflun til nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Að undanförnu hafa verið gerðir samningar við lífeyrissjóðina og að því stefnt á þessu ári. að kaun þeirra á skuldabréfum nemi samtals 30% af ráðstöfunarfé, og er gert ráð fyrir því í lánsfjáráætlun. að þeirri upphæð eða sama hlutfalli verði náð á árinu 1978. Tilgangur þessara verðbréfakaupa hefur verið að tryggja þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun atvinnuvega og íbúðabygginga og jafnframt að gefa þeim kost á að ávaxta verulegan hluta af ráðstöfunarfé sínu með fullri verðtryggingu. Framkvæmd þessara samninga hefur yfirleitt gengið vel. Þó hefur verið nokkur misbrestur á því, að allir lífeyrissjóðir keyptu verðbréf að umsömdu marki. Hefur þetta ekki aðeins skapað vandamál í framkvæmd greiðsluáætlunar, heldur hafa sumir sjóðir þannig naumast sinnt nægjanlega skyldu sinni til að ávaxta fé sitt með hagkvæmasta hætti í þágu lífeyrisþega. Því þykir ástæða til að setja í lög almenn ákvæði þess efnis, að öllum lífeyrissjóðum sé skylt að ávaxta tiltekinn hluta af heildarráðstöfunarfé sínu með fullri verðtryggingu. Jafnframt þessu er sú kvöð lögð á fjmrh., á ríkissjóð, að ríkissjóður hafi ætíð á boðstólum verðbréf með fullri verðtryggingu og þar verði um að ræða bréf ríkissjóðs, bréf Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs, svo að lífeyrissjóðirnir geti ætið fullnægt þeirri lagaskyldu sem hér er gert ráð fyrir. Auk þess er svo gert ráð fyrir að aðrir stofnlána- og fjárfestingarlánasjóðir geti selt lífeyrissjóðum verðtryggð skuldabréf, enda fullnægi þeir verðtryggingarákvæðum þessa frv. að mati Seðlabankans sem fer með löggjöfina um verðtryggingu skuldabréfa. Gert er ráð fyrir í þessari grein að nánari ákvæði um framkvæmd þessara skuldabréfakaupa verði sett í reglugerð. Við umr. í hv. Nd. var gerð breyting á þessari grein, þess efnis, að ef sérstakar fjárhagsástæður einstakra lífeyrissjóða krefjist geti fjmrh, lækkað framangreint hlutfall verðbréfakaupa af ráðstöfunarfé. Hefur verið á það bent, að lífeyrissjóðir séu mismunandi vel stæðir, ráðstöfunarfé þeirra sé mjög misjafnt, og þess vegna talið eðlilegt að slíkt ákvæði sé í lögum, þannig að ekki sé verið að íþyngja veikum lífeyrissjóðum umfram það sem ástæða þykir til. Þess vegna er þetta ákvæði sett inn.

Varðandi 4. gr. frv., þá er þar um að ræða heimild til að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán fyrir Landsvirkjun að upphæð 1500 millj, kr. eða jafnvirði í erlendri mynt eða að ríkissjóður taki lánið og endurláni. Sama er að segja um 5. gr. Þar er um að ræða heimild til að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán fyrir Hitaveitu Suðurnesja fyrir 1800 millj. kr. eða andvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og/eða taka lá og endurlána með sama hætti og verið hefur.

Í 6. gr. frv. er nýtt ákvæði, en þar er fjmrh. fengin heimild til þess að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga erlend lán ríkissjóðs þar sem lánstími er talinn of stuttur miðað við eðlilegan afskriftatíma þeirra mannvirkja sem fjármögnuð hafa verið með viðkomandi lánum. Gert er ráð fyrir að fjmrh. hafi samráð við fjvn. áður en til slíkrar lántöku kemur. Talið er eðlilegt, þar sem lánamarkaðir hafa verið með þeim hætti. að lán hafa verið með tiltölulega skömmum lánstíma að undanförnu, en þar orðin á breyting nú upp á síðkastið, að veita heimild til að breyta þessum lánum í lengri lán. Þar sem hér er hins vegar um heimild að ræða og ekki nefndar ákveðnar upphæðir eða tekið fram um kjör slíkra lána, þá er talið eðlilegt að áður en til þess komi sé haft samráð við fjvn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. Skýringar á því í lánsfjáráætlun hafa komið fram. Ég leyfi mér því, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.