20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

1. mál, fjárlög 1978

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 246 bar ég fram tvær brtt, við fjárlagafrv. Önnur þeirra, IV. brtt. á því þskj., var flutt við 2. umr. og mælti ég þá fyrir henni. Hin brtt., II. brtt. á þskj. 246, er hins vegar ný og mun ég nú skýra hana með fáeinum orðum. Sú till. hljóðar um að nýr liður bætist við Þjóðminjasafn Íslands þar sem er sjóminjasafn, og ætla ég 5 millj. kr. til sjóminjasafnsins.

Ég vil einungis rifja það upp í sambandi við þessa litlu till„ að í febrúarmánuði árið 1974 var samþ. hér á hv. Alþ. einum rómi þáltill. um stofnun sjóminjasafns, þ.e.a.s. heildarsafns fyrir landið allt. Þessi till, var á þessa leið, með leyfi hæstv, forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar í samráði við þjóðminjavörð undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Skal leita eftir samvinnu við Hafnarfjarðarbæ um hentugt landssvæði fyrir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur.“

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsti þegar áhuga sínum á þessu máli og tók mjög jákvætt undir þá hugmynd að greiða fyrir því, að greitt verði fyrir því af bæjaryfirvalda hálfu að landssafni íslenskra sjóminja gæti orðið búinn góður framtíðarstaður í bæjarlandi Hafnarfjarðar.

Næst gerðist það í þessu máli, að 28. ágúst 1974 skipaði hæstv. þáv. menntmrh. nefnd til að fjalla um stofnun sjóminjasafns í samræmi við þessa fyrrgreindu ályktun Alþ. og gera till. um fyrirkomulag slíks safns. Nefndin starfaði síðan undir forustu þjóðminjavarðar, aðallega veturinn 1974–1975, og skilaði ítarlegu áliti til menntmrh. vorið 1975. Þetta nál. var fjölritað og það var sent öllum alþm. og fleiri, ef ég man rétt, í desembermánuði 1975 eða janúar 1976. Í þessu nál. var lögð mjög mikil áhersla á þrjú verkefni sem næst lægi fyrir að vinna að í þessu sambandi. Það var í fyrsta lagi, að samið yrði um landrými undir þetta framtíðarsafn. Nefndin hafði kannað málið og hún benti á þrjá staði innan bæjarmarka Hafnarfjarðar, sem til greina kæmu, og gerði ekki endanlega upp á milli þeirra staða, þó að margir nm. teldu að sá staður, sem er í námunda við Dvalarheimili aldraðra sjómanna, kæmi allra helst til greina. Í öðru lagi, að unnið verði skipulega að söfnun og björgun sjóminja og reynt að tryggja sómasamlega varðveislu þeirra meðan safnhús eða sýningarskálar væru ekki komnir upp. Og í þriðja lagi, að byggingarnefnd þessa framtíðarsafns verði skipuð, svo að hún geti hafist handa um undirbúning framkvæmda.

Alkunnugt er að mikið hefur verið talað um erfið fjárráð ríkisins á undanförnum árum, og vissulega hafa ýmis stór verkefni blasað við og ekki gengið sérlega vel að vinna að þeim. Svo er t.d. í sambandi við byggingarmál, svo sem þjóðarbókhlöðu og fleiri nauðsynjaverkefni af slíku tagi. En ekkert þessara þriggja verkefna, sem nefndin lagði verulega áherslu á, þarf að kosta stórfé, en eru hins vegar mjög mikils virði ef einhvern tíma á að vera hægt að koma á fót slíku sjóminjasafni sem ekki kafnar undir nafni. Varðveisla gamalla skipa og jafnvel endurbygging þeirra að einhverju leyti hlýtur alltaf að kosta nokkurt fé, en enginn efi er á því, að eins og sakir standa er björgunarstarfið hið allra mikilvægasta í þessu sambandi, og þrátt fyrir að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar, bæði af mér og fleirum, til þess að fá nokkrar fjárveitingar til þessa björgunarstarfs, þó að ekki sé nú hugsað um að byggja stórt og dýrt safnahús að svo komnu máli, hefur þetta verk gengið afskaplega erfiðlega, og því miður hafa fjárveitingar til þessa verkefnis verið svo naumt skammtaðar að sáralítið hefur verið hægt að gera, nema bjarga eins og einum og einum gömlum árabát. Áhugamannahópar um sjóminjar, hafa hins vegar á ýmsum stöðum sýnt að hægt er að gera töluvert, jafnvel fyrir litla peninga, ef vilji er fyrir hendi, en þó er óhjákvæmilegt að hafa einhver fjárráð til að bjarga slíkum gömlum munum. Ég vil aðeins minna á það, að fyrir nokkrum árum, árið 1974, keyptu áhugamenn á Akranesi gamlan kútter frá Færeyjum sem á sínum tíma hafði verið í íslenskri eigu, sennilega um 25–30 ára skeið. Sá kútter hét Sigurfari. Hann hélt því nafni í Færeyjum og var gerður út frá Færeyjum, ég held fram undir 1970, og var svo keyptur til Akraness 1974. Hann er tvímælalaust eina skipið af þeirri tegund sem hugsanlegt er að varðveita. Því miður hefur ekki fengist fé til að standsetja þennan gamla kútter. Hann er því miður í algerri niðurníðslu þarna uppi á Akranesi. Ef ekki verður gert eitthvað bráðlega í því að koma honum í það horf að hann finni ekki þar niður, þá verður þetta framtak því miður til einskis. Til þess að bjarga slíku skipi — þetta er um 70 tonna kútter — telja kunnáttumenn, sem hafa athugað málið, að þurfi svo sem eins og 10 millj. kr. Það er í rauninni ekki gífurleg upphæð nú á dögum. 3–4 millj. á ári næstu þrjú árin mundu gera það að verkum að hægt yrði að bjarga þessu skipi, því seinasta sem hugsanlegt er að bjarga af þeirri tegund skipa sem hér voru burðarás útgerðar, bæði við Faxaflóa og víðar, um 30–40 ára skeið.

Annað dæmi vil ég aðeins nefna. Sjóminjafélag Íslands var stofnað árið 1974, sama árið og þáltill., sem ég nefndi áðan, var samþykkt. Þetta áhugamannafélag hefur ýmist aðstoðað Þjóðminjasafnið eða af eigin hvötum bjargað nokkrum bátum, og þessir bátar eru nú í vörslu Þjóðminjasafns. Þetta félag hefur nú síðast látið endurbyggja gamalt Suðurnesjaáraskip, stórt gamalt áraskip, að því er mér er tjáð hið síðasta með Suðurnesja- eða Grindavíkurlagi. Skip þetta hafði legið í fjörunni suður í Grindavík í áratugi og það var orðið svo illa farið, að kunnugir telja það hið mesta þrekvirki að hafa komið gamla skipshrófinu til Hafnarfjarðar án þess að það hryndi niður á leiðinni. En nú er búið að gera svo prýðilega við þetta gamla áraskip í bátasmiðastöðinni Bátalóni í Hafnarfirði, að það mun nú varðveitast sem fulltrúi þeirra áraskipa sem hinir fræknu sjómenn á Suðurnesjum notuðu og sóttu fast á sjóinn allt fram á þessa öld.

Ég átti von á því eftir viðtal mitt í haust við hæstv. fjmrh., sem ég veit að er áhugamaður um þetta mál, um sjóminjasafnsmálið, að sérstök fjárveiting yrði nú tekin upp til sjóminjasafns í fyrsta sinn á fjárl. fyrir árið 1978. Því miður hefur ekki orðið af þessu. Hins vegar hefur hv. formaður fjvn. lýst því yfir, að 2 millj. kr. af ákveðnum fjárlagalið, sem heyrir undir þjóðminjasafn, eigi að fara til sjóminjasafns eða til björgunar og varðveislu sjóminja. Þetta ber vissulega að þakka. Þetta er lítils háttar hækkun á þeirri upphæð sem hefur verið varið á undanförnum árum til þessa nauðsynlega björgunarstarfs. Ég hefði kosið að þetta yrði sjálfstæður liður. Það hefði sýnt, að það væri þó vilji fyrir því að halda áfram undirbúningi að því að koma hér á fót sjóminjasafni. Ég hefði látið kyrrt liggja ef þessar 2 millj., sem eru að vísu allt of lítið fé, hefðu verið sjálfstæður liður, en það varð ekki einhverra hluta vegna. Mér er raunar tjáð að það séu einhverjar embættismannareglur sem torveldi þetta, þar sem ekki hafi verið sérstök lög um sjóminjasafn, heldur sé aðeins um þál. að ræða. Sé þetta rétt, sem ég hef fyrir satt, að það séu einhverjar slíkar embættismannareglur sem koma í veg fyrir að sjóminjasafn geti orðið sérstakur liður á fjári., þá þarf að sjálfsögðu að bæta úr því með lagasetningu um slíkt safn.

Till. mín er um 5 millj. kr. fjárveitingu til þessa safns undir liðnum Viðfangsefni undir Þjóðminjasafni. Sú litla fjárhæð dugar aðeins til þess að bjarga kannske tveimur eða þremur gömlum árabátum frá tortímingu eða einum litlum vélbát frá fyrstu árum eða áratugum þeirrar útgerðar. Fáeinir slíkir árabátar eru enn þá til og veit ég um einn sem bíður þess á kambi vestur á fjörðum, sennilega nær 70 ára gamall, að verða þar sól, regni og vindi að bráð eða verða bjargað og fluttur til væntanlegs sjóminjasafns. En verði þessi litla till. mín um 5 millj. til viðfangsefna varðandi sjóminjasafn samþykkt, þá gætu þær 2 millj., sem þegar eru í fjárlagafrv., e.t.v. gengið til byrjunarframkvæmda við viðgerð þess eina kútters sem hægt er að bjarga, kútters Sigurfara frá Akranesi. Ég tek ekki gilda þá röksemd, að ekki séu til í öllu peningaflóðinu fáeinar milljónir til þess að varðveita merkar sögulegar minjar um þá framfarasókn sem hér hófst með þilskipunum og hefur síðan haldið áfram á öld vélskipa og togara.

Ég skal aðeins geta þess, herra forseti, að 4. liðurinn á þskj. 246, um 10 millj. kr. hækkun fjárlagaliðsins til aðstoðar við þróunarlöndin, er till. sem ég flutti við 2. umr., en dró þá til baka til 3. umr. Ég mælti fyrir henni þá og mun ekki endurtaka það, en vil aðeins segja það, að við, þessi velmegunarþjóð, getum gert miklu betur en við gerum í þessum efnum, og við eigum að gera það. Ég vænti þess, að sú till. mæti einnig skilningi hér á hv. Alþingi.