20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

1. mál, fjárlög 1978

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun fyrst mæla með brtt. á þskj. 225 frá sex þm, Reykv. Ég vil þó hefja mál mitt á því að leiðrétta þá frétt, sem birtist í Dagblaðinu í dag, þess efnis að ég flytji hér brtt, ásamt minni hl. eða stjórnarandstöðunni. Það er ekki rétt. Ég flyt hér brtt. sem ég hef tekið þátt í að móta sem borgarráðsmaður eða sem borgarfulltrúi í Reykjavík af bestu samvisku, og ég gel fullvissað hv. þm. um að borgarstjórn hefur starfað að þeim á ábyrgan hátt. Í framhaldi af fundi, sem haldinn var með þm. Reykjavíkur og borgarfulltrúum Reykjavíkur, lagði ég þá spurningu fyrir alla þm, Reykjavíkur, hvort þeir vildu vera meðflm. eða ekki, en þeir, sem skrifuðu á till. og eru meðflm. með mér, voru þeir einu, sem vildu standa að tillögum borgarstjórnarinnar.

Þessar till, á þskj. 225 eru við 4. gr. fyrsta till. við liðinn. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, gjaldfærður stofnkostnaður, í staðinn fyrir 235 millj. komi 295 millj. Ég leyfi mér að vitna — með leyfi hæstv, forseta — til bréfs borgarstjóra sem hann skrifaði fjvn, og allir þm. Reykjavíkur fengu afrit af. Þar segir hann um þennan lið:

„Auk þessara fjárveitinga er rétt að minna á að samkv, bréfi stjórnarnefndar Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá 8. f.m. til fræðsluráðs þarf fjárveiting til frekari framkvæmda við skólann að nema 295 millj. á næsta ári. Sú fjármögnun kemur öll í hlut ríkissjóðs. Hlutur borgarsjóðs í þeim framkvæmdum greiðist með endurgreiðslum ríkissjóðs vegna byggingar sundlaugar og C-álmu skólans, en síðan mun fyrirhugað að húsnæðisinneign borgarsjóðs gangi þar upp í nýjar framkvæmdir.“

Í 2, lið er brtt. um þjónustudeild Borgarspítalans, að sú upphæð verði hækkuð úr 60 í 165 millj. Með leyfi forseta ætla ég að vitna aftur í bréf borgarstjóra til okkar þm., en þar segir svo:

„Í samræmi við ákvörðun samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, sem staðfest var með bréfi heilbr.- og trmrn. 6, ágúst 1975, á fjárveiting til byggingar þjónustuálmu Borgarspítalans að vera 60 millj. kr. Framlög þessi hafa ekki hækkað í samræmi við raunverulega hækkun kostnaðar. Þyrfti framlagið að hækka í a.m.k. 100 millj. kr. á næsta ári til samræmis við hækkun byggingarvísitölunnar á ofangreindu tímabili.

Áðurgreind ákvörðun samstarfsnefndarinnar var miðuð við verðlag í mars 1975 og áætlaður hlutur ríkisins af kostnaði 280 millj, kr., sem dreifast skyldi á árin 1975–1980. Útlagður kostnaður vegna framkvæmdanna nú í árslok verður hins vegar um 303 millj. kr. Framlag ríkissjóðs til sama tíma hefur þó orðið 120 millj. eða tæplega 40%, Ef tímaáætlun verksins á að haldast óbreytt, þ.e. að unnt verði að taka slysadeildina í notkun á næsta ári, þyrfti að verja 235 millj. kr, til byggingarinnar á árinu 1978. Að óbreyttu hefði ríkissjóður þá greitt 180 millj. kr. af 538 millj, kr. kostnaði eða um 33.5%

Auðséð er að borgarsjóður fær með engu móti risið undir því að taka á sig þetta mikinn hluta ríkissjóðs og er það því eindregin ósk borgaryfirvalda, að framlag ríkissjóðs til byggingarinnar á næsta ári verði ákveðinn ekki lægra en 165 millj.“

Þess vegna hljóðar till. um 165 millj. En það er rétt að ég haldi áfram með næsta kafla bréfsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi er rétt að benda á, að á s.l. ári komu rúmlega 50 þús. sjúklingar á slysadeild Borgarspítalans, þar af voru 67.5% Reykvíkingar, en 32.5% eða rúmlega 16 þús. sjúklingar með búsetu utan Reykjavíkur og má raunar segja að hlutur þeirra geri stækkun deildarinnar nauðsynlegri en alla. Slysadeildin gegnir því mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn alla,“

Þetta vil ég taka undir.

Um 2. liðinn, þ.e. B-álmu, sem er lagt til að hækki úr 80 millj. í 88 millj., segir í bréfi borgarstjóra, með leyfi forseta:

„Til byggingar langlegudeildar (B-álmu) við spítalann er gert ráð fyrir 75 millj, kr. fjárveitingu á næsta ári, sbr. samning um þessa byggingu frá 14. sept. s.l.

Kostnaðaráætlun er miðuð við verðlag í mars 1977 og í samningnum er ákvæði þess efnis, að samningsaðilar muni stuðla að því, að framlög hækki í samræmi við raunverulega hækkun byggingarkostnaðar frá og með árinu 1978. Samkv. þessu þarf framlag ríkissjóðs að vera 88 millj. kr. á næsta ári.“

Í þriðja liðnum, er till. um að framlag til Arnarholts hækki úr 35 millj. í 70 millj., en í bréfi borgarstjóra segir svo, með leyfi forseta:

„Samningur milli ríkis og borgar frá 8. maí 1974 um byggingu 2. áfanga við sjúkrahúsið í Arnarholti gerði ráð fyrir að ríkissjóður greiddi árið 1978 16 millj., þó með fyrirvara um að samningsaðilar mundu stuðla að því, að framlög ríkissjóðs frá og með árinu 1975 hækkuðu í samræmi við raunverulega hækkun kostnaðar við bygginguna. Kostnaðaráætlun var miðuð við byggingarvísitölu 689 stig, en nú er vísitalan 3148 stig. Til að fullnægja þessu samningsákvæði þarf framlag ríkissjóðs á árinu 1978 þannig að verða 73 millj. kr.

Rétt er einnig að geta þess, að kostnaðaráætlun við bygginguna hefur hækkað verulega, þannig að ógreiddur hlutur ríkissjóðs miðað við n.k. áramót (85% frá 1. jan. 1974, en 60% af áður áföllnum kostnaði) verður væntanlega um 69.3 millj. kr. Til þess að eftirstöðvar af framlagi ríkissjóðs verði að fullu greiddar á árinn 1978, eins og samningurinn gerði ráð fyrir, þyrfti framlag ríkissjóðs á því ári að nema 154.3 millj. kr., þ.e. áðurnefndum 69.3 millj. kr. og 85% af áætlun 100 millj kr. framkvæmdar á næsta ári.“

Við höfum þó ekki gert till, um fulla upphæð þarna, en takmörkum hana við 70 millj. í staðinn fyrir 154.3 millj. Fjórði liður, d-liður brtt. okkar, er um að heilsugæslustöð í Árbæ hækki úr 5 millj. í 10 millj, Í rökum borgarstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Kostnaður við heilsugæslustöðina í Árbæjarhverfi áætlast rúmlega 85 millj, kr. Hlutur ríkissjóðs nemur 72.5 millj. kr., greiddar hafa verið 62.5 millj. kr. og nema því eftirstöðvar um 10 millj. kr., sem áætla þarf fyrir á árinu 1978.

Hér er því um eftirstöðvar að ræða og óskiljanlegt að ekki skuli vera gerð af fjvn. till. um 10 millj. kr. á þessum lið.

Í fimmta lið, e-lið, er till. um heilsugæslustöð í Breiðholti. Er sú till. tvíþætt: annars vegar að 3 millj. hækki í 20 millj. og orðið „hönnun“ falli brott. Um það segir — með leyfi forseta — í bréfi borgarstjóra:

„Unnið er að undirbúningi heilsugæslustöðvar í Breiðholti í (Mjódd), Nauðsynlegt er að fá framlag úr ríkissjóði til þessarar heilsugæslustöðvar, svo að unnt sé að fullgera hönnun og undirbúa framkvæmdir. Vísast um þetta efni til ályktunar borgarstjórnar frá 18. nóv. 1977 sem send var fjvn. líklegt framlag í þessu skyni er að lágmarki 20 millj. kr.“

Þá er síðasti liðurinn, f-liðurinn, sem hljóðar svo: „Grensásdeild, skuldagreiðsla 66 millj,“ Ég vil enn þá vitna í bréf borgarstjóra — með leyfi hæstv. forseta. Það er svo hljóðandi:

„Stofnkostnaður vegna byggingar Grensásdeildar nemur um 110 millj. kr, Tilnefndir fulltrúar heilbr.- og trmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn, og Reykjavíkurborgar gerðu sameiginlega till. um að ríkissjóður greiddi 66% af stofnkostnaðinum á árinu 1972–1977, sbr, bréf frá 15. des. 1971.

Ítrekuð tilmæli til fjvn. um fjárveitingu til þessa stofnkostnaðar hafa ekki borið árangur. Er þess nú enn farið á leit, að fjvn, ákveði fjárveitingu til þessarar byggingar.“

Þessa skuld höfum við verið að reyna að fá greidda frá því að núv, forsrh. var borgarstjóri, þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að hann leggur þessu lið.

Áður en ég lýk máli mínu um þessar brtt. okkar sex þm. Reykv. vil ég benda á það, sem reyndar kom fram í bréfi borgarstjóra, að þjónustudeildin eða slysadeildin er ekki siður fyrir landið allt en Reykvíkinga og nefndi ég skiptinguna í prósentum. B-álma sjúkrahússins er tengd framkvæmdum þjónustudeildarinnar að því leyti, að B-álman þarf að losa sjúkrapláss sem er í sjúkrahúsinu sjálfu, svo að þeir, sem koma slasaðir víðs vegar að, geti fengið legupláss á sjúkrahúsinu meðan þeir þurfa á því að halda.

Með stækkun þjónustudeildarinnar einnar skapast það vandamál. að ekki er nægilegt legupláss fyrir þá sjúklinga, sem þurfa að dvelja hér í Reykjavík, eða fyrir Reykvíkinga, sem þurfa að dvelja á sjúkrahúsi vegna slysa.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar till., þær skýra sig að miklu leyti sjálfar, en vona að aðild mín að flutningi þeirra verði ekki til þess að eyðileggja framgang þeirra.

Ég vil þá snúa mér að brtt, sem ég flyt á þskj, 285 um heiðurslaun. Það er brtt. við fjárlagafrv. Byrja ég þá á því að vitna — með leyfi hæstv. forseta — í lög um listamannalaun. 1. gr. hljóðar svo:

„Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn. Getur það bæði veitt tilteknum listamönnum ákveðinn heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni eina upphæð, sem síðan skal skipt af nefnd 7 manna, kosinni af Sþ, að afloknum alþingiskosningum, en í fyrsta skipti þegar eftir að lög þessi öðlast gildi. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa meira. En hér er ekki bundin sú tala listamanna sem hægt er að veita heiðurslaun. Ég vil taka undir það sem hv, frsm. menntmn.-manna, 1. þm. Norðurl. e., sagði, að það er engri rýrð, eins og hann orðaði það sjálfur, kastað á Alþ. þótt María Markan verði fyrir valinu. Ég vil taka undir þetta að sjálfsögðu og sé ekki hvaða hvöt hv. frsm. fann hjá sér til að orða þetta svona. Ég vil þá nota hans eigin orð, að það er engri rýrð kastað á Alþ. þótt nú verði fjölgað í heiðurslaunaflokki. Ég held að hlutfallslega sé minna veitt til þessa heiðurslaunaflokks nú en var, miðað við niðurstöðu fjárl., þegar þessi fjöldi, 12, var ákveðinn í þann heiðurslaunaflokk sem við erum að afgreiða. Ég sé því ekki ástæðu til þess að Alþ. fjölgi ekki í þessum heiðurslaunaflokki, annaðhvort í 15. eins og ég geri till, um, eða í 16 eins og till. gæti litið út ef bæði till. mín og till, hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar verður samþykkt. Hann hefur gert till. á öðru þskj. um tvo menn, en annar þeirra er þegar á lista, sem ég geri að till. minni. En till. mín hljóðar svo:

„Við 4. gr. 02 982 0601 Heiðurslaun listamanna samkv. ákvörðun Alþ. Fyrir „9 millj.“ komi: 11 millj. 250 þús.“

Ég hef bætt þremur afreksmönnum við þann lista, sem hv. menntmn. gerði till. um. Það eru þeir Hallgrímur Helgason, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari og Stefán Guðmundsson Íslandi. Ég get ekki sætt mig við það, að eftir því sem tímar liða, eftir því sem þjóðinni fjölgar, eftir því sem fjári. þenjast út og peningaflóðið verður meira, þá skulum við ekki, hafa efni á því að heiðra fleiri afreksmenn en 12. Annaðhvort heiðrum við afreksmenn, sem við teljum að hafi unnið til þess, eða við heiðrum enga. Ef fara ætti fram þjóðaratkvgr. um það, hvort Stefán Íslandi væri heiðurslauna verðugur eða ekki og ferill hans væri þannig að hann ætti skilið að fá viðurkenningu frá Alþ., þá trúi ég ekki öðru en þjóðin mundi samþykkja það. Sama nær til Sigurjóns Ólafssonar, sama nær til Maríu Markan og sama nær — ég er viss um það — til Hallgríms Helgasonar. Ég vona því, að hv. þm. leggi af þann hugsunarhátt sem kemur fram hjá hv. menntmn., að ekki sé hægt að fjölga í þessum heiðurslaunaflokki.