20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

106. mál, fjáraukalög 1975

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af þeim samanburði sem getið er um í nál. um frv. til fjárl. frá minni hl. fjvn. og að gefnu tilefni af ummælum frsm. þeirrar n., hv. 11. landsk. þm. Þar er gerður nokkur samanburður á kaupmætti kauptaxta og þjóðartekjum á mann annars vegar 1972 og hins vegar á yfirstandandi ári og næsta ári. Þar kemur í ljós, eins og hv. frsm. minni hl. fjvn. gat um, að kaupmáttur kauptaxta hefði minnkað meðan þjóðartekjur hefðu aukist. Ég dreg út af fyrir sig ekki í efa þessar tölur, þær eru út af fyrir sig byggðar á skýrslum Þjóðhagsstofnunarinnar, en ég vil taka það fram, að hv, minni hl. fjvn. hefur sleppt þriðju línunni, samanburði við þriðju stærðina sem máli skiptir í þessu efni, þ.e.a.s. kaupmætti ráðstöfunartekna á mann. Ég vænti þess, að hv. þm. og hv, minni hl. fjvn. vilji gjarnan hafa þær telur til hliðsjónar, og efast raunar ekki um að fjölmiðlar, þar með talið útvarp og sjónvarp, muni birta þær tölur mjög skilmerkilega í fréttum sínum, eins og vitnað var til nál. minni hl. fjvn. í gær.

En ef við tökum kaupmátt ráðstöfunartekna á mann á þessu árabili, þá hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 11.3% frá 1972 til yfirstandandi árs, á meðan þjóðartekjur á mann hafa aukist 10.8%. Ef við viljum líta á tölur sem fjalla um þróunina á næsta ári, eins og séð verður hvernig hún verður, þá mun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukast um 17.4% á meðan þjóðartekjur á mann aukast um 14%, þ.e. kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann eykst um 17.4% meðan þjóðartekjur á mann aukast um 14%.

Ég vil líka vekja athygli á því, að viðskiptakjör á þessu tímabili hafa batnað um 9.6%, en eru þó ekki orðin jafngóð og þau voru best, þ.e.a.s. á árinu 1973. Ef við miðum við töluna 100 1972 hvað viðskiptakjör snertir, þá voru þau 115.3 1973 og fóru svo hríðlækkandi allt niður í 88.8% 1975, en eru áætluð á yfirstandandi ár í 109.6 og hin sömu á næsta ári. Við allar þessar tölur verður að miða ef samanburð á að gera varðandi það, hvort auknar þjóðartekjur og bætt viðskiptakjör hafi komið fram í bættum kjörum almennings í landinu.

Það vill nefnilega oft gleymast í hita kjaraumr., að hér á landi er svo komið að kauptaxtar og breytingar þeirra eru mjög ófullkominn mælikvarði á raunveruleg lífskjör og lífskjarabreytingar. Bil milli taxta og tekna er breitt og hefur farið breikkandi á undangengnum árum. Hér gætir ýmissa atvika. Launaskrið er það nefnt er dagvinnulaun aukast meira en nemur breytingum kauptaxta, og hjá okkur hefur þess gætt í verulegum mæli. Hér er t.d. um að ræða tilflutning á milli taxta. Það er alkunna, að fjölmennir hópar manna flytjast úr lægstu töxtum í hina hæstu, og hér er einnig skýringu að finna í þeirri staðreynd, að ákvæðisvinna alls konar fer mjög vaxandi í okkar þjóðfélagi og gefur launþegum meira í aðra hönd og eykur kaupmátt. Hér má líka nefna að vinnutími er breytilegur, og þar sem yfirvinnukaup er snar þáttur teknanna geta vinnutímabreytingar ekki síður haft áhrif á tekjur en kauptaxtar. Ég efast að vísu um að yfirvinna hafi mjög aukist á þessu tímabili, en engum blöðum er þó um það að fletta, að yfirvinna er mjög fljótt áhrifamikil í heildartekjum. Einhvern tíma taldist mér til, að einn yfirvinnutími á dag 5 daga vikunnar gæti aukið launin um 20–25%. Það er allnokkuð síðan, og ég veit ekki hvernig það dæmi lítur út nú. Atvinnutekjur, aðrar en þær sem háðar eru töxtum, geta breyst meira eða minna en kauptaxtar. Við skulum t.d. taka tekjur sjómanna, sem byggðar eru á hlutaskiptum og fiskverði. Fiskverð hefur á tímabili hækkað meira en kauptaxtar, þótt e.t.v. sé minni munur nú á því en áður var, og inn í dæmið kemur einnig fiskmagnið sem fæst upp úr sjó, sem hefur áhrif í þessum efnum og ber að taka tillit til. Sama máli gegnir um aðrar tekjur, svo sem bætur almannatrygginga og eignatekjur. Loks geta beinir skattar breyst meira eða minna en tekjur, þannig að þau laun, sem heim eru tekin, ráðstöfunartekjurnar, breytist öðruvísi en kaupið sjálft.

Það er sem sagt athyglisvert, að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur nú á þessu ári aukist meira en vexti þjóðartekna á mann nemur, og það er búist við að þetta bil breikki á næsta ári. Ég held þess vegna að ekki fari á milli mála, að til almennings hefur runnið sá bætti hagur sem við sem betur fer búum við, Hitt er svo annað mál og umhugsunarefni, ekki síst fyrir samtök launþega og samtök vinnuveitenda, hvernig unnt er að samræma kauptaxta almennum ráðstöfunartekjum eða hvernig í raun og veru skiptingu ráðstöfunartekna er háttað í þjóðfélaginu.

Ég vildi láta þetta atriði koma fram við þessa umr., þótt það sé viðameira en svo að því verði gerð skil þegar við erum í miðri 3. umr. í fjárlagafrv.