24.10.1977
Neðri deild: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar ábendingar sem mér þykir rétt að koma fram með við þessa umr., einkum og sér í lagi vegna þess að sá nm., sem skipaður var af fjvn. til setu í þeirri n., sem frv. þetta samdi, hv. þm. Pálmi Jónsson, er hér ekki viðstaddur. En hann hafði mjög mikið og náið samráð við fjvn. í fyrravetur um störf sín, og ég lít svo á að fjvn.-menn hafi a.m.k. ekki verið andvígir því sjónarmiði sem fram kemur í minnihlutaáliti þeirra Pálma Jónssonar og Arnar Marinóssonar varðandi fjölda sinfóníuhljómsveitarmanna. Auðvitað hafa menn getað verið sammála Pálma Jónssyni af ýmsum ástæðum, verið sammála honum vegna þess að menn hafi talið óþarfa að fara eins hátt með fjölda tónlistarmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar og frv. gerir ráð fyrir, og ennfremur geta menn verið sammála honum af sömu ástæðu eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason greindi frá áðan.

Ég tel að það sé eðlilegt og sjálfsagt af alþm. að reyna að gera sér í hugarlund hvað ýmsar framkvæmdir kosta, hvort sem þær eru á sviði menningar- og menntamála eða á einhverjum öðrum sviðum. Að reyna að gera sér í hugarlund hvað kostar að reka sinfóníuhljómsveit er að sjálfsögðu ekki andstætt menningarlífi eða áhuga á menningarmálum. Við Íslendingar erum fámenn þjóð. Við þurfum í mörg horn að líta og við hljótum að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig við förum best með fé okkar. Hv. þm. Ingvar Gíslason sem talaði hér áðan, er að vísu varaformaður Kröflunefndar, en ég tel ekki rétt að þau vinnubrögð, sem sú ágæta n. hefur haft, verði almennt notuð í sambandi við framkvæmdir á Íslandi, hvort heldur um er að ræða atriði er varðar menningarmál eða önnur mál.

Ég vil einnig láta það koma fram, að einn af þáttum í starfi fjvn. er einmitt að taka ákvarðanir um mannahald opinberra stofnana og fyrirtækja. Hér er langt í frá um að ræða eina verkefni fjvn., heldur lið í verkefnum hennar, þannig að stofnanir og fyrirtæki leggja fram fyrir fjvn. erindi sín og óskir byggðar á starfsáætlun sem þau hafa gert fyrir hvert ár, og einn þáttur í starfsemi fjvn. er að sjálfsögðu að taka afstöðu til þess, hverju af þessum óskum n. treystir sér til að sinna, þ. á m. hversu marga starfsmenn hún treystir sér til þess að kosta úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Það var þetta sem ég heild að hafi vakað fyrir Pálma Jónssyni í minnihlutaáliti hans með þessu frv., þ.e.a.s. að honum fyndist eðlilegast að fyrir hvert ár gerði Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkurs konar verkefnaáætlun þar sem fram kæmi hvaða stórverkefni Sinfóníuhljómsveitin hygðist hafa uppi á því starfsári, þ. á m. hversu marga hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitin þyrfti til þess að sinna þeim verkefnum. Síðan væri það að sjálfsögðu fjvn. að taka afstöðu til þess, hvort n. teldi ráðlegt að ráðast í þær framkvæmdir á þessum sviðum sem Sinfóníuhljómsveitin óskaði eftir, og þá um leið, hversu marga hljóðfæraleikara mætti ráða til ársins. Að ákveða fasta tölu, eins og lagt er til að gert verði í þessu frv., er í raun og veru að festa lágmarksfjárveitingu til þessarar stofnunar, raunverulega án tillits til þess, hvort verkefnaþörfinni sé fullnægt með 65 hljóðfæraleikurum, hvort þeir þurfa að vera færri eða fleiri. Hér er um að ræða að festa ákveðnar lágmarksfjárveitingar til hljómsveitarinnar, festa þá lágmarksfjárveitingu sem nemur launakostnaði þeirra starfsmanna sem hér um ræðir.

Ég vil aðeins biðja menn í því sambandi að hugleiða rekstrar- og efnahagsreikning Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir árið 1976, á bls. 8 og 9 í þessu frv. Þar kemur fram að launakostnaður fastráðinna starfsmanna hljómsveitarinnar er um 107 millj. af alls 135.5 millj. kr. útgjöldum hljómsveitarinnar. Meginhluti þess kostnaðar sem á milli ber, þ.e.a.s. tæplega 30 millj. kr., er annar launakostnaður: launakostnaður vegna lausráðinna manna, launakostnaður vegna ómældrar yfirvinnu, vegna aukastarfa, vegna vaktaálaga o.s.frv. Ég held það megi tæplega gera ráð fyrir því, að þessi launakostnaður minnki mjög verulega, jafnvel þó að hinn fasti launakostnaður sé í lögum ákveðinn hærri en hann hefur verið.

Mér finnst að sjálfsögðu mjög eðlilegt að þessi atriði séu skoðuð jafnhliða öðrum, og ég vil aðeins biðja menn að gera sér t.d. grein fyrir því, þegar rætt er um kostnað í þessu sambandi, að á bls. 8 í þessu frv., í rekstrar- og efnahagsreikningi hljómsveitarinnar fyrir árið 1976, kemur í ljós að Ríkisútvarpið greiðir um 46.08 millj. kr. launakostnað vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar, þ.e.a.s. 28% framlag upp á 36 millj. og laun fastráðinna starfsmanna greidd af Ríkisútvarpinu 10 millj. kr. Þá er sjálfsagt að menn spyrji hvað komi í staðinn. Í staðinn kemur það, að Ríkisútvarpinu heimilast að senda út beint frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands til landsmanna allra. Ég veit ekki til þess, ég verð þá væntanlega leiðréttur ef ég fer rangt með, að inni í þessum framlögum Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitarinnar sé annað frá Sinfóníuhljómsveitarinnar hálfu heldur en þetta, að Ríkisútvarpið útvarpi frá hljómleikum sem haldnir eru í Háskálabíói í Reykjavík. Ef rétt er, þá tel ég að hér sé um að ræða eitt það dýrasta útvarpsefni, a.m.k. miðað við lengd flutnings, sem um getur. Þetta er auðvitað atriði, sem menn verða líka að velta fyrir sér. Er eðlilegt að Ríkisútvarpið borgi jafnmikið fé og hér um ræðir fyrir að fá að útvarpa frá hljómleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar? Er ekki eðlilegra að ríkissjóður sjálfur eða aðrir aðilar taki af útvarpinu þennan bagga?

Þá vil ég enn fremur benda á, að í 9. gr. í þessu frv. er sagt að Sinfóníuhljómsveit og Þjóðleikhús eigi að hafa samvinnu um flutning söngleikja, þannig að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar fullnægi hluta af starfsskyldu sinni með vinnu á vegum Þjóðleikhússins. Eftir því sem ég best veit mun allur eða mestallur hljómlistarflutningur félaga í Sinfóníuhljómsveitinni á vegum Þjóðleikhússins nú vera greiddur sérstaklega af Þjóðleikhúsinu fyrir utan föst laun. Með því móti, sem segir í 9. gr., er raunverulega verið að — ja, ég veit ekki hvort það er rétt að orða það svo — réttlæta það að Þjóðleikhúsið taki á sig 10% kostnaðar, þ.e.a.s. að með þessu er verið að gefa í skyn að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eigi að fullnægja hluta af starfsskyldu sinni með vinnu á vegum Þjóðleikhússins. En er það eðlilegt? Er rétt og eðlilegt að búast við að þetta geti orðið? Nú vitum við að auðvitað þarf Þjóðleikhúsið á hljómlistarmönnum að halda við flutning söngleikja og smærri verkefna af öðru tagi. En það er mjög sjaldan sem Þjóðleikhúsið þarf á öllum starfsmönnum Sinfóníuhljómsveitarinnar að halda, og ég held meira að segja að hljómsveitargryfjan í Þjóðleikhúsinu sé svo lítil, að það geti af tæknilegum ástæðum ekki orðið að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar tækju allir þar þátt í tónlistarflutningi. Ef af 9. gr. yrði í framkvæmd, þá mundi hún koma þannig út, að ákveðinn hluti starfsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar, ákveðnir hljóðfæraleikarar, mundu þurfa að vinna hluta af starfsskyldu sinni á vegum Þjóðleikhússins með tónlistarflutningi þar. Hins vegar yrðu aðrir starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar sem aldrei mundu stíga þar inn fyrir dyr. Ég er hræddur um að þetta yrði í framkvæmdinni ákaflega erfitt samstarf, m.a. vegna þess að starfsmenn sinfóníuhljómsveitarinnar sjálfir mundu una því illa að sumir þeirra þyrftu að ganga erinda Þjóðleikhússins í vinnutíma sínum, en aðrir ekki, þannig að ég er hræddur um að ákvæði þessarar 9. gr. verði raunverulega aldrei framkvæmd þrátt fyrir setningu þessara laga sem hér um ræðir, einfaldlega vegna þess að á það hefur reynt að þau eru ekki framkvæmd í dag.

Þetta eru aðeins ábendingar, sem ég vildi koma fram með við þessa umr. málsins. Ég vil taka það fram í annað sinn, að það er ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti Sinfóníuhljómsveit Íslands eða starfsemi hennar, síður en svo, heldur vegna hins, að ég tel það bókstaflega skyldu okkar alþm. að reyna að gera okkur grein fyrir því, hver kostnaður verður af málum sem við erum að afgreiða frá þessari stofnun og hver eðlilegt sé að greiði þann kostnað.