20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég held það orki ekki tvímælis, að loðnunefnd hafi innt af höndum nauðsynleg störf í sambandi við fyrst og fremst vetrarsíldveiðina á loðnunni hjá okkur, og ég þykist sjá, að í ýmsum greinum og meiri háttar atriðum sé þetta frv., sem hér er fjallað um, líklegt til þess að verða okkur til ávinnings við loðnuveiðarnar. En ég hlýt að taka undir gagnrýni hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar á því, með hvaða hætti þetta mál er nú lagt fyrir okkur til afgreiðslu.

Sannast sagna læðist að manni grunur um að jólaösin, jólahríðin sé notuð til þess að fleyta á land ýmsum málum sem menn vilja gjarnan koma í gegnum Alþ., en vilja hlífa sér við að standa í þrasi út af.

Ég ítreka að ég þykist sjá að þetta frv. sé líklegt til þess að verða okkur til gagns. Við fáum hins vegar ekki tækifæri til að bera efni þess undir ýmsa aðila, sem málið snertir, og ekki heldur tóm til að íhuga ýmis vafaatriði í sambandi við það, sem virðast þó blasa við.

Við skákum við afgreiðslu þessa frv, í skjóli þess, sem ég vona að satt muni reynast, að loðnunefnd verði skipuð hinum ágætustu, framsýnustu og góðviljuðustu mönnum. Við höfum ekki ástæðu til að efast um að hún verði æ skipuð góðum og gáfuðum mönnum. Þó virðist það hafa hvarflað að einhverjum í Nd., þegar fjallað var um þetta frv., að vissara væri að slá þar varnagla. Þar er gerð sú breyt, á frv. sem mér virðist í útleggingu beinlínis þýða það, að loðnunefnd sé þó bannað að etja skipum og áhöfnum út í opinn dauðann, Þeim þótti þurfa að taka það sérstaklega fram, að taka yrði tillít til veðurs í sambandi við þessar ráðstafanir.

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst sá varnagli hafa verið óþarfur. Hitt er ljóst mál. að eins og vetrarvertíðinni á loðnunni er háttað hér við land, þá eru það góðviðrisdagarnir eftir að loðnan er gengin undir ströndina sem mestu ráða um aflabrögðin á vetrarvertíðinni, og þá er náttúrlega mikið í húfi að skipin, eftir að þau hafa fengið hleðslu, komist sem fyrst til hafnar til að geta losað sig við farminn og komist út aftur, Þá kynni ýmsum að þykja súrt í broti ef þeir þurfa að sigla fram hjá mörgum höfnum þar sem þróarrými er. Einhvern grun hef ég um það, að þá kunni að falla um borð í skipi og skipi óþinglegt orð og orð um yfirstjórnendur þessara mála.

Hvað um það, ég ætla ekki að tefja fyrir afgreiðslu þessa máls. Það hefði verið hægðarleikur að leggja það fram miklu fyrr, Við höfðum a.m.k, tóm til þess hér í þessari hv. d. á fyrstu vikunum í haust, þegar við vorum látnir dorma hérna verklausir, að fjalla allitarlega um svona mál, og hefði þá jafnframt gefist tími til að leita álits sérfræðinga á því. En sem sagt, til þess er ekki tóm að þessu sinni. Ég vil ekki tefja afgreiðslu þessa máls, en óska þess af hæstv, ráðh., að hann íþyngi okkur ekki framvegis með svona frv. svo síðla á ýli, heldur kjósi til þess haustnæturnar þegar annir eru minni og við fáum tækifæri til þess að fjalla betur um málið.