20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

1. mál, fjárlög 1978

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Það er aðeins í sambandi við till. sem hv. fjvn. flytur á þskj. 274, k-lið nr. 4. Þar kemur fram að heimila skuli Hafnabótasjóði að taka lán til að mæta skaða af sjógangi sem orðið hefur við suðurströnd landsins. Það kom fram í máli hv. frsm. og einnig hæstv. fjmrh., að hér eru hafðir í huga skaðar sem orðið hafa á allri suðurströndinni frá vestri til austurs að Hornafirði.

Það er öllum ljóst sem þekkja til, að Hornafjarðarós hefur lengi verið með erfiðustu siglingaleiðum á landinu og þar hafa bæði orðið miklir mannskaðar og skapast miklir erfiðleikar. Sú hætta hefur lengi blasað við, að í miklu suðvestanveðri gæti sú staða komið upp, að ósinn yrði tvískiptur og færi sitt hvorum megin við svo kallaða Hvanney. Það lá við, að þetta gerðist nú. Hins vegar standa vonir til að úr rætist í þetta sinn, en enginn vafi er á því, að ef veðrið hefði staðið aðeins lengur hefði þetta skeð. Það er samt ljóst, að þarna hefur orðið allmikill skaði, ekki þó á mannvirkjum, því að landið hefur lækkað og sandrifið, sem þarna er, hefur lækkað mjög verulega, þannig að þar flæðir yfir. Ljóst er því að þarna getur orðið skaði hvenær sem er sem ekki verður unnt að bæta þótt gífurlegir fjármunir komi til. Ég vil þess vegna þakka það, sem hér hefur fram komið, að á þessum stað sem og öðrum á suðurströndinni muni fara fram athugun og í framhaldi af því aðgerðir sem leiði til þess að bæta þá skaða, sem þarna hafa orðið, og koma í veg fyrir enn frekari skaða sem gætu orðið. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu, að nauðsynlegt er að þarna fari fram ítarleg athugun, og hún gæti tekið einhvern tíma. En mjög nauðsynlegt er að þarna hefjist aðgerðir sem allra fyrst, og ég er þess vegna þakklátur því sem komið hefur fram hjá hv. frsm. fjvn. og hæstv. fjmrh., að þetta mál verði tekið með við athugun á þeim vanda sem skapast hefur við suðurströndina.

Ég vil ekki að öðru leyti fjölyrða um þessi mál né það fjárlagafrv. sem liggur frammi. Ég vil aðeins láta það koma fram, að ég tel að sá greiðsluafgangur, sem stefnt er að með þessum fjárl., sé í algeru lágmarki og hefði þurft að vera verulega hærri. Skapast hafa miklar skuldir hjá Seðlabanka Íslands, sem ekki er endalaust hægt að bæta við, seðlabankar geta ekki endalaust fjármagnað ríkissjóði. Þess vegna er nauðsynlegt að greiða af þessum skuldum, til þess einnig að Seðlabankinn fái meira svigrúm til þess að þjóna atvinnuvegum landsins. Ég tel því mjög mikilvægt og nauðsynlegt, að þessi greiðsluafgangur nægi. Hann er í reynd ekki nægilegur við ríkjandi aðstæður, en hins vegar er ljóst að nokkur atriði eru ekki skýr í þessum efnum, t.d. sá niðurskurður sem á að verða á launaútgjöldum. Ekki hefur komið fram, á hvern hátt skuli að því staðið og á hvern hátt verði tryggt að svo verði.

Ég vildi, herra forseti, fyrst og fremst vekja athygli á þessu máli og þakka fjvn., hæstv. fjmrh. og einnig hæstv. samgrh. góðar undirtektir við vandamál við Hornafjarðarós.