20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

1. mál, fjárlög 1978

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég stend að flutningi tveggja brtt. Þær eru báðar á þskj. 283.

Sú fyrri er 3. till. á því þskj. og er endurflutt till, sem dregin var til baka til 3. umr., en hafði verið flutt við 2. umr. Það er till. sem ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds flyt um það, að heimild, sem gert er ráð fyrir að veitt verði á 6. gr. frv. varðandi kaup á húseigninni Laugavegi 166, falli niður. Ég hef áður gert grein fyrir þessari till. og sé ekki ástæðu til að ræða frekar um hana.

þessu sama þskj. er síðan till. nr. V, en þá till. flyt ég ásamt hv. þm. Helga F. Seljan. Þar er gert ráð fyrir heimild handa ríkisstj. til þess að taka lán eða ganga í ábyrgð fyrir láni, sem nemi allt að 100 millj. kr., til þess að reisa við atvinnurekstur á Breiðdalsvík á Austurlandi með kaupum á hentugu fiskiskipi til að tryggja rekstur frystihúss staðarins. Ástæður fyrir því, að þessi till. er flutt, eru þær, að á þessum stað tókst svo til, að aðalfiskiskip staðarins var tekið af eigendunum þar vegna erfiðleika í rekstri, þeir misstu skuttogara sem þeir áttu hlutdeild í með öðru byggðarlagi og hafði verið gerður út frá þessum stað. Skipið var flutt til annars staðar og eftir er þorpið mjög illa statt atvinnulega. Nú er komið að því, að frystihús, sem hefur verið í endurbyggingu á þessum stað, geti tekið til starfa sem endurbyggt og fullkomið hús, en þarna er ástand í atvinnumálum mjög erfitt. Það er augljóst mál, að ekki er möguleiki á því að endurreisa atvinnulífið á þessum stað án þess að þarna komi til allveruleg ytri hjálp, ríkisvaldið hlaupi undir bagga og aðstoði heimamenn við að eignast nýtt skip í staðinn fyrir það sem raunverulega var af þeim tekið. Ég tel að þetta mál sé þannig, að ekki séu miklar líkur til þess að Byggðasjóður leysi þetta verkefni. Hann hefur þegar tekið á sig allmikinn fjárhagsvanda í sambandi við uppbyggingu frystihússins. En þarna verður að koma til nýtt fiskiskip og því er það að við flytjum þessa till. og viljum þar með bæði benda á alvöru þá, sem fylgir þessu máli, því að þarna er við mikið vandamál að etja, og leið til að ráða fram úr þessu. Ef ríkisstj. notfærði sér slíka heimild sem þessa, þá ætti að vera hægt að útvega lán og þar með tryggja byggðarlaginu skip eins og þörf er á.

Þetta eru aðeins þær brtt., sem ég stend að, sem ég hafði hugsað mér að tala fyrir. Ég vænti þess, að þessar brtt. verði metnar að verðleikum.