20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

106. mál, fjáraukalög 1975

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur brtt. við fjárlagafrv.

Þá fyrri flyt ég ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal og Magnúsi T. Ólafssyni. Við leggjum til að framlag til byggingar dagvistarheimila hækki úr 180 millj. upp í 300 millj. Ég vil í þessu sambandi minna á að krafan um fleiri dagvistarheimili fyrir börn og stóraukið framlag hins opinbera til þeirra var ein meginkrafa verkalýðsfélaganna í samningunum í vor. Nefnd á vegum verkalýðshreyfingarinnar, sem fjallaði um og ræddi við ríkisstj. um þetta mál, nefndi í viðræðum töluna 400 millj. sem nauðsynlega upphæð til að fullnægja þörfinni. Ríkisstj, mun hafa haft góð orð um að koma til móts við þessa kröfu. Í yfirlýsingu hennar frá því í vor segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1978 beita sér fyrir að hækka fjárveitingar ríkisins til byggingar dagvistarheimila innan ramma gildandi laga um kostnaðarskipti.“

Þetta er úr yfirlýsingu ríkisstj. um dagvistarmál. Hér eru að vísu ekki nefndar tölur, og það mun ekki heldur hafa verið gert af hálfu ríkisstj. í viðræðunum í vor. Hins vegar féllu orð á þann veg, að verkalýðshreyfingin eða forustumenn hennar töldu sig eiga von á allmyndarlegri hækkun til þessa málaflokks. Mun forsrh, hafa látið þau orð falla í viðræðunum, að að það væri ánægjulegt að geta komið mönnum á óvart með einhverja upphæð. Í ljósi þeirrar upphæðar, sem nú er í frv, til fjárl., eru þessi ummæli hæstv, forsrh. heldur kaldhæðnisleg. En ég fullyrði að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar skildu hann ekki á þann veg, og trúlega hefur hann ekki ætlast til þess sjálfur. Því miður hefur hann ekki treyst sér til að standa við það fyrirheit eða þau góðu orð sem hann lét falla, því að ekki er nándar nærri uppfylltar kröfur rn., hvað þá kröfur verkalýðshreyfingarinnar um framlög til þessa málaflokks. Það hlýtur að segjast, að ekki er stórmannlega að staðið þegar vitað er að verkalýðshreyfingin lagði mikla áherslu á þetta og taldi sig hafa ástæðu til að búast við miklu meiri hækkun en nú er komin á daginn. Upphæðin í fyrra var tæpar 111 millj., sem samsvarar að raungildi 148 millj., og hækkunin nú er því ekki nema 20%. 180 millj. sem nú er gert ráð fyrir að veita til þessa málefnis, er óraveg frá því að uppfylla þörfina.

Í bréfi sínu frá því í júní s.l. óskaði menntmrn. eftir að veittar yrðu rúmar 311 millj kr. til að fullnægja umsóknum sem því hafa borist. Í því bréfi er beiðnin rökstudd, og þar kemur fram að skuldahali er þegar orðinn um 200 millj. Það er því langt frá því að ríkissjóður hafi staðið við skuldbindingar sínar samkv. lögum.

Ég hef hér undir höndum töflu sem sýnir að bilið er alltaf að breikka milli þarfar til þessa málaflokks og þess fjár sem Alþ. veitir, og ég minni alvarlega á að þennan málaflokk má ekki vanrækja nema illa eigi að fara. Ég vil því eindregið beina því til hæstv. forsrh. og fjmrh., að þeir endurskoði þá afstöðu, sem birtist í fjárlagafrv., með hliðsjón af viðræðum og þeirri yfirlýsingu, sem þeir gáfu verkalýðshreyfingunni í vor, og leggi henni lið með að hækka þessa upphæð.

Í öðru lagi flyt ég ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni brtt., þar sem víð leggjum til að heimild til að ábyrgjast lán fyrir Lánasjóð námsmanna hækki um 90 millj. úr 270 millj. kr. í 360 millj. kr. Það, sem fyrir okkur vakir með þessum tillöguflutningi, er að stefna í átt að 100% brúun umframfjárþarfar. Það fyrirheit er í lögum um Lánasjóðinn frá 1967, að stefnt skuli að því, að aðstoð hins opinbera við námsmenn nægi til að standa straum af eðlilegum námsog framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til eigin tekna námsmanns, fjölskyldustærðar og fleiri atriða,

Á s.l. vori voru gerðar stórfelldar breytingar á námslánasjóðnum með lögum hér á Alþ., eins og hv, alþm. muna. Lánskjör voru hert að mun og verðtryggingu komið á. Þessar breytingar gerðu það að verkum, að 80–90% lánanna munu skila sér aftur til sjóðsins í fullu raungildi þegar allt er tekið með, bæði lágmarksgreiðsla og aukaafborganir. Þegar svo er komið er það lágmarkskrafa, að umframfjárþörf verði brúuð að fullu heldur fyrr en seinna. Till. okkar að sinni gengur þó ekki svo langt, og held ég að hún hljóti að teljast hógvær miðað við framansagt. Við leggjum til að það lán, sem fjmrh. er heimilt að ábyrgjast, hækki um 90 millj. kr., í 360 millj. kr. Framlög í frv., sem ætluð eru Lánasjóði íslenskra námsmanna, miðast við 85% umframfjárþörf. Fjárveitingunni sjálfri er ætlað að ná til 70%, en lánsheimildinni til 15% umframfjárþarfar. Til þess að ná 90% umframfjárþörf þarf þessar 90 millj, í viðbót. Við höfum tekið þann kost að leggja til að lánsheimildin hækki, en ekki fjárveitingin.

Ég ítreka það, að við teljum ekki að við séum að gera óhóflegar kröfur fyrir hönd Lánasjóðs, en ég vil aðeins endurtaka, að eins og nú er komið lánakjörum er ástæðulaust að draga lengur það gamla loforð að stefna að 100% brúun umframfjárþarfar.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.