24.10.1977
Neðri deild: 5. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég er nákunnugur sögu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsemi hennar. Líf hennar hékk á bláþræði, þegar ég tók við forstöðu menntmrn. sumarið 1956. Það tókst sem betur fer þá að bjarga lífi hennar, og hefur tekist til þessa dags ekki aðeins að bjarga lífi hennar, heldur einnig að efla hana stórum, þannig að Sinfóníuhljómsveitin er tvímælalaust orðin einn sterkasti og merkasti þáttur í menningarlífi Íslendinga, — ekki aðeins í tónlistarlífi Íslendinga, heldur í menningarlífi íslensku þjóðarinnar í heild. Þess vegna fagna ég mjög framkomu þessa frv. og mun styðja eindregið að það nái fram að ganga svo tímanlega á þessu þingi, að unnt verði að taka tillit til þessa frv. sem laga þegar gengið verður frá fjárl. fyrir árið 1978, eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh.

Ég er alveg algerlega samþykkur þeim reglum sem tilgreindar eru í 3. gr. um skiptingu kostnaðar við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Mergur málsins er samt sem áður sá, að það er framtíð hljómsveitarinnar lífsnauðsyn að um hana verði sett lög, þannig að starfsgrundvöllur hennar verði til fulls tryggður. Hann verður ekki tryggður fyrr en lög verða sett um hljómsveitina. Hljómsveitin er orðin svo merkur og sterkur þáttur í íslensku menningarlífi, að það er sjálfsagt að um hana gildi sérstök lög eins og Ríkisútvarpið, Háskólann, söfnin og aðrar merkar menningarstofnanir þjóðarinnar.

Það er aðeins eitt atriði í frv. af einstökum atriðum þess sem mig langar til að gera að umtalsefni með örfáum orðum, og það er ákvæði 6. gr. um að stjórn hljómsveitarinnar ráði að fengnum till. framkvæmdastjóra allt að 65 hljóðfæraleikara til fastra starfa við hljómsveitina auk hljómsveitarstjóra, ritara og umsjónarmanns. Hæstv. ráðh. gerði þetta nokkuð að umtalsefni í framsöguræðu sinni áðan og vitnaði til þess, að minni hl, þeirrar n., sem undirbúið hefur frv., þeir Pálmi Jónsson og Örn Marinósson, hafi ekki talið eðlilegt að fjöldi hljóðfæraleikara sé ákveðinn í lögunum sjálfum, heldur tekin afstaða til fjölda hljóðfæraleikaranna við afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Ég skil að vísu niðurlagið á ummælum þeirra um þetta efni þannig, að þeir telji hljómsveitina vera óþarflega fjölmenna, ef í lögunum sé sagt að ráða skuli 65 fastráðna hljóðfæraleikara við hljómsveitina, því að þeir segja, með leyfi hæstv, forseta: „Getum við ekki staðið að því að leggja til, að lögfest verði, að við hljómsveitina starfi 65 hljóðfæraleikarar.“ Ég held að þetta þýði að þeir geti ekki lagt til að svo margir hljóðfæraleikarar verði ráðnir fastir við hljómsveitina. Hæstv. ráðh. hefur hins vegar, eins og meiri hl. n. lagði til, tekið upp í 6. gr. frv. að ráða skuli allt að 65 hljóðfæraleikara til fastra starfa við hljómsveitina. Ég tel þetta ekki heppilegt. Ég tel að það sjónarmið, sem minni hl. n. setur fram, að ekki skuli fastbinda töluna í lögum, sé rétt, þó ekki með sömu röksemd og ég þykist mega lesa úr orðum minni hl. n., þ.e.a.s. að talan 65 sé of há, heldur þvert á móti, að reynsla næstu ára kunni að sýna að sú tala kunni að reynast of lág. Ég er ekki að segja, að hún sé of lág á þessu ári, kannske ekki næsta, en ég vara við því að binda tölu starfsmanna ákveðinnar stofnunar í lögum. Það á sér ekki stað, mér vitanlega, um nokkra aðra stofnun, hvorki menningarstofnun né félagsmálastofnun, eða stjórnardeild eða atvinnufyrirtæki, sem ríkið á og rekur eða opinberir aðilar eiga og reka, að starfsmannafjöldi sé bundinn í lögum. Ég minnist þess ekki. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða, að þess séu ekki dæmi. Sinfóníuhljómsveitin yrði þá eina stofnunin, a.m.k. eina menningarstofnunin í landinu, þar sem væri ákveðið í lögum að starfsmannafjöldi skyldi vera ákveðinn.

Reynslan sýnir að ef hliðstæð ákvæði eru komin inn í lög, þá er mjög tafsamt og veldur oft óþarfa umstangi og deilum að breyta því. Þess vegna hygg ég að hyggilegra væri að hafa í lögum enga fasta tölu hljóðfæraleikara, heldur ákveði fjvn, hverju sinni, um leið og hún ákveður framlag til hljómsveitarinnar, hversu þeir skuli vera margir. Ætti henni að vera treystandi til þess, eins og hún í reynd ákveður fjölda starfsmanna í stjórnarráðinu, fjölda starfsmanna við Háskólann, fjölda starfsmanna við Ríkisútvarpið og þar fram eftir götunum með afgreiðslu sinni á fjárl. hverju sinni.

Ég er hræddur um að þessi tala í 6. gr. kunni að verða þróun hljómsveitarinnar fjötur um fót þegar fram í sækir og þess vegna sé ekki hyggilegt að nefna þarna ákveðna tölu. Vil ég beina til hv. menntmn., sem fær frv. þetta til athugunar, að hugleiða þetta atriði alveg sérstaklega, og ég veit að hún mun gera það með velvild. En ég endurtek, að skoðun mín er sú, að svo kunni að fara innan skamms að þetta ákvæði reynist úrelt. Þá þarf að breyta því og það er ekki heppilegt. Hins vegar legg ég áherslu á að ég tel framlagningu frv. engan veginn mega stranda á ágreiningi um þetta atriði, sem ég tel sannarlega vera minni háttar í samanburði við hitt, að Sinfóníuhljómsveit Íslands fái eigin lög til að starfa samkvæmt.