24.10.1977
Neðri deild: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í n. þeirri, sem mun fá frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands til meðferðar, mun ég ekki lengja þessa umr. með því að ræða sérstaklega um einstök atriði í frv. En ég vil ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni yfir að þetta frv. er fram komið á Alþ. Eins og hv. 9. þm. Reykv, vék að, hefur oft verið dökkt í álinn hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á því tímabili sem hún hefur starfað, og ég tel ekki ofsagt, að að öðrum ólöstuðum muni hann eiga einn drýgstan þátt í því, að hún hefur orðið eins lífsseig og raun hefur á orðið. En þar hafa unnið að margir góðir menn, og nú er svo komið, eins og þessar umr. bera með sér, að það er almannarómur hér á Alþ. að Sinfóníuhljómsveitin sé ómissandi menningarstofnun í þjóðlífinu, en þess er ekki mjög langt að minnast, að það var öðru nær en að einróma væri lokið upp um það munni á Alþ. að sinfóníuhljómsveit bæri að starfa og hana bæri að efla. En þetta er eitt af því sem áunnist hefur með því ötula starfi sem tónlistarmennirnir og stuðningsmenn þeirra hafa unnið síðustu áratugi.

Það er fagnaðarefni að þetta frv. er fram komið, og ég vil leyfa mér að taka undir þá von, sem hæstv. menntmrh, lét í ljós, að það fái afgreiðslu á þessu þingi svo hægt verði að taka tillit til ákvæða þess við afgreiðslu fjárlaga.

En það, sem ég hef fyrst og fremst ætlað mér að gera hér að umtalsefni, eru ummæli sem fallið hafa í þessum umr. og ég tel ekki að rétt sé að láta fram hjá sér fara athugasemdalaust. Annars vegar eru það ummæli í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., sem ég fékk ekki skilið á annan veg, þótt hann léti viðurkenningarorð falla um starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, en að hann teldi í rauninni eftir það fé, sem til hennar væri varið og ætlunin væri að verja, vegna þess að hann teldi svo illa búið að leiklistinni í landinu að þar væri í rauninni frá henni tekið. Hv. þm. vitnaði í tölur í nýkomnu fjárlagafrv. og ég skal gera það líka. Þar er liður 973, Þjóðleikhúsið, framlög, það eru 359 millj. 53 þús. Næsti liður, liður 974, er Sinfóníuhljómsveitin. Þar er upphæðin 82 millj. 236 þús. Til Þjóðleikhússins er sem sagt ætluð fjórfalt hærri upphæð og ríflega það heldur en til Sinfóníuhljómsveitarinnar, svo þarna get ég alls ekki fallist á að leiklistinni sé skipað á óæðri bekk en tónlistinni, og skal ekki út í það farið, sem mörgum hefur orðið hált á, að reyna að gera upp á milli listgreina og bera þær saman í tignarröð. Ég tel að þessar tölur sýni, að það sé ekki réttmætt að halda því fram, að framlög til Sinfóníuhljómsveitar Íslands séu á kostnað hliðstæðra framlaga til meginstofnunar þjóðarinnar sem leiklist annast, því vissulega eru Þjóðleikhús og Sinfóníuhljómsveit að vissu leyti hliðstæðar stofnanir, þær hljóta að vera máttarstólpar hvor sinnar listgreinar í landinu.

En annað atriði í máli hv. 5. þm. Vesturl. er þó ekki síður aths. vert. Hér í borginni kemur út blað sem nefnist Þjóðviljinn, og við 5. þm. Vesturl. erum vel kunnugir frá fornu fari vegna starfa okkar við það málgagn. Í þessu blaði hefur þess gætt á síðustu missirum, að upp eru risnir spámenn, sem lítt gætti í okkar tíð á þeim vígstöðvum, sem eru svo harðir í fræðunum, að þeir hafa kenningu á reiðum höndum um alla hluti og hafa skilið efnislega söguskoðun á þann veg, að enginn hlutur sé rétt metinn nema það sé gert fyrst og fremst frá stéttarlegu sjónarmiði. Sem dæmi um það, út í hverjar ógöngur menn geta lent þegar þeir taka svona kreddutrú, má nefna það, að ekki eru margir mánuðir síðan í þessu blaði var lofsamlega getið kvikmyndar einnar, og hún hafði verið kynnt í sama blaði af hálfu aðstandenda og höfunda og gerð fyrir því sérstök grein hversu hið stéttarlega sjónarmið væri handterað í sögunni af Ólafi liljurós. Höfundur gat þess, að hið stéttarlega sjónarmið hefði verið leitt til öndvegis í þessari túlkun á Ólafi liljurós á þann hátt, að þar væru sýndar þrár alþýðunnar til saurlífis og gripdeilda. Þótti mörgum að hið stéttarlega sjónarmið væri alllangt leitt í þessu dæmi. Nú virðist mér hv. 5. þm. Vesturl. kominn a.m.k. með aðra litlu tána ofan í þá gryfju sem getur gleypt menn svona hremmilega eins og dæmið um kvikmyndina um Ólaf liljurós sýnir. Hann vill gera það að mælikvarða á starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og líklega annarra stofnana sem við listir fást, hver sé stéttarleg samsetning þess fólks sem sækir hljómleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, og þá vafalaust líka sýningar í Þjóðleikhúsinu og hjá leikfélagi Reykjavíkur. Þetta tel ég stórhættulegt sjónarmið, og ég vænti þess, að hv. 5. þm. Vesturl. sjái að sér áður en hann fer lengra á þeirri braut, að framlög og stuðningur við listgreinar skuli fara eftir því hvaða þjóðfélagshópar sérstaklega njóti þessara listgreina. Vissulega er æskilegt, og það er mín reynsla, að sú sé raunin, að tónlist jafnt og aðrar listir njóta hylli fólks af öllum stigum í þjóðfélaginu. En að ætla að fara að gera upp á milli listgreinanna eftir því, í hvaða tekjuflokk eða metorðaflokki í þjóðfélaginu njótendur þeirra skiptast, það er braut sem ég tel leiða til ófarnaðar.

Það er líka mála sannast, að ef á að fara að reyna að draga tónlist og leiklist algjörlega sína í hvorn dilkinn, þá endar það líka í ófarnaði, því að frá upphafi vega hafa þessar listgreinar stutt hvor aðra. Tónlist hefur komið við sögu við hvers konar leiklist, hvort heldur orð eru þar við höfð eða um leikræna líkamstjáningu er eina að ræða, eins og í dansi og látbragðsleik. Enda er gert ráð fyrir því í frv., sem fyrir liggur að hluti af vinnuskyldu sinfóníuhljómsveitarmanna skuli leystur af hendi með störfum fyrir Þjóðleikhúsið. Ég get ekki fallist á það með hv. síðasta ræðumanni, 8. landsk., að þetta hljóti endilega að koma svo misjafnt niður á tónlistarmönnum að slíkt verði óframkvæmanlegt af þeim sökum, því að kröfur leikhússins eru svo fjölbreyttar, að þó að eitt leikverk og tónlist, sem því fylgir, krefjist ákveðinna hljóðfæraleikara, þá krefst tónlist með öðru verki allt annarra hljóðfæraleikara, svo að þetta er að mínu viti ekki gild ástæða til þess að þetta frv. ákvæði þurfi að stranda.

En enn er eitt, sem hv. 5. þm. Vesturl. klykkti út með í ræðu sinni, að það væri eiginlega til mikils vansa að Sinfóníuhljómsveitin væri sífellt að leika gamla meistara og þar á ofan steindauða, en ekki íslensk lifandi tónskáld. Ég sé síður en svo ástæðu til að amast við því, að í tónleikasal komi mjög við sögu fyrri menn af liðnum kynslóðum sem aldirnar hafa sýnt að hafa borið af öðrum í listferli þeirra þjóða sem aðhyllast sömu tónlistarmenningu og við. Þetta á ekki síður við um leikhúsið, eins og hv. þm. hlýtur að sjá af sinni miklu þekkingu á leiklist, ef hann leiðir að því hugann, þá hefur hv. þm. sýnt það með vali tónlistar, sem hann hefur sjálfur annast við sín leikverk, að hann er ekki fyrst og fremst að hlaupa til íslenskra tónskálda, sem nú starfa, til að afla þeirrar tónlistar. Hann fer að vísu ekki heldur til gömlu meistaranna, en til samtíðarmanna þeirra, þeirra tónlistarmanna í Írlandi og Bretlandi sem á miðöldum og á Elísabetartímanum og á tímum Karlanna 1. og 2. bjuggu til tónlist sem lifað hefur á vörum fólksins alla tíð síðan og hefur hrifið hv. 5. þm. Vesturl. svo, að hann hefur gert hana að meginuppistöðu í leikverkum sínum, ásamt auðvitað þeim texta sem hann hefur samið af sinni kunnu leikni.

Ég vil einnig vara sérstaklega við því viðhorfi, sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf., að það skipti ekki höfuðmáli fyrir starfsemi sinfóníuhljómsveitar hvort þar starfi fleiri menn eða færri. Hann komst svo að orði, ef ég hef tekið rétt eftir, að tiltölulega myndarleg sinfóníuhljómsveit gæti leyst af hendi störf sín með tiltölulega fáum hljómlistarmönnum. Nú veit ég ekki hvað hann telur vera tiltölulega myndarlegt og tiltölulega fáa menn í þessu sambandi. En hann útskýrði þetta með því, að þarna þyrfti bara að reyna meira á hvern einstakling og af því hefðu þeir bara gott að spreyta sig á þennan hátt. Það er ekki ástæða til að efast um það, að í Sinfóníuhljómsveit Íslands er fjöldi afbragðs tónlistarmanna. Það hafa menn fengið að reyna á liðnum árum sem sótt hafa tónleika hennar. En að þeir séu slíkir afreksmenn, að þar séu t.a.m. fiðluleikarar sem hafi hæfileika til að leika á tvær eða fleiri fiðlur samtímis, því á ég mjög bágt með að trúa, svo ekki sé nú talað um sellóleikara sem tækju að sér tvö selló eða blásara sem tækju að sér tvær eða fleiri túbur. Þó að sjálfsagt sé að gera háar kröfur og strangar til listamanna, þá er fjarstæða að ætlast til þess að þeir geri það sem allir sjá við nánari athugun að er gjörsamlega ómögulegt.

Mergur málsins varðandi mannfjölda í sinfóníuhljómsveit er auðvitað sá, að það fer eftir fjölda hljómlistarmanna, sem hljómsveitin ræður yfir, hvaða verk hún getur valið. Og þetta hefur breyst í sögu tónlistarinnar. Á 18. öld var samin sinfónísk tónlist sem gjarnan má flytja með sinfóníuhljómsveitum sem ern skipaðar tiltölulega fáum mönnum. Smátt og smátt þráaðist gerð sinfónískrar tónlistar á þann veg, að meiri og meiri fjölbreytni og margbreytni varð í hljóðfæravali. Það var sóst eftirfleiri strengjaleikurum, það var sóst eftir margháttaðri blásturshljóðfærum á 19. öldinni, og þetta hefur haldið áfram í sama farvegi, svo að sú tónlist þessarar aldar, sem þegar hefur hlotið viðurkenningu, t.d. tónlistarmanna eins og Mahlers, Stravinsky og Schönbergs og annarra slíkra, gerir kröfur til enn fleiri hljóðfæraleikara í sinfónískri hljómsveit heldur en t.d. þarf til að skipa þær sem fá ráðið við verk manna eins og Beethovens og Brahms frá síðustu öld. Þetta úrlausnarefni er fólgið í eðli þeirrar listgreinar sem tónlistarmenn fást við, og þetta er mál sem menn verða að líta á þegar ákveðið er hversu miklu fé eigi að verja til starfsemi sinfónískrar hljómsveitar.

Það er inntakið í því ákvæði sem hér hefur verið mjög rætt, hvort hægt er að tryggja Sinfóníuhljómsveitinni ákveðinn fjölda starfsmanna í lögum eða hvort það á að vera undir hælinn lagt frá ári til árs, hvort hljómsveitin, blátt áfram vegna starfsmannafjöldans, ræður við ákveðin verk eða jafnvel verk frá heilum tímabilum í tónlistarsögunni. Ég hef nú orðið langorðari um þetta efni en ég ætlaði mér þegar ég kvaddi mér hljóðs. En ég tel mjög brýnt að menn misskilji ekki, þegar um svo þýðingarmikið mál er fjallað sem starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, grundvallaratriði varðandi starfsskilyrði sem sú listgrein skapar sem sinfóníuhljómsveit færir mönnum í þeim veglegasta búningi, sem tónskáld hafa valið verkum sínum.