20.12.1977
Efri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978. Á fund n. kom Bjarni Bragi Jónsson forstöðumaður hagfræðideildar Seðlabanka Íslands og svaraði nokkrum fyrirspurnum. N. varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. leggur til að frv, verði samþykkt, en minni hl., hv. þm. Ragnar Arnalds og Jón Árm. Héðinsson, skilar sérálíti. Hv. þm. Albert Guðmundsson lýsti andstöðu við málið og mun gera grein fyrir afstöðu sinni við meðferð málsins.

Eins og fram kemur í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1978 og í grg. með fjárlagafrv. og eins og ljóst hefur verið um langt skeið hefur verðbólguþróun verið eitt erfiðasta vandamál efnahagsmála um nokkurt skeið. Þannig hafði miðað í því máli, að verðbólga hafði farið minnkandi og minnkað allverulega frá því sem var á árinu 1974, en nú er svo komið að mikil hætta er á að verðbólga aukist á ný. Við þessar aðstæður er svigrúm mjög lítið í efnahagsmálum og sveigjanleiki. Það er ljóst, að við höfum tekið mikla áhættu á undanförnum árum og spurningin er fyrst og fremst sú, hversu mikla áhættu við getum tekið. Þolir þjóðarbúið aukna verðbólgu, þolir þjóðarbúið aukna skuldasöfnun við útlönd eða þolir þjóðarbúið meiri hallarekstur ríkissjóðs?

Öll eru þessi hugtök að sjálfsögðu nátengd. En þegar menn ræða þessa hluti aðskilið eru flestir þeirrar skoðunar, að þjóðarbú okkar og þjóð þoli ekkert af þessu. En ef menn eru sammála um það, hvað ber þá að gera? Ég er þess fullviss, að þessu verði ekki komið í fullt lag og fullan jöfnuð nema menn færi verulegar fórnir, og m.a. geta slíkar fórnir verið félagslegar og pólitískar. Verulegar fórnir á þann hátt hafa menn ekki verið tilbúnir að færa, enda ávallt áhorfsmál hversu hratt skuli farið. En lágmarkskrafan hlýtur að vera sú að standa í stað eða þokast áfram á leiðinni til minni verðbólgu, til jafnvægis í viðskiptum við útlönd og hallalauss ríkisbúskapar. Ríkisbúskapurinn hefur verið þannig nú að undanförnu, að allbærilegur jöfnuður var á s.l. ári, en áður höfðu hlaðist upp skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana hjá Seðlabanka Íslands, og nema þær skuldir nú u.þ.b. 15 miljörðum kr. Ljóst er að veruleg áhætta hefur verið tekin með þessum hallarekstri og slíkur hallarekstur hefur ýtt undir verðbólguþróun. Frammi fyrir þessum vandamálum standa menn. Tekjuvandi ríkissjóðs er mikill og hefur verið mikill. Þess vegna hefur verið ljóst um nokkurt skeið að verulegra breytinga er þörf og hefur verið þörf á tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs, og eru það mikil vonbrigði hversu hægt hefur miðað í þeim efnum. Ljóst er að stefna þarf að því að greiða meira af skuldum við Seðlabankann, en slíkt getur reynst erfitt nema tekjuöflunarvandamál ríkissjóðs séu leyst.

Lengi hefur verið stefnt að því að gera breytingar á skattalögum til þess að gera tekjuöflunarkerfið hæfara til þess að takast á við slík vandamál sem verðbólguvandamál, og mikilvægur liður í því efni gæti verið staðgreiðslukerfi skatta. Ég held að ljóst sé hins vegar að gífurlegt verk, mikil vinna og undirbúningur liggur í því að koma slíku kerfi á, og ég tel, eins og málum er nú komið, mjög vonlitið að slíkt kerfi geti komist á á árinu 1979 og reyndar nær útilokað.

Eitt af þeim markmiðum, sem sett eru fram í þessari lánsfjáröflun, er að koma á jöfnuði í viðskiptunum við útlönd. Koma fram í lánsfjáráætlun þrjú markmið sem ber þar efst. Í fyrsta lagi, að verðbólguhraði og viðskiptahalli verði ekki meiri 1978 en 1977. Í öðru lagi, að hlutur innlends sparnaðar í heildarfjármögnun framkvæmda- og rekstrarlána verði aukinn, svo að erlendar lántökur fari ekki fram úr afborgunum eldri lána, auk þeirrar eflingar gjaldeyrisstöðunnar sem nauðsynleg er talin. Í þriðja lagi, að þessu marki verði náð samtímis öruggri atvinnu.

Fyrsta markmiðið er út af fyrir sig þess eðlis að ef menn ná ekki því marki, þá eru menn á vissan hátt að missa hlutina út úr höndunum. Meiri verðbólguhraði árið 1978 en 1977 og meiri viðskiptahalli mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Markmið númer tvö leiðir reyndar af markmiði númer eitt. Ef viðskiptahallinn á að verða svipaður og á árinu 1977 hlýtur það að krefjast þess, að hlutur innlends sparnaðar í heildarfjármögnun framkvæmda verði aukinn.

Þriðja markmiðið, að þessu verði náð samtímis öruggri atvinnu, skulum við vona að geti staðist, því að það markmið hefur ávallt verið sett ofar öllum öðrum markmiðum í stjórn íslenskra efnahagsmála á s.l. árum.

Við þessar aðstæður er sett fram lánsfjáráætlun sem hefur það markmið að skuldir við útlönd aukist ekki meira en nemur viðskiptahalla á þessu ári. Gert er ráð fyrir því, að viðskiptahalli á næsta ári verði u.þ.b. 4 milljarðar og spáin fyrir þetta ár hefur verið á þá lund. Hins vegar má búast við því, að þessi viðskiptahalli verði eitthvað meiri, aðallega vegna allmikillar birgðasöfnunar í landinu.

Þessi markmið, þegar þau eru sett fram, þýða einkum tvennt: Í fyrsta lagi það að minna fjármagn verður til framkvæmda og ráðstöfunar, bæði hjá hinum ýmsu stofnlánasjóðum og íslenska ríkinu. Þetta kemur niður á ýmsum framkvæmdum og krefst þess, að þar sé valið á milli. Auðvitað er slíkt val erfitt og erfitt að gera upp á milli ýmissa nauðsynlegra framkvæmda, og þess vegna hlýtur slík ákvörðun að koma við ýmsar annars ágætar framkvæmdir. Í öðru lagi þýðir þetta markmið það, ef þær lágmarksframkvæmdir eiga að fara fram sem settar eru upp samkvæmt lánsfjáráætlun, að beina verður innlendu fjármagni inn á þær brautir.

Vandamál á innlendum fjármagnsmarkaði eru mikil fyrir, það er alveg ljóst, og þess vegna er ekki mikið svigrúm á þeim fjármagnsmarkaði. Það var lengi svo, að innlánsbinding í Seðlabanka Íslands var meiri, þ.e.a.s. það, sem bankarnir eru skyldaðir til að festa í Seðlabankanum, hefur lengst af verið meira en svokölluðum afurðalánum nemur. Nú er svo komið, að afurðalánin eru um 4.7 milljörðum hærri en innlánsbindingin. Þetta getur Seðlahanki Íslands að sjálfsögðu ekki fjármagnað nema þá með aukinni peningaútgáfu eða auknum erlendum lánum. Þessi þróun er í beinu samhengi við það, að hlutdeild sparnaðar í hlutfalli við þjóðartekjur hefur farið mjög lækkandi og var um s.l. áramót u. þ. b. 23% af þjóðartekjum, en hafði verið tæp 40% 1971. Ekki er enn þá ljóst hver þróunin verður á þessu ári, en nokkrar vonir virðast standa til þess, að þetta hlutfall standi nokkurn veginn í stað. Við þessar aðstæður og þessi markmið er þessi lánsfjáráætlun lögð fram og þar með frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku.

Gert er ráð fyrir í 3. gr. frv., að skyldur verði lagðar á lífeyrissjóði í landinu til að taka þátt í þessari lánsfjáráætlun. Svo hefur verið um langt skeið, að lífeyrissjóðirnir hafa gert það, en hér eru lagðar á lífeyrissjóðina ákveðnari kvaðir en hingað til hefur verið. Það kemur fram í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun, að heildarráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er áætlað á næsta ári, 1978, um 17 milljarðar kr, Gert er ráð fyrir að fjárfestingarlánasjóðirnir fái til ráðstöfunar, samkv. þeim töflum sem þar koma fram, um 30% af ráðstöfunarfé, eða 5.1 milljarð kr., og ýmsir sjóðir aðrir fái um 735 millj. kr. En þá hafa lífeyrissjóðirnir til ráðstöfunar til einstaklinga og innistæðu- og sjóðbreytinga um 11 milljarða 165 millj. kr. Þetta er nokkru hærra hlutfall en mun nást á þessu ári. Það hefur komið fram, að gert er ráð fyrir að stofnlánasjóðirnir, Framkvæmdasjóður, Byggingarsjóður ríkisins og fleiri sjóðir, muni kaupa 3 milljarða 150 millj. af skuldabréfum af lífeyrissjóðunum eða um það bil 26%. En í þeirri lánsfjáráætlun, sem hér er lögð fram, kemur fram að þetta hlutfall muni verða um 34.3%. Það er að sjálfsögðu engan veginn fullljóst hversu mikið fjármagn stofnlánasjóðirnir munu fá frá lífeyrissjóðnum. Þar kemur ekki aðeins til sú skylda, sem er á þá lögð, heldur verður þar á margan hátt um samningsatriði að ræða.

Það kemur fram í þeirri brtt. sem hæstv. forsrh. flutti í Nd., að ef sérstakar fjárhagsástæður einstakra lífeyrissjóða krefjast getur fjmrh. lækkað framangreint hlutfall verðbréfakaupa af ráðstöfunarfé. Hér mundi t.d. vera um að ræða lífeyrissjóði sem hafa mikla greiðslubyrði og geta af þeim sökum ekki staðið við slíkar skuldbindingar, t.d. vegna þess að eftirlaunahlutfall er hátt eða þá að fjárhagsástæður þeirra að öðru leyti eru slæmar, erfitt að ná fjármagni inn, það dreift víða og erfitt að stiga þetta skref í einu vetfangi.

Það er þess vegna ljóst, að hér þarf að verða allmikil aðlögun og ýmsir samningar að eiga sér stað, enda gerir lánsfjáráætlun alls ekki ráð fyrir að fá til ráðstöfunar samkvæmt lánsfjáráætlun 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna.

Í 4. gr. þessa frv. er heimild til að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán vegna Landsvirkjunar í 5. gr., lán vegna Hitaveitu Suðurnesja og í 6. gr. er heimild til handa fjmrh. að taka lán erlendis fyrir hönd ríkissjóðs í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga erlend lán ríkissjóðs þar sem lánstími er talinn of stuttur miðað við eðlilegan afskriftartíma þeirra mannvirkja sem fjármögnuð hafa verið með viðkomandi lánum. Skal ráðh. hafa samráð við fjvn. áður en til lántöku kemur samkv. þessari grein. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að leita eftir því að ná hagkvæmari lánum í stað þeirra lána sem ríkissjóður hefur fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að gera nánari grein fyrir þessu frv. Það er hins vegar ljóst, að þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar nú að undanförnu með því að gera tilraun til að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum og leggja fram lánsfjáráætlun þar sem ýtrustu varkárni er gætt, munu ekki á neinn hátt að mínum dómi leysa öll okkar efnahagsmál. Við stöndum eftir sem áður frammi fyrir vanda, m.a. atvinnuveganna, sem er ekki séð fyrir endann á hvernig verður hægt að bregðast við.

Ég vil aðeins ítreka það, herra forseti, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.