20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hygg að það séu tæp tvö ár síðan ég flutti frv. varðandi breyt. á lögum um löndun á loðnu og það í þessari hv, þd. nokkru fyrr í desembermánuði. Það frv. dagaði uppi í þessari þd. vegna þess að ekki var talinn tími til þess að afgreiða það, en nægur tími að afgreiða það eftir jólaleyfi það ár. Það mál dagaði uppi á þingi. Ég ætlaði ekkert frv. að flytja um þessi efni og hefði alls ekki gert, hvorki nú né fyrr í haust, ef ekki hefði komið samhljóða álit allra þessara aðila sem hér eiga hlut að máli, Það álit kom frá þeim á föstudaginn var, en kom í mínar hendur á mánudagsmorgun og búið var að prenta frv. klukkan tvö á mánudag og leggja það fyrir Nd. Alþ. Fyrr gat það ekki gengið, eftir að það kom frá þessum mönnum. Hins vegar er d. algjörlega í sjálfsvald sett, hvort hún verður við því að afgreiða málið eða ekki.