20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

1. mál, fjárlög 1978

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. notaði mest af ræðutíma sínum til þess að gera aths. við málflutning minn í sambandi við þær brtt. sem ég mælti fyrir fyrr í kvöld. Hann fór þar ekki rétt með tölur, talaði um að þær brtt., sem ég flutti vegna sjúkrahússtofnana í Reykjavíkurborg, næmu 350 millj. kr. hækkun. Það er ekki rétt. Það eru 296 millj.

Ég efast ekkert um að hv. 11. þm. Reykv. segir það alveg satt, að hann hafi gert sitt besta til að þóknast þeirri ríkisstj., sem hann styður, í vinnu sinni fyrir fjvn. Ég held að öllum sé ljóst sem hlýddu á hans mál, að hann gernýtti alla sína hæfileika. Ég hefði viljað sjá koma fram till. um það t.d., að þær sjúkrastofnanir, sem standa hálfbyggðar og mikil fjárfesting og peningar eru fastir í, verði fullgerðar. Aftur á móti mættu nýjar fjárfestingar, eins og t.d. 220 millj. kr. fjárfesting í grunni fyrir þjóðarbókhlöðu, e.t.v. bíða í 1–2 ár. Það mætti bíða fjárfesting í laxastiga í Laxá í Þingeyjarsýslu. Það mætti líka athuga, hvort það væri eðlilegt að hátt á þriðja hundrað millj. kr. viðbótarsöluskattur af bensinhækkun ætti eingöngu að teljast framlag ríkisstj. eða ríkissjóðs til vegamála. Það væri kannske hægt að fara svolítið í gegnum till. fjvn. og gera till. um frestun á nýjum framkvæmdum til þess að ljúka þeim sem þegar hefur verið fjárfest í. Ég vil miklu heldur vita að sjúkrahússtofnanir séu fullbyggðar, þær verði tilbúnar til að taka við þeim sjúkratilfellum sem berast hvaðanæva af landinu, heldur en horfa á hálfkláraðan grunn vestur á Melum hér í Reykjavík.

Hv. 11. þm. Reykv. sneiddi að mér en ég læt þetta duga sem svar. Ég vil bara ítreka, að hann hefur áreiðanlega gert sitt besta og gernýtt hæfileika sína við tillögugerðina.