24.10.1977
Neðri deild: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ágætan stuðning við þetta mál. Skilist mér að hver einasti þm., sem hér hefur tekið til máls, hafi lýst stuðningi við frv. Það er t.d. ekki bráðónýtt fyrir mig að fá stuðning tveggja fyrrv. menntmrh. við þetta frv. Því betur kemur það sér fyrir núv. ráðh. þar sem hann þekkir ekki nóturnar og er þar að auki nokkurn veginn laglaus! En ég held að það hafi verið rétt, sem ég fullyrti í framsöguræðu minni, að tilverurétt Sinfóníuhljómsveitar Íslands dregur enginn í efa lengur, a.m.k, ef marka má þverskurðinn af þeim umr. sem hér hafa farið fram.

Hv. þm. Ellert Schram sagði að Sinfóníuhljómsveitin væri rós í hnappagati menningarinnar á Íslandi, og þetta er satt svo langt sem það nær. En hún er þó miklu meira, því hún er stórkostlegur starfsvettvangur fyrir tónlistarfólkið og gífurlegur bakstuðningur og hvati fyrir allt tónlistarlíf í þessu landi. Á því held ég að sé enginn vafi.

Það hefur dálítið mikið verið rætt um töluna 65, og það er kannske að vonum. Mér líst nú eiginlega enn verr á það ákvæði að láta fjvn. ráða þessu, þegar á það var bent hér í umr. að þá mundi fjvn. í leiðinni athuga verkefnalistann og í raun og veru vera endanlegur úrskurðaraðili um það, hvað spilað væri á tónleikum. Mér líst nú eiginlega enn verr á þetta eftir því sem ég hugsa það betur og eftir því sem það er skýrt betur út, hvað þetta hefði að þýða í raun og veru. Ég hef það fyrir satt, að það sé mjög erfitt að takast á við mörg þau verk, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur leikið að undanförnu, og önnur ámóta með öllu færri hljóðfæraleikurum en þeirri tölu sem þarna er nefnd. Að vísu telur hv. 5. þm. Vestf. að svo góðir geti hljómlistarmennirnir verið, svo öflugir, að þeir þurfi ekki að vera svona margir. Koma mér þá í hug ummæli sem höfð eru eftir ágætum menntamanni og skólamanni. Hann hafði verið hér í Þjóðleikhúsinu, séð marga menn að störfum niðri í hljómsveitargryfjunni og spurt hvort þeir þyrftu nú að vera svona margir að þessu. Já, danshljómsveitir eru nú í beinu sambandi við Búrfellsvirkjun, en það er áreiðanlega ekki neitt slíkt sem vakir fyrir hv. 5. þm. Vestf., heldur ofurtrú á mætti einstaklingsins 1 En það sem fyrir mér vakir með því að fallast á töluna 65, eins og sett er í frv. af meiri hl. n., þá geri ég það fyrst og fremst af öryggisástæðum vegna hljómsveitarinnar. Auðvitað er þetta að vísu einnig öryggi gagnvart fjármálahliðinni, að ekki verði farið þar langt fram úr hófi, fram úr því sem geta ríkissjóðs leyfir. En mín hugsun er fyrst og fremst sú, að gera þetta af öryggisástæðum vegna hljómsveitarinnar.

Ég er ekki einn af þeim ótalmörgu sem syngja þann sönginn, að það eigi í líf og blóð að draga úr samneyslu og sameiginlegri þjónustu við landsmenn. Ég held að þetta sé varasamur áróður, og mér sýnist nú satt að segja, að það sé aðeins að fjara undan þessu og menn geri sér á ný grein fyrir því, að svo best búum við vel í þessu landi að við leggjum nokkuð hart að okkur til þess að fullnægja hinum sameiginlegu þörfum þjóðfélagsins á ótalmörgum sviðum.

Ég held það sé alveg rétt, sem hefur komið hér fram í máli manna, að tilvera Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi oft hangið á bláþræði, ekki síst á árum áður, t.d. í þann tíð sem hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, var menntmrh. Hitt er svo annað mál, að það hefur ekki heldur núna síðustu missirin verið alveg sléttur sjór, þó að holskeflur hafi ekki risið eins hátt og þá og auðveldara að komast leiðar sinnar í því sjólagi, sem verið hefur, nú en þá, eins og sést af umr. hér á hv. Alþ. núna.

En hv. þm. Jónas Árnason, hv. 5. þm. Vesturl., minntist á leiklistarmálin og taldi að lítið væri til leikstarfsemi varið og sérstaklega til áhugaleikfélaganna. Ég er honum alveg sammála um það, að þar þurfum við að gera betur. En það breytir ekki því sem hér er um að ræða. Það gildir sem skrifað stendur, að þetta bar yður að gera og hitt eigi ógert að láta! Hann telur að miklu fleiri njóti leiklistar heldur en tónlistar, og má vera að það sé rétt. Leiklistarstarfsemi, almenn, var fyrir löngu miklu öflugri í landinu og útbreiddari heldur en hljómlistin. En við erum að reyna að vinna okkur upp á sviði tónlistarinnar. Og ég vil taka undir það sem fram kom hér hjá hv. 3. landsk. þm., ég er alveg andvígur því að við förum að kanna það, hvaða stéttir njóti þessarar eða hinnar listgreinarinnar, fljótt á litið a.m.k. enda hef ég aldrei hugleitt þetta, ég verð að segja það alveg eins og er, að við þurfum nú að fara að rannsaka það hér á Íslandi, þessir 200 þús. menn, hvaða stéttir njóti listgreina. Ég held, að við séum ekki fleiri en svo, að við eigum bara að reyna, t.d. með tónlistina, að þróa hana upp og útbreiða hana almennt meðal fólksins. Og við erum að vinna að þessu, kannske er of mikið að segja að það sé gert á myndarlegan hátt, en þó með ýmsu móti. Það er að vísu allt of lítil tónmenntakennsla í grunnskólunum, og menn hafa uppi ýmsar hugmyndir og þeim hefur verið hreyft hér á Alþ., hvernig þar mætti koma við nýjum aðferðum. En tónlistarskólarnir okkar víðs vegar um landið hafa verið efldir, m.a. með löggjöf nýlega, og eru sífellt að eflast. Og það vita sjálfsagt allir sem reynt hafa, að þar sem þeir hafa starfað gerbreytist viðhorfið og menn kunna betur en áður að meta gildi tónlistar. Við höfum ýmsa sérskóla á tónlistarsviðinu og erum að reyna að efla þá smátt og smátt, og örlítil viðleitni hefur verið sýnd til stuðnings, með því að taka efstu bekki listaskólanna undir námslánakerfið. En sem sagt, ég álít að við eigum að reyna að þróa þessi mál almennt og á breiðum grunni og ekki fara út í að byggja það á sérstökum rannsóknum um hvaða stéttir sæki leikhús og hljómleika o.s.frv.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. fór nokkrum almennum orðum um afstöðu til fjárveitinga til lista og ýmissa menningarmála almennt. Ég vil af því tilefni aðeins segja það, að í fjvn. starfar sérstök undirnefnd sem fjallar um framlög til skólabygginga. Og auðvitað verðum við að taka svo gríðarlega dýran og stóran þátt eins og skólamálin föstum tökum í sambandi við fjárveitingar og gerum það eftir því sem menn hafa tök á. En ég er honum alveg sammála um að ég er ekki ánægður með það, hvernig staðið hefur verið að verki til lengri tíma þegar fjallað er um fjárstuðning við almenn menningarmál. Þegar við hv. 1. þm. Norðurl. e áttum báðir sæti í fjvn., þá gerðum við tilraun, sem að vísu fór út um þúfur, til þess að fá þessi mál athuguð sérstaklega, ýmsa þessa styrki, sem þó eru ekki stórir í sniðum, en geta haft mjög mikla þýðingu og þyrfti að aukast, eins og t.d. við almennu leiklistarstarfsemina. En þetta mistókst og þessi mál hafa ekki fengið sams konar meðferð, vil ég segja, hjá fjárveitingavaldinu eins og ýmsir aðrir flokkar þjónustumála sem auðvitað kosta meiri fjármuni í heild, eins og hafnamál, vegamál, sjúkrahúsin og fleiri mál sem hvert um sig fær sína undirnefnd í fjvn. Ég held að það væri okkur nauðsynlegt og þeir peningar gætu vel skilað sér, sem væri bætt við í þá fjárhæð sem fer til almennra félags- og menningarmála og listastarfsemi í landinu. Þeir gætu skilað sér í mynd betra uppeldis, því að einn þáttur í listastarfseminni og sérstaklega meðal áhugamanna, en reyndar einnig á öllu því sviði, er sá, að með iðkun lista nýta menn betur tómstundir sínar, sem nú fer fjölgandi góðu heilli, nýta þær betur sér til uppbyggingar og lífsfyllingar heldur en ella.

Ég vil nú vona að það fari að rofa til í þessu efni, Ég verð var við það að fjölmenn samtök, ekki síst yngra fólks, veita menningarmálum mikla athygli. Ég hef t.d. nýlega tekið eftir því, að Samband ungra sjálfstæðismanna hefur tekið þessi mál sérstaklega fyrir og gert um þau yfirgripsmiklar ályktanir, og ég fagna þessari athygli sem menn veita menningarmálunum. Þau eru ekki ein um þetta; þessi samtök. Ég held að við þurfum að gefa þeim betri gaum, ekki eingöngu stóru viðfangsefnunum, eins og Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúsinu sem eru stolt okkar alveg sérstaklega, heldur einnig hinni almennu starfsemi.

Af því að ég nefndi Þjóðleikhúsið, þá kemur mér það í hug, að hv. 5. þm. Vestf. taldi að þjónustu Þjóðleikhússins við landsbyggðina hefði hrakað. Ég held að þetta sé misskilningur. Ég held að leikferðir út um land séu stöðugt farnar, en ég hef ekki tölu um það hér við höndina. Hitt veit ég, að Þjóðleikhúsið hefur aukið mjög þjónustu sína í því formi að láta leikfélögum úti á landi í té leikstjóra og ýmsa aðra fyrirgreiðslu og leiðbeiningar. Þetta er auðvitað eins og það á að vera. Svo vil ég líka fullvissa þennan hv. þm. um það, að Ríkisútvarpið gerir það sem það telur sér fært til þess að koma áleiðis til landsmanna því besta sem fram fer í menningarmálunum hér í höfuðborginni. Það er áreiðanlega vakandi fyrir því og teygir sig eins langt að því leyti og það telur sér mögulegt.