20.12.1977
Neðri deild: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

139. mál, vörugjald

Fjmrh, (Matthías Á, Mathiesen):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem er á þskj. 261, er um breytingu á lögum frá 1971, um vörugjald, sbr. lög frá í des. á s, l. ári um breyt. á þeim lögum. Vörugjaldslögin féllu úr gildi á s.l. ári, en voru þá framlengd um eitt ár. Þessi mál hafa verið í endurskoðun og talið rétt að um framlengingu til eins árs væri að ræða.

Af þessu vörugjaldi hefur Styrktarsjóður vangefinna fengið markaðan tekjustofn, og í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að hækka vörugjald á gosdrykkjum þannig, að sá hluti gjaldsins, sem runnið hefur til Styrktarsjóðsins, hækki úr 7 kr, í 10 kr., en gjaldið hækki um 6 kr., þannig að 3 kr. af hækkuninni á litra renni til ríkissjóðs. Á fyrra þskj. sem útbýtt var, eins og forseti gerði aths. við áðan, voru aðrar tölur. Þær komust á þann stað vegna misskilnings. Grg. var í fullu samræmi við þær tölur, en þær eru eins og ég sagði áðan, misskilningur og því eru á þskj. endurútbýttu lægri tölur en voru á því hinu fyrra.

Þessi hækkun vörugjaldsins hækkar tekjur Styrktarsjóðs vangefinna um 45 millj. kr. Það, sem kemur í hlut ríkissjóðs til viðbótar við það, sem hann hefur af þessu gjaldi, er áætlað 64 millj. kr.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., veit reyndar að ekki er um að ræða ágreining um málið, og vænti þess, að það geti náð fram að ganga áður en þingi verður frestað, enda þótt stutt sé til þingfrestunar.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.